Furðuhjón Wanda og Vision í WandaVision.
Furðuhjón Wanda og Vision í WandaVision.
Nýir þættir Marvel, WandaVision, sem finna má á veitunni Disney+, hafa komið skemmtilega á óvart og sýnt að hægt er að leika sér með ofurhetjuformið á ýmsa vegu, teygja það og snúa upp á.

Nýir þættir Marvel, WandaVision, sem finna má á veitunni Disney+, hafa komið skemmtilega á óvart og sýnt að hægt er að leika sér með ofurhetjuformið á ýmsa vegu, teygja það og snúa upp á. Í þáttunum segir af tveimur ofurverum Marvel-sagnanna, þeim Wöndu og Vision, sem eru hjón og fara leynt með krafta sína í bandarísku úthverfi upp úr miðri síðustu öld. Fyrstu tveir þættirnir eru svarthvítir en í öðrum þætti fara að birtast hlutir í lit án nokkurrar skýringar. Sú ráðgáta er ein af mörgum í þáttunum sem nú eru orðnir þrír og í þeim þriðja eru þau Wanda og Vision komin nær okkur í tíma. Tíminn líður einkennilega hratt og til dæmis má nefna að Wanda verður ólétt að tvíburum og fæðir þá sólarhring síðar í stað níu mánaða. Kemur þessi hraði þeim hjónum á óvart en nágrannar þeirra og læknir virðast ekki kippa sér mikið upp við atburðarásina. Ekki er allt sem sýnist og ein persóna þáttanna virðist úr öðrum heimi, hinum svonefnda kvikmyndaheimi Marvel, Marvel Cinematic Universe eða MCU, og ógna tilveru hjónanna. Auk þess virðast þau Vision og Wanda vera minnislaus, vita ekki hvers vegna eða hversu lengi þau hafa búið í þessu gerilsneydda úthverfi eða jafnvel hver þau eru. Stórskrítnir og skemmtilegir þættir sem hægt er að mæla með.

Helgi Snær Sigurðsson

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson