Halldór Guðmundsson fæddist 4. ágúst 1935. Hann lést 27. desember 2020.

Útför hans fór fram 5. janúar 2021.

Þann 22. desember síðastliðinn lagði ég af stað frá Reykjavík og áleiðis til Grundarfjarðar. Í för með mér var faðir minn, sem ætlaði sér að halda jól í íbúðinni sinni í síðasta skiptið áður en hún yrði seld í janúar. Jólaskatan var á sínum stað 23. desember, og daginn eftir kom jólamatur á borð á þeim tíma sem vant var, og pakkar opnaðir. Jólahátíðin ætlaði að blessast nokkuð vel þetta árið þrátt fyrir engar heimsóknir. En þann 27. desember kvaddi faðir minn þennan heim skyndilega, er hann var að leggjast til svefns.

Margir sem heimsóttu pabba og mömmu á Grundargötuna, muna eftir skreytingum sem pabbi gerði úr skeljum sem hann fann skammt frá heimilinu við skelvinnslu staðarins. Barnabörnin gleyma líka seint heimsóknum til afa síns á Grundargötuna, því íbúðin hafði að geyma nokkuð sem flesta krakka dreymir um, en það var háaloftið með alls konar dóti og forvitnilegum hlutum úr fortíðinni. Þarna léku barnabörnin sér án afskipta eða athugasemda þrátt fyrir hávaða og önnur hljóð. En oft komu þau þó við hjá afa sínum til að fá leyfi fyrir ýmsu sem var oftast samþykkt. Pabbi var yfirleitt góð fyrirmynd og var sjaldan að hamra á neinum hlutum eða gera athugasemdir. Hann var aldrei að draga það að framkvæma eitthvað sem þurfti að gera, og var alla tíð vinnusamur og fór stundum til sjós á trillunni þótt allir aðrir væru í landi vegna veðurs.

Margar ljúfar minningar á ég til um föður minn þó að við feðgarnir höfum ekki verið að hugsa það sama og haft ólíkar skoðanir á ýmsu, en það sem fyrst kemur upp í hugann eru heimsóknir til bræðra hans er ég var krakki, en þeir voru stórskemmtilegir og pabbi hló mikið með þeim og ég líka. Þeir voru margir bræðurnir, en þeir eftirminnilegustu voru Jóhannes og Hjörtur. Jóhannes fyrir stórskemmtilegan frásagnarstíl en Hjörtur fyrir hrós og falleg orð í garð barna. Ég átti þess kost að vinna með pabba í nokkur ár á trillu, og þarna sá ég starf sem virtist gefa honum mikið. En þar sem ýmis óhöpp urðu á vegi okkar á sjónum, lauk trillustandinu sumarið 1991 og ekkert komið upp síðan sem bendi til þess að ég muni klæða mig upp í sjógalla aftur, en ef svo skyldi nú vera að pabbi sé kominn á nýjan stað eða heim, kæmi ekki á óvart að hann væri nú að skoða nýjan bát með öllum tækjum og tilheyrandi tólum, og veltandi því fyrir sér hvort mamma hafi eitthvað við litinn að athuga.

Takk fyrir allt sem við áttum saman pabbi minn, og vonandi er veröldin þannig úr garði gerð, að okkur sé gert kleift að vakna upp á nýjum stað og hitta aftur megnið af þeim góðu félögum og ættingjum sem voru með okkur, og vera svo með þeim í gleði og friði um alla eilífð.

Kveðja, þinn sonur

Gunnar Karl Halldórsson.