Ásdís Erna Guðmundsdóttir fæddist 17. febrúar 1954. Hún lést 9. janúar 2021.

Útför Ásdísar fór fram í kyrrþey.

Yndislega systir mín, mikið á ég eftir að sakna þín, stóra systir mín sem ég leit svo upp til. Það var alltaf svo stutt í brosið þitt og húmorinn. Það var ómetanlegt hvað við náðum að halda góðum tengslum þrátt fyrir að þú hafir verið alin upp í Vestmannaeyjum hjá ömmu en ég í Reykjavík hjá mömmu.

Það eru margar góðar minningar sem við áttum og koma upp í hugann núna. Það gleymist seint þegar ég kom til Eyja fjórtán ára og við unnum í frystihúsinu. Þá brölluðum við mikið saman og amma dekraði við okkur eins og prinsessur. Það kom fljótt í ljós hvað þú varst handlagin og snögg að vinna enda fékkstu alltaf háan bónus í frystihúsinu og ekki nokkur leið að halda í við þig í þeim efnum. Ég dáðist alltaf að því að þú gast prjónað og saumað allt sem þér datt í hug á þig og þína, þig munaði heldur ekki um að sauma á mínar stelpur líka. Svo sendirðu mér hannyrðauppskriftir á milli landshluta, hvattir mig áfram og sagðir mér til í gegnum síma þar til flíkurnar voru fullkláraðar. Þetta mat ég mikils. Seinna komstu til Grundarfjarðar með fjölskylduna og við fórum í útilegur, veiðitúra og reiðtúra saman með krakkana. Þegar við svo heimsóttum ykkur til Eyja voru ævintýrin nú ekki minni.

Þú varst heppin með börnin þín og barnabörnin sem þú varst svo stolt af. Þú varst svo mikil móðir og amma í þér, ljómaðir alltaf þegar þú talaðir um þau.

Ásdís mín, mér þykir svo vænt um þig og það er búið að vera erfitt að fylgjast með þér í erfiðu veikindunum þínum síðustu árin. En eins og þér var lagið barstu þig alltaf svo vel. Nú ert þú frjáls frá veikindum og amma og afi taka vel á móti þér.

Hvíl í friði systir mín.

Megi algóður guð þína sálu nú geyma,

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár,

þó komin sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

( Höf. óþekktur)

Elsku Aldís, Ólöf, Pálmi Ernir og fjölskyldur, missir ykkar er mikill.

Megi góður guð styrkja ykkur í sorginni.

Kolbrún Linda.