Guðmundur Magnússon, kennari og leiðsögumaður, fæddist í Reykjavík 11. ágúst 1936. Hann andaðist á hjúkrunarheimilinu Seltjörn á Seltjarnarnesi 16. janúar 2021.

Foreldrar Guðmundar voru Magnús Guðmundsson vélstjóri, f. 14.2. 1907, d. 12.9. 2001 og Björg Sigurjónsdóttir húsfreyja, f. 27.8. 1915, d. 13.9. 1999. Börn þeirra voru fjögur og var Guðmundur elstur. Systkini hans voru Sigurjón, f. 10.7. 1941, d. 27.3. 1993, Friðjón, f. 2.12. 1945 og Ósk, f. 31.1. 1949.

Eftirlifandi eiginkona Guðmundar er Gunnhildur Skaftadóttir landfræðingur, f. 2.6. 1956. Þau gengu í hjónaband 26.3. 1994. Foreldrar Gunnhildar voru Skafti Friðfinnsson, f. 9.9. 1916, d. 29.5. 2007 og Sigríður Svava Runólfsdóttir, f. 5.7. 1920, d. 26.3. 2014.

Guðmundur kvæntist 2. júní 1957 Herdísi Óskarsdóttur, f. 18.6. 1937, leiðir þeirra skildi 1987. Börn þeirra eru: 1) Hulda Guðmundsdóttir verkfræðingur, f. 5.8. 1958, gift Hilmari Þór Sigurðssyni bókasafnsfræðingi, f. 8.7. 1955. Dóttir Huldu er Heiða Dögg Jónsdóttir, f. 1975, faðir hennar er Jón Bragi Gunnlaugsson viðskiptafræðingur, f. 28.6. 1958. 2) Magnús Guðmundsson veðurathugunarmaður, f. 24.11. 1962. Börn: Linda Sif, f. 1994, Guðmundur Freyr, f. 1996, hann á tvö börn, og Herdís Ásta, f. 2002. Móðir þeirra er Eygló Kúld Eiríksdóttir skólaliði, f. 10.6. 1963. 3) Íris Guðmundsdóttir Bowentæknir, f. 14.9. 1963, gift Ólafi Sigurðssyni sjómanni, f. 23.7. 1961. Börn: Helgi Már, f. 1984, hann á fjögur börn, og Birgir, f. 1986. Barnabarnabörn Guðmundar eru sex.

Guðmundur bjó mestalla ævi á Seltjarnarnesi. Hann ólst upp á Sæbóli og bjó þar einnig með Herdísi fyrrverandi konu sinni þar til þau fluttu yfir götuna á Sunnuhvol. Hann bjó síðan á Látraströnd 18 með eftirlifandi konu sinni, þar til hann fluttist á hjúkrunarheimili.

Guðmundur lærði húsasmíði og varð húsasmíðameistari. Hann lærði arkitektúr í Danmörku í eitt ár en lauk síðan myndlistakennaraprófi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Árið 1992 lauk hann landafræðiprófi frá Háskóla Íslands.

Guðmundur kenndi í Hagaskóla í tæplega 40 ár, fyrst sem myndlistakennari og síðar sem landafræðikennari. Hann kenndi einnig við Fósturskólann, Æfingadeild Kennaraskólans og var stundakennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands.

Guðmundur var leiðsögumaður hjá Úlfari Jacobsen í hálendisferðum, Ferðaskrifstofunni Sunnu og Ferðaskrifstofu Samvinnuferða-Landsýnar. Guðmundur sá um einn af starfsvöllum Reykjavíkurborgar sem var á Meistaravöllum, fyrstu þrjú sumrin sem hann var starfræktur.

Guðmundur var m.a. meðlimur í Farfuglum, Flugbjörgunarsveitinni og síðar Lávarðadeild þeirra, ásamt fjölda fræðslufélaga, s.s. Náttúrufræðifélaginu o.fl. Tók hann þátt í starfi þessara félaga um árabil.

Útför Guðmundar fer fram frá Grensáskirkju í dag, 26. janúar 2021, kl. 15 og verður streymt frá athöfninni á slóðinni:

https://youtu.be/HKRrzAiGry0/. Einnig er hægt að nálgast streymið á vef Morgunblaðsins á

https://www.mbl.is/andlat/.

Faðir okkar var allt í senn, skemmtilegur, skapandi, uppátækjasamur, hvetjandi og góð fyrirmynd. Hann var alltaf að afla sér nýrrar þekkingar, ef ekki í skóla þá með lestri fræðibóka og tímarita. Hann hafði svör við nánast öllu sem við spurðum hann um, var næstum eins og gangandi alfræðiorðabók.

Pabbi hvatti okkur systkinin til ýmissa verka og „ég get þetta ekki“ var ekki í orðabókinni hans. Hann kenndi okkur að vera vakandi fyrir náttúrunni, skoða blómin og steinana. Hann var mjög hrifinn af hvönn og óx hún villt bakvið húsið hjá okkur. Hvönn og njóli voru ekki illgresi í hans augum.

Við vorum ekki gömul systkinin þegar við byrjuðum að ferðast, því pabba fannst mjög gaman að flækjast um fjöll og firnindi. Fyrir utan að vera fararstjóri í skipulögðum ferðum þá fór hann með okkur fjölskylduna í ýmsa bíltúra út í náttúruna. Reykjanesið var í uppáhaldi hjá honum og fórum við oft þangað. Við fórum oft á Þingvelli, upp í Heiðmörk og í regluleg tjaldferðalög inn í Þórsmörk, jafnvel nokkrum sinnum á ári.

Þegar hann var leiðsögumaður erlendis þá fórum við stundum með honum í skemmtilegar ferðir. Við fórum m.a. til Danmerkur, Þýskalands og Grikklands. Ferðalögin voru skemmtileg og viðburðarík enda var pabbi þar við stýrið og hafði svo gaman af að fræða alla af þeirri visku sem hann bjó yfir um fallegar náttúruperlur og staði bæði innanlands og erlendis. Það fór honum vel að vera leiðsögumaður.

Pabbi kenndi myndlist lengstan part starfsævinnar en fór svo í Háskólann til að verða landfræðingur og kenndi hann landafræði og náttúrufræði eftir það. Pabbi kenndi alveg ógrynni af nemendum, þekkti fólk um allan bæ og þegar hann hafði heilsað einhverjum sagði hann næstum alltaf, þetta var gamall nemandi.

Síðustu ár pabba einkenndust af alzheimersjúkdómnum sem ágerðist með hverju árinu. Pabbi tók þetta með trompi og las sér til um allt sem viðkemur sjúkdómnum til að reyna að skilja og átta sig á hvað væri í vændum og einnig hvernig rannsóknum á sjúkdómnum fleytti fram. Uppáhaldslesefnið hans var síðan tímaritið Lifandi vísindi sem hann las upp til agna.

Síðasta ár var okkur erfitt því í Covid-19-bylgjunum þremur þá þurftum við að láta nægja að heimsækja pabba á gluggann á hjúkrunarheimilinu. Hann var alltaf að benda okkur á að koma inn því hann vildi faðma okkur og njóta meiri nándar. Við systkinin ásamt fjölskyldum kveðjum hann með söknuði og vonum að hann sé kominn á góðan stað í faðmi fjölskyldunnar hinum megin. Gunnhildi þökkum við þá umhyggju og stuðning sem hún veitti föður okkar á erfiðum tímum.

Hvíl í friði.

Hulda, Magnús og Íris.

Ég bjó ásamt mömmu hjá afa og ömmu á Sunnuhvoli þar til ég var 10 ára og ólst því upp með afa sem sterka fyrirmynd. Hann hafði skemmtilega sýn á lífið og var sniðugur. Það fannst mér a.m.k. og margt spilaði þar inn í.

Afi horfði alltaf á styrkleika fólks en ekki veikleika og setti bæði nemendum sínum og afkomendum fyrir verkefni um leið og þeir höfðu þroska til. Mér, elsta barnabarninu, kenndi hann t.d. að skipta um kló á millistykki þegar ég var líklega um 8 ára gömul. Enda kom það fram í samtölum við hann síðar að hann horfði hvorki á aldur né kyn heldur mat hann alla að eigin verðleikum. Hann sýslaði mikið úti í Hagaskóla alla tíð þar sem hann kenndi um áratuga skeið og eins var hann í útstillingum. Þegar ég hafði aldur til fékk ég oft að koma með í undirbúningsvinnuna. Skólinn var ævintýraheimur og það var heldur ekki leiðinlegt fyrir bókaorminn mig að fá að vera í Bókabúð Ísafoldar eftir lokun að lesa Andrésblöð, glugga í bækur og skoða öll skemmtilegu ritföngin.

Mér er sérstaklega minnisstætt eitt skiptið sem ég var með afa að kvöldi til úti í Hagaskóla. Það var nokkrum dögum eftir fimm ára afmælið mitt. Ég var að læra að lesa upp úr bókinni Gagn og gaman og var föst á -hn- blaðsíðunni. Eitthvað vafðist þetta fyrir mér svo ég tönnlaðist á: „höhh-nn, höhh-nn“ og komst ekki lengra. Þá sagði afi: „Þetta er bara eins og þegar þú segir hnerra“ og þar með var ég orðin læs.

Afi var mikill listamaður og handskrift hans bar vott um það. Hver einasta setning sem hann skrifaði var listaverk sama hvert innihaldið var. Hann hvatti fólk til sköpunar og kom gjarnan heim með föndurpappír og alls konar form. Eitt skiptið kenndi hann mér að skera út stimpla í kartöflur.

Helgarbíltúrar fjölskyldunnar um Reykjanesið voru ófáir. Selatangar, Vigdísarvellir, Kleifarvatn, Krýsuvík, þetta eru allt staðir sem ég tengi við afa. Útilegu með Farfuglunum í Þórsmörk þegar ég var sex ára man ég sömuleiðis ennþá, mögulega út af ljósmyndunum sem eru til en ég man meira en bara þær. Ég man tilfinninguna sem ég fékk fyrir þessum stað sem er enn í dag uppáhaldsstaðurinn minn á öllu landinu.

Um tíma keyrði afi um á grárri Mözdu. Hún var oftar en ekki full af dóti, kennslugögnum eða einhverju sem hann notaði við útstillingarnar. Það var stundum kúnst að koma elsta barnabarninu fyrir í aftursætinu þegar það var í pössun hjá afa. Á Mözdunni þvældist hann einnig um landið og þá jafnvel inn á slóða sem voru frekar hugsaðir fyrir jeppa en fólksbíla. En hann kunni vel að keyra og það var í hans náttúrlega eðli að fylgja hæðum og lægðum landsins upp um fjöll og firnindi, hvort sem það var fótgangandi, hlaupandi eða á gráu Mözdunni.

Það er sárt að kveðja afa í skugga farsóttar. Ég er þó svo lánsöm að hafa komist í heimsókn til hans síðasta sumar en þá skoðuðum við saman ljósmyndabók frá hringferð minni um landið fyrir nokkrum árum og kvöddumst svo með löngu og innilegu faðmlagi. Mikið er ég þakklát fyrir þá stund, hún mun lifa með mér alla ævi. Takk fyrir allt, elsku afi.

Heiða Dögg.

Drengur góður, orðvar, glettinn, hugmyndaríkur,ódeigur að takast á við ný verkefni, þúsundþjalasmiður, lífskúnstner og kunni að lifa lífinu lifandi. Stakur reglumaður.

Guðmundur kenndi um langt árabil við Hagaskóla, lengst af myndmennt þar sem hann fór ekki troðnar slóðir. Hann hvatti nemendur sína til sjálfstæðra vinnubragða og var þeim innan handar í einu og öllu. Hann viðaði stöðugt að sér efni sem hann safnaði saman í geymslum skólans og sótti svo í eftir þörfum. Til hans var leitað þegar settar voru upp sýningar um skólastarfið á merkisdögum því hann var með afbrigðum úrræðaóður og lausnamiðaður.

Um miðjan aldur varð hann landfræðingur og gæddi kennsluna lífi með frábærum teikningum sem hann rissaði oft upp á töflu í þrívídd.

Guðmundur var lengi leiðsögumaður innanlands og utan. Hann fór margar ævintýraferðir jafnvel á slóðir sem honum voru ókunnar en farþegar kunnu vel ð meta.

Að leiðarlokum skulu honum færðar þakkir fyrir farsælt óeigingjarnt starf við Hagaskóla.

Innilegar samúðarkveðjur til ástvina hans.

Einar Magnússon,

(fv. skólastjóri

Hagaskóla).