Frá Englandi Bólusetningarmiðstöð hefur verið sett upp í Winter Gardens í Blackpool á Norðvestur-Englandi. Opna á fleiri en 30 bólusetningarmiðstöðvar gegn Covid-19 víðsvegar um England í þessari viku. Bólusetningarherferðin er sú umfangsmesta sem um getur í sögu Stóra-Bretlands.
Frá Englandi Bólusetningarmiðstöð hefur verið sett upp í Winter Gardens í Blackpool á Norðvestur-Englandi. Opna á fleiri en 30 bólusetningarmiðstöðvar gegn Covid-19 víðsvegar um England í þessari viku. Bólusetningarherferðin er sú umfangsmesta sem um getur í sögu Stóra-Bretlands. — AFP
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Fyrirliggjandi gögn benda ekki til þess að rekja megi tugi dauðsfalla í hópi þeirra sem hafa verið bólusettir gegn Covid-19 beint til bóluefnanna, að sögn vísindamanna. Þetta kemur fram í frétt AFP um dauðsföll og bólusetningar víða í Evrópu.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Fyrirliggjandi gögn benda ekki til þess að rekja megi tugi dauðsfalla í hópi þeirra sem hafa verið bólusettir gegn Covid-19 beint til bóluefnanna, að sögn vísindamanna. Þetta kemur fram í frétt AFP um dauðsföll og bólusetningar víða í Evrópu.

Heilbrigðisstofnanir leggja áherslu á að meirihluti þeirra sem létust í kjölfar bólusetningar hafi verið eldra fólk sem var viðkvæmt og oft mjög veikt.

Norðmenn greindu frá því í síðustu viku að 33 úr hópi um 20.000 íbúa öldrunarheimila hefðu látist eftir að þeir fengu fyrri sprautuna af bóluefni frá Pfizer/BioNTech. Að minnsta kosti 13 þeirra sem létust voru ekki aðeins háaldraðir heldur einnig veikburða og með alvarlega sjúkdóma, að sögn Norsku lýðheilsustofnunarinnar.

Tekið var fram að greining á dánarorsökum hefði ekki farið fram en bent var á að eðlilegar hliðarverkanir bólusetninga, eins og hiti eða ógleði, gætu hafa haft áhrif. Fréttin olli áhyggjum utan Noregs og ýtti undir tortryggni í garð bólusetninganna. Í framhaldi af því lögðu heilbrigðisyfirvöld áherslu á að ekki hefði verið sýnt fram á nein tengsl á milli bóluefnisins og dauðsfallanna. Á föstudaginn var höfðu Frakkar skráð níu dauðsföll langveikra sjúklinga á hjúkrunar- og öldrunarheimilum eftir bólusetningu. Þá var búið að bólusetja um 800.000 manns í landinu. Franska lyfjastofnunin sagði að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum benti ekkert til þess að dauðsföllin tengdust bólusetningunni. Eins voru dæmi um 13 dauðsföll aldraðra í Svíþjóð og sjö á Íslandi sem ekki var hægt að rekja beint til bóluefnisins. Heilbrigðisstarfsmaður í Portúgal lést tveimur dögum eftir bólusetningu. Krufning sýndi engin tengsl á milli andlátsins og bóluefnisins.

Evrópska lyfjastofnunin (EMA) sagði að þrátt fyrir þessi andlát hefði Comirnaty ekki valdið neinum sérstökum áhyggjum til þessa, en Comirnaty er vöruheiti Pfizer-bóluefnisins. EMA tók fram að yfirvöld rannsökuðu andlátin til að athuga hvort bóluefnið hefði verið ástæða þeirra. Stofnanir ESB og einstakra Evrópulanda rannsaka einnig ábendingar heilbrigðisstétta, lyfjafyrirtækja og sjúklinga varðandi bólusetningar. Að svo stöddu er fjöldi dauðsfalla í hópi bólusettra ekki talinn vera óeðlilega mikill. Víða um lönd eins og í Frakklandi, Noregi, Stóra-Bretlandi, á Spáni og á Íslandi hefur verið byrjað á að bólusetja elsta fólkið. „Það kemur ekki á óvart að sumt af þessu fólki verði veikt í ljósi aldurs og undirliggjandi sjúkdóma skömmu eftir bólusetningu án þess að bóluefninu sjálfu sé um að kenna,“ sagði lyfjastofnun Stóra-Bretlands (MHRA).

Meira en 60 milljónir manna í a.m.k. 64 löndum og landsvæðum höfðu verið bólusettar á laugardaginn var, að sögn AFP.