Skotland Alex Salmond og Nicola Sturgeon meðan allt lék í lyndi. Samband þeirra er baneitrað nú, en Salmond telur hana hafa bruggað sér launráð.
Skotland Alex Salmond og Nicola Sturgeon meðan allt lék í lyndi. Samband þeirra er baneitrað nú, en Salmond telur hana hafa bruggað sér launráð.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Andrés Magnússon andres@mbl.is Skotar ganga til þingkosninga hinn 6. maí og flestir ganga að því vísu að Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) vinni þar enn einn kosningasigurinn og endurheimti meirihluta á skoska þinginu í Holyrood í Edinborg. Nema eitthvað óvænt gerist.

Fréttaskýring

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Skotar ganga til þingkosninga hinn 6. maí og flestir ganga að því vísu að Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) vinni þar enn einn kosningasigurinn og endurheimti meirihluta á skoska þinginu í Holyrood í Edinborg. Nema eitthvað óvænt gerist.

SNP hefur unnið allar kosningar í Skotlandi frá árinu 2011, hefur verið með örugga forystu í skoðanakönnunum undanfarið ár og meira en 50% stuðning eins og stendur. Yfirburðirnir eru slíkir að grínast er með að Skotland sé síðasta einsflokksríki í Evrópu.

Sjálfstæðisbaráttan enn á ný

Þær kosningar munu þó ekki aðeins snúast um hver hafi tögl og hagldir í skoska þinginu, því um helgina sagði Nicola Sturgeon, leiðtogi SNP og forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, að fengi hún sigur myndi hún boða aftur til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands, hvort sem Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, líkaði það betur eða verr.

Þetta vill Sturgeon þrátt fyrir að hafa staglað á því fyrir sams konar þjóðaratkvæðagreiðslu 2014, að þar yrði gert út um þau mál næsta mannsaldur, það væri eina tækifærið. Hún rökstyður það með því að nú sé Brexit, útganga Breta úr Evrópusambandinu, gengin í gegn, en meirihluti Skota hafi verið andsnúinn henni. Fyrir vikið séu forsendurnar gerbreyttar, Skotar vilji úr breska ríkjasambandinu og í evrópska ríkjasambandið.

Góð plága hjá Sturgeon

Brexit skipti máli í hugum margra Skota, líklegra má þó telja að Sturgeon sé einfaldlega að nota það tækifæri sem upp er komið, en það má frekar rekja til heimsfaraldursins. Skotar eru flestir ánægðir með snaggaralega frammistöðu sinnar konu í baráttu við kórónuveiruna, en hún hefur verið daglegur gestur á heimilum landsmanna í beinni útsendingu BBC í Skotlandi. Persónulegar vinsældir hennar hafa aukist verulega við það, svo mjög raunar að aðrir flokkar hafa kvartað undan því að ríkissjónvarpinu hafi þar verið pólitískt misbeitt. Það er þeim örugglega enn sárara en ella fyrir það, að Skotar hafa orðið nánast jafnilla úti og Englendingar í plágunni og þeim gengur miklu verr við bólusetninguna. Þær staðreyndir virðast hins vegar í engu hrófla við ímynd landsmóðurinnar.

Á móti má kannski segja að það ætti að vera SNP áhyggjuefni, að hann mælist ekki hærra í skoðanakönnum, Sturgeon er töluvert vinsælli en flokkurinn og stuðningur við hana einnig meiri en við sjálfstæðið.

Vandræðin vegna Salmonds

Hins vegar er annað að valda Sturgeon vanda, sem er mál Alex Salmonds, fyrirrennara hennar. Hann var sakaður um kynferðisbrot á sínum tíma, sem hann var að öllu leyti sýknaður af í fyrra, en stjórnmálaferilinn samt í molum og hann grunar Sturgeon og hennar fólk um græsku í þeirri aðför.

Í ljós hefur komið að Sturgeon hefur ekki sagt alveg satt frá því hvað hún vissi og hvenær og Peter Murrel, framkvæmdastjóri SNP, sem er jafnframt eiginmaður hennar, hefur verið sakaður um meinsæri í málinu.

Þetta kann að skaða Sturgeon er nær dregur kosningum. Samt mun það varla hafa úrslitaáhrif, því öll stjórnmál í Skotlandi eru trompuð af sjálfstæðismálinu.

Fámenn þjóð og klofin

Skotland er um einn þriðji Bretlands, alls um en 78 þúsund km², en Skotar eru um 5,5 milljónir, rúm 8% af íbúum þess.

Skotar og Englendingar gerðu með sér ríkjasamband árið 1707, en til þess að mæta auknum sjálfstæðiskröfum fengu Skotar nokkra heimastjórn árið 1998, þar á meðal eigið þing og heimastjórn. Árið 2014 höfnuðu 55% Skota sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu, en þjóðin má enn heita klofin í sjálfstæðismálunum.