Bandaríkjaher Banninu var mótmælt á sínum tíma árið 2017.
Bandaríkjaher Banninu var mótmælt á sínum tíma árið 2017. — AFP
Joe Biden Bandaríkjaforseti samþykkti í gær tilskipun, þar sem transfólki var leyft að þjóna í bandaríska hernum á ný, en Donald Trump, fyrirrennari hans, setti bann á slíkt árið 2017.

Joe Biden Bandaríkjaforseti samþykkti í gær tilskipun, þar sem transfólki var leyft að þjóna í bandaríska hernum á ný, en Donald Trump, fyrirrennari hans, setti bann á slíkt árið 2017. Sagði Biden að allir Bandaríkjamenn sem væru hæfir til þess að vera í hernum ættu að fá leyfi til þess.

Í tilskipuninni er sérstaklega bannað að vísa fólki úr hernum vegna kynvitundar sinnar, og sagði þar að herafli Bandaríkjanna þrifist best á því að þar starfaði fjölbreyttur hópur Bandaríkjamanna sem gæti mætt þeim háu kröfum sem gerðar eru til herþjónustu.

Trump bannaði herþjónustu transfólks í júlí 2017, en Barack Obama hafði áður sett áætlun um að þau gætu gegnt herþjónustu í gang. Sagði Trump að stefna Obama í málaflokknum væri truflandi og dýr, auk þess sem hún drægi úr viðbúnaðarstigi og „félagsskap“ meðal hermanna.

Styður tilskipunina

Lloyd Austin, sem nýlega var skipaður í embætti varnarmálaráðherra, sagði í gær að hann styddi tilskipun Bidens og að varnarmálaráðuneytið myndi þegar í stað grípa til viðeigandi aðgerða til þess að hrinda henni í framkvæmd. Þá myndi ráðuneytið sjá um lækniskostnað hermanna sem tengdist leiðréttingarferlinu.

Bannið tók gildi 2019 og var þeim sem þegar höfðu komið út úr skápnum leyft að þjóna áfram, en nýliðum úr hópi transfólks var ekki hleypt inn. Rúmlega 1,3 milljónir manna eru í Bandaríkjaher og áætlar varnarmálaráðuneytið að um 9.000 þeirra séu trans. Þar af eru um þúsund manns sem hafa gengið í gegnum kynleiðréttingarferli.