Strokkur Geysissvæðið hefur lengi dregið að fjölda ferðafólks.
Strokkur Geysissvæðið hefur lengi dregið að fjölda ferðafólks. — Morgunblaðið/Ómar
Undirbúningi friðlýsingar háhitasvæðis Geysis fyrir orkunýtingu er lokið hjá Umhverfisstofnun. Málið er nú á borði ráðherra. Unnið hefur verið að málinu í eitt ár.

Undirbúningi friðlýsingar háhitasvæðis Geysis fyrir orkunýtingu er lokið hjá Umhverfisstofnun. Málið er nú á borði ráðherra.

Unnið hefur verið að málinu í eitt ár. Vegna villu í tillögu að auglýsingu hefur málið þurft að fara einn hring til viðbótar meðal umsagnaraðila, meðal annars sveitarfélagsins Bláskógabyggðar.

Verndarflokkur friðaður

Grundvöllur friðlýsingar svæðisins fyrir orkunýtingu er að því var skipað í verndarflokk hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar á sínum tíma. Sex athugasemdir bárust þegar tillögurnar voru auglýstar, meðal annars frá landeigendum í nágrenninu. Snerust þær mikið um afmörkun svæðisins, málsmeðferð og tillögu að friðlýsingarskilmálum. Umhverfisstofnun svaraði athugasemdum og sendi málið til ráðherra.

Náttúruvættið þegar friðað

Friðun Geysis er tvíþætt. Á síðasta ári var Geysir friðlýstur sem náttúruvætti, í kjölfar þess að ríkið eignaðist hverinn og næsta nágrenni hans. Friðlýsing orkunýtingar sem nú er unnið að er mun víðtækari.

Nú er verið að undirbúa gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir náttúruvættið og hefur Umhverfisstofnun umsjón með því. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur tilnefnt tvo fulltrúa í starfshóp um gerð áætlunarinnar. Þeir eru Helgi Kjartansson oddviti og Agnes Geirdal, formaður umhverfisnefndar. helgi@mbl.is