Gleði Frankis Marzo og Rafael Capote fagna sigri gegn Argentínu.
Gleði Frankis Marzo og Rafael Capote fagna sigri gegn Argentínu. — AFP
Katar fylgir Danmörku úr milliriðli tvö í átta liða úrslit á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem fram fer í Egyptalandi.

Katar fylgir Danmörku úr milliriðli tvö í átta liða úrslit á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem fram fer í Egyptalandi.

Katar vann eins marks sigur gegn Argentínu í Kaíró í gær, 26:25, en fyrir leikinn hefði Argentínu dugað jafntefli til þess að komast áfram í átta liða úrslitin. Danir, sem voru öruggir með efsta sæti riðilsins, unnu tólf marka stórsigur gegn Króatíu í Kaíró, 38:26, en með sigri hefðu Króatar tryggt sér sæti í átta liða úrslitum. Í staðinn sitja Króatar eftir með sárt ennið en þetta er í fyrsta sinn síðan 2002 sem Króatar komast ekki í átta liða úrslit á stórmóti. Danir mæta Egyptalandi í átta liða úrslitum í Kaíró en Katar mætir Svíþjóð í Kaíró. Þá mætast Spánn og Noregur í Nýju höfuðborginni og Frakkar og Ungverjaland mætast í Borg El Arab í hinum einvígum átta liða úrslitanna.

Íslensku þjálfararnir Alfreð Gíslason, Dagur Sigurðsson og Halldór Jóhann Sigfússon luku allir leik á heimsmeistaramótinu í gær en Alfreð og lærisveinar hans í Þýskalandi gerðu 23:23-jafntefli gegn Póllandi í Nýju höfuðborginni.

Þýskaland endaði í þriðja sæti milliriðils eitt og lýkur keppni í 12. sæti HM sem er versti árangur Þýskalands á HM frá upphafi en versti árangur Þjóðverja, fyrir HM í Egyptalandi, var í Svíþjóð 2011 þegar liðið endaði í ellefta sæti.

Dagur og lærisveinar hans í Japan lögðu Halldór Jóhann og lærisveina hans í Barein í milliriðli tvö, 29:25.

Japan lýkur keppni á mótinu í 19. sætinu en Barein í 21. sæti.