Sókn Dominykas Milka sækir að Kristni Pálssyni í Keflavík í gær.
Sókn Dominykas Milka sækir að Kristni Pálssyni í Keflavík í gær. — Morgunblaðið/Skúli B. Sig.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfuboltinn Bjarni Helgason bjarnih@mbl.

Körfuboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Dominykas Milka átti stórleik fyrir Keflavík þegar liðið fékk Grindavík í heimsókn í toppslag úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Dominos-deildarinnar, í Blue-höllina í Keflavík í fimmtu umferð deildarinnar í gær.

Leiknum lauk með 94:67-stórsigri Keflavíkur en Milka skoraði 23 stig og tók tólf fráköst í liði Keflavíkur.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og leiddi Keflavík með fimm stigum í hálfleik, 43:38. Grindvíkingar skoruðu einungis 13 stig gegn 25 stigum Keflvíkinga í þriðja leikhluta og Grindjánum tókst ekki að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta.

„Það var helst til kæruleysi heimamanna, ásamt fínni hittni Grindvíkinga, sem gerði það að verkum að munurinn var svo lítill í hálfleik.

Grindvíkingurinn Joonas Jarvelainen fór hamförum í fyrri hálfleik og skoraði 16 stig en hann var sendur í sturtu í þriðja leikhluta þegar hann fékk tæknivillu fyrir munnsöfnuð.

Reyndist það vendipunktur í leiknum og var eftirleikurinn auðveldur fyrir Keflvíkinga,“ skrifaði Skúli B. Sigurðsson meðal annars í umfjöllun sinni um leikinn á mbl.is.

Títtnefndur Jarvelainen var stigahæstur Grindvíkinga í leiknum með 21 stig og Ólafur Ólafsson átti einnig góðan leik fyrir Grindavík og skoraði 18 stig.

Þetta var fyrsta tap Grindvíkinga í deildinni á tímabilinu en á sama tíma eru Keflvíkingar í efsta sæti deildarinnar og eina liðið sem er án taps eftir fyrstu fimm umferðir tímabilsins.

*Þá er Tindastóll kominn á beinu brautina í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni, eftir 103:86-sigur gegn Hetti í MVA-höllinni á Egilsstöðum.

Antanas Udras skoraði 23 stig og tók tíu fráköst fyrir Tindastól og Shawn Glover skoraði 22 stig fyrir Stólana.

Michael Mallory var stigahæstur Hattarmanna með 23 stig en liðið er á botni deildarinnar án sigurs.

Tindastóll, sem var án sigurs í síðustu tveimur leikum sínum fyrir leik gærkvöldsins, er í níunda sæti deildarinnar með 4 stig.

* Tyler Sabin f ór enn og aftur á kostum fyrir KR þegar liðið vann nauman fjögurra stiga sigur gegn Þór frá Akureyri í Höllinni á Akureyri.

Sabin skoraði 32 stig og gaf átta stoðsendingar en leiknum lauk með 88:92-sigri Vesturbæinga.

Sabin hefur skorað 35 stig að meðaltali í fyrstu fjórum leikjum sínum fyrir KR á tímabilinu en Jakob Örn Sigurðarson skoraði 21 stig fyrir KR.

Ivan Aurrecoechea var stigahæstur Þórsara með 30 stig og nítján fráköst og Srdan Stojanovic skoraði 22 stig og tók ellefu fráköst.

*Þá var Ragnar Örn Bragason stigahæstur Þórs frá Þorlákshöfn þegar liðið valtaði yfir ÍR í Icelandic Glacial-höllinni í Þorlákshöfn.

Leiknum lauk með 47 stiga sigri Þórsara, 105:58, en Ragnar Örn skoraði 18 stig. Collin Pryor var stigahæstur ÍR-inga með 18 stig en aðrir leikmenn liðsins náðu sér engan veginn á strik.