Blær byggir Leigufélagið hefur fengið úthlutaða lóð í Úlfarsárdal.
Blær byggir Leigufélagið hefur fengið úthlutaða lóð í Úlfarsárdal. — Morgunblaðið/Ingó
Borgarráð hefur samþykkt úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir 36 íbúðir við Skyggnisbraut 21-23, Silfratjörn 1-3 og Gæfutjörn 18 í Úlfarsárdal. Lóðarhafi er Blær, leigufélag VR.

Borgarráð hefur samþykkt úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir 36 íbúðir við Skyggnisbraut 21-23, Silfratjörn 1-3 og Gæfutjörn 18 í Úlfarsárdal. Lóðarhafi er Blær, leigufélag VR. Úthlutunin byggist á lóðarvilyrði til VR sem borgarráð staðfesti í nóvember 2018.

Hámarksbyggingarmagn er samtals 3.405 fermetrar ofanjarðar auk 1.204 m 2 neðanjarðar. Greitt er fyrir byggingarréttinn 45.000 kr. pr. fermetra, sem er verð byggingarréttar fyrir húsnæðisfélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða.

Heildargreiðsla fyrir byggingarrétt lóðarinnar, að meðtöldum gatnagerðargjöldum, er krónur 198.662.418.

Lóðarhafi skuldbindur sig til þess að selja tvær íbúðir, auk sameignar og hlutdeildar í bílakjallara, á kostnaðarverði til Félagsbústaða hf.

Fyrstu hugmyndirnar um Blæ voru teiknaðar upp í kjarasamningunum 2015 þegar leigufélagið Bjarg var sett á laggirnar, sagði Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR nýlega í viðtali hér í blaðinu.

Alltaf hafi staðið til að vera með hliðarfélag sem átti að heita Blær og myndi styðja við starfsemi Bjargs, þ.e.a.s. vera með meiri félagslega blöndun þannig að þessi tvö félög gætu saman náð til fleiri hópa sem væru jaðarsettir á markaðnum.

Til hafi staðið að Blær myndi byggja 400-500 íbúðir á ári og yrði almennara leigufélag en Bjarg.

sisi@mbl.is