[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Kraftur verður í loðnumælingum í vikunni. Vonir standa til að með sjö skipum takist að ná heildarmælingu á loðnugöngum og þá að Vestfjarðasvæðinu og Grænlandssundi meðtöldu.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Kraftur verður í loðnumælingum í vikunni. Vonir standa til að með sjö skipum takist að ná heildarmælingu á loðnugöngum og þá að Vestfjarðasvæðinu og Grænlandssundi meðtöldu. Þar hamlaði hafís mælingum bæði í desember og byrjun janúar, en nú hefur ísinn aðeins hopað og er vonast eftir veðurglugga til mælinga út þessa viku.

Nokkurrar bjartsýni gætti meðal útgerðarmanna, sem rætt var við í gær um að bætt verði við loðnukvótann. Meðal annars í ljósi þess að rannsóknaskip voru í loðnu við hafísröndina úti af Vestfjörðum þegar þau urðu frá að hverfa. Einnig með það í huga að ungloðnumæling haustið 2019 á árganginum sem á að bera uppi veiðina í vetur gaf upphafskvóta upp á 170 þúsund tonn. Sú ráðgjöf var dregin til baka í haust.

Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson taka þátt í mælingunni næstu daga, einnig uppsjávarskipin Ásgrímur Halldórsson SF, Aðalsteinn Jónsson SU og Börkur NK. Bjarni Ólafsson AK og Hákon ÞH taka þátt í verkefninu og verður þeirra hlutverk að afmarka dreifingu loðnunnar.

Vel verður fylgst með

Útgerðarmenn sem rætt var við í gær sögðu að vel yrði fylgst með framvindunni á næstunni. Bæði úr loðnuleiðangrinum, en einnig upplýsingum frá veiðiskipum. Þannig var grænlenska skipið Polar Amaraoq komið til veiða úti af Austfjörðum í gær. Þá er ekki ólíklegt að norsk veiðiskip birtist á Íslandsmiðum um eða upp úr helgi, en á vertíðinni 2016 komu yfir 60 norsk skip til loðnuveiða á Íslandsmiðum. Í Noregi hafa verið umræður um að sameina loðnukvóta á skip til að gera veiðarnar hagkvæmari.

Miðað við útgefna ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar upp á 61 þúsund tonn og samninga við aðrar þjóðir koma alls rúmlega 20 þúsund tonn í hlut íslenskra veiðiskipa. Það er ekki mikið í sögulegu samhengi, en samt betra heldur en í fyrra og hitteðfyrra þegar loðnubrestur var.

Ekki liggur fyrir hvenær íslensku skipin hefja veiðar, en spurn er eftir loðnuafurðum á markaði. Eftir því sem líður á eykst hrognafylling í loðnunni, sem gerir hana verðmætari.

16 þúsund tonn af kolmunna

Fyrstu vikur ársins stundaði hluti uppsjávarskipanna kolmunnaveiðar fyrir sunan Færeyjar. Algengt er að dragi úr afla er líður á janúar, en kolmunninn er á suðurleið. Veiði hefst svo gjarnan djúpt vestur af Írlandi undir miðjan febrúar.

Alls er kolmunnaafli ársins orðinn 16.288 tonn, samkvæmt yfirliti á heimasíðu Fiskistofu. Átta skip hafa landað afla eftir einn túr og kom Beitir með rúmlega þrjú þúsund tonn af Færeyjamiðum.

Af íslensku skipinum var aðeins Hoffell SU á Færeyjamiðum í gær, í sínum öðrum túr í ár. Samkvæmt upplýsingum frá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði var rólegt yfir aflabrögðum, en þokkalegt veður. Skipið var komið með tæp 1.100 tonn.