Werner Ívan Rasmusson
Werner Ívan Rasmusson
Eftir Werner Ívan Rasmusson: "Ef menn ætla í alvöru að ganga á hólm við sætindin er smá verðhækkun ekki lausnin."

Starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra hefur komist að þeirri niðurstöðu, að draga megi úr neyslu sætinda með álagningu 20% vörugjalds. Varlega trúi ég því að sú aðgerð reynist árangursrík, enda minnist ég ekki frétta um, að dregið hafi úr sölu tóbaks og áfengis á árum áður, þrátt fyrir umtalsverðar árvissar hækkanir á þeim varningi. Fíklar láta yfirleitt ekki verð vímuefna stoppa sig, og hvað þá þegar um smáaura er að ræða, því hver sælgætiseining kostar sjaldnast margar krónur.

Ekki fór að draga úr tóbaksnotkun svo neinu næmi, fyrr en fræðslan og áróðurinn gegn tóbakinu fór fram í framhaldsskólunum. Og punkturinn yfir i-ið var settur þegar verslanir settu tóbaksvörur á bak við lás og slá, ef svo má að orði komast.

Sem betur fer er áfengi enn þá aðeins selt á vegum ÁTVR og er það að mínu mati besta lausnin, ekki síst vegna þess, að vöruframboð þar er bæði mikið og fjölbreytt. Vafasamt er að einkafyrirtæki hefðu fjárhagslegt bolmagn til þess að standa eins vel að verki. Ekki má heldur gleyma því, að kostnaðurinn við að bæta það heilsufarslega tjón, sem neysla áfengis veldur, lendir á ríkinu og því sanngjarnt að það fái arðinn af sölunni.

Ef menn ætla í alvöru að ganga á hólm við sætindin er smá verðhækkun ekki lausnin. Áhrifamest væri án efa, að meðhöndla þau eins og tóbakið og loka þau inni. En það er að sjálfsögðu ekki raunhæft. Betra en ekkert væri að hafa sælgætið í sérverslunum, því þá lægi ekki eins vel við að grípa nammibita með matarkaupunum, en það er vart raunhæft heldur.

Vandamálið í hnotskurm er, að neysla sælgætis og annarra sætinda er orðin allt of stór hluti af daglegri fæðu þorra almennings. Aukið framboð hvetur til aukinnar neyslu og aukin kaup leiða til aukins framboðs o.s.frv. Við þurfum ekki nema að ganga inn í næsta stórmarkað. Það fyrsta sem blasir við okkur eru fjallháir staflar af ótalmörgum girnilegum drykkjum, mishollum að vísu, og jafnframt fullir kassar af litskrúðugu sælgæti, algjör veisla fyrir augun, en þau eru oftar en ekki sætindasjúkari en maginn.

Ef skoðuð er staðsetning þessara stafla má glöggt skynja að um er að ræða vöru, sem skiptir verulegu máli fyrir afkomu verslunarinnar og nægir að benda á ört fjölgandi og stækkandi sætindastafla fyrir jólin.

Við erum trúlega flest sammála um nauðsyn þess að minnka sælgætisát af heilsufarsástæðum. Stjórnvöld leysa ekki vandann ein og sér, við verðum öll að hjálpast að og til þess þarf hugarfarsbreytingu og margir verða að færa fórnir. Laugardagur var gerður að nammidegi og hann átti bara að vera einu sinni í viku, en svo fóru nammipokarnir að stækka og birgðir dugðu fram á sunnudag jafnvel mánudag. Hugmydin var góð, verndun tanna barna, en voru það foreldrarnir eða afar og ömmur sem gerðust Júdasar gagnvart tönnunum?

Ekki má gleyma bakaríunum, þar er lítið framboð á öðru bakkelsi en því, sem varla sést í fyrir súkkulaðihjúp, glassúr, skrautsykri og öðru slíku. Meira að segja eru kleinur og tebollur hjúpaðar súkkulaði að ég nefni nú ekki kleinuhringina.

Spurningin hlýtur að vera hvening á að koma á samvinnu á milli sælgætis-framleiðenda annars vegar og hollustuverndar hins vegar. Ljóst er að um mikla fjármuni er að ræða, ekki bara fyrir framleiðendur og seljendur, heldur og fyrir samfélagið í heild. Fyrirtækin skapa störf, bæði beint og óbeint, framleiða verðmæta söluvöru og greiða skatta og auka hagvöxtinn.

Það verður ekki auðvelt verkefni að draga úr sætindaáti landans, síður en svo. Ég óttast að brotthvarf frá sætindunum verði mörgum mikil þrautarganga, en heilsuspillandi áhrif þeirra eru svo mikil, að ekki er lengur unnt að líta fram hjá þeirri staðreynd og grípa til varna.

Höfundur er eldri borgari.