Fjóla H. Guðjónsdóttir fæddist 7. september 1926. Hún lést 12. janúar 2021.

Útför Fjólu fór fram 22. janúar 2021.

Við kveðjum Fjólu föðursystur okkar með þakklæti fyrir áralanga samfylgd sem nú vekja ljúfar minningar. Hún var glaðlynd, stutt í dillandi hlátur og vildi allt fyrir okkur gera. Henni féll aldrei verk úr hendi. Það var alltaf heimabakað með kaffinu og saumavélin var alltaf uppi á borði – í stöðugri notkun. Heimilið var fjörugt, Anna elst og svo þrír líflegir bræður, Sverrir, Guðni Rúnar og Hilmar. Systkinin voru öll á kafi í músík og öllu sem því fylgdi. Foreldarnir Fjóla og Agnar voru gestrisin og vinmörg. Þau höfðu unun af söng og dansi og það var upplifun að horfa á þau svífa um dansgólfið.

Þrátt fyrir stórt heimili tóku þau Fjóla og Agnar oft að sér unglinga sem bjuggu hjá þeim um lengri eða skemmri tíma. Síðan komu barnabörnin í stríðum straumum og áttu öll öruggt skjól hjá ömmu og afa. Þeir eru ófáir unglingarnir sem Fjóla kom til manns. Þegar við komum í heimsókn var alltaf spennandi að sjá hverjir sætu við eldhúsborðið og umræðurnar sem þar spunnust voru jafnan skemmtilegar. Við erum sérlega þakklát fyrir hvað Fjóla og bróðir hennar, faðir okkar Guðbjörn, studdu hvort annað alla tíð. Systkinabandið var sterkt og samgangur þeirra á milli mikill.

Ofan á allt þetta vann Fjóla sem handavinnukennari og í mörg ár sem fararstjóri með Agnari á ferðaskrifstofu þeirra, Bændaferðum. Stígandi aldur og sjúkdómar öftruðu ekki Fjólu að njóta lífsins. Hún var fljót að skipta um umræðuefni ef kvillar komu til tals og oftast endaði samtalið í eftirminnilegum hlátri.

Okkar innilegustu samúðarkveðjur til Agnars og allrar stórfjölskyldunnar. Óteljandi minningar og hughrif munu fylgja okkur um ókomin ár.

Hrafnhildur Soffía og Björn.