Í kringum kjörið á íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna skapast iðulega líflegar umræður. Eru það ekki ný tíðindi og þrátt fyrir að samfélagsmiðlar séu áberandi fyrirbæri er þessi umræða ekki endilega meiri nú en á árum áður.
Í kringum kjörið á íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna skapast iðulega líflegar umræður. Eru það ekki ný tíðindi og þrátt fyrir að samfélagsmiðlar séu áberandi fyrirbæri er þessi umræða ekki endilega meiri nú en á árum áður. Jafnvel þótt nú sé hægt að rífast um fleiri atriði eins og lið og þjálfara.

Sjálfur geri ég ekki athugasemdir við að fólk kunni að vera ósammála um hverjir eigi að verða fyrir valinu. Það er ósköp eðlilegt enda er ekki um vísindi að ræða. En ég geri athugasemd við hugmyndir um að „taka“ kjörið af Samtökum íþróttafréttamanna.

Hef ég rekist á þetta áður en nú síðast hjá tveimur handboltaþjálfurum. Samtök íþróttafréttamanna komu kjörinu á árið 1956 og hafa staðið fyrir því síðan. Var það önnur ástæða þess að brautryðjendurnir Atli Steinarsson, Frímann Helgason, Hallur Símonarson og Sigurður Sigurðsson stofnuðu samtökin.

Öðrum er að sjálfsögðu frjálst að standa fyrir sambærilegu kjöri og handboltaþjálfararnir tveir telja til dæmis að aðrir séu betur til þess fallnir. En hver á að „taka kjörið af SÍ“? Ríkisstjórnin? Menntamálaráðuneytið? Lögreglan?

Kjörið er einkaframtak en stundum virðist fólk halda að þetta sé einhvers konar opinber framkvæmd sem aðrir en félagar í samtökunum geti hlutast til um.

Best finnst mér þegar menn telja að sérsamböndum ÍSÍ gæti tekist vel upp við þetta. Ég hef kynnst mörgum sem starfað hafa hjá sérsamböndunum. Ekki hef ég hitt marga þar sem hafa áhuga á fleiri íþróttum en þeirri sem þeir sjálfir sinna.