Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Gífurleg spurn er eftir orlofshúsum stéttarfélaga um þessar mundir og nánast full nýting á þeim húsum sem í boði eru. Einstök félög hafa jafnvel þurft að auglýsa eftir fleiri bústöðum til leigu. Talsmenn stærstu stéttarfélaga eru á einu máli um þetta. ,,Það er metaðsókn. Það fer allt sem er í boði, á öllum tímum og alls staðar. Þetta er merki um að fólk er að nýta sér þessa þjónustu í meira mæli en áður og líklegast út af kófinu,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sem er stærsta stéttarfélag landsins.
Sá fjöldi orlofshúsa sem er í eigu VR víða um land dugar ekki alltaf til og segir Ragnar Þór félagið reyna að bregðast við þessari miklu eftirspurn með því að auglýsa eftir sumarhúsum til leigu til að endurleigja félagsmönnum. Unnið sé að því að bæta við húsum, kaupa fleiri eignir og byggja og leigja enda sýni sig að þetta sé þjónusta sem kemur félagsmönnum VR mjög vel um þessar mundir.
Gjafabréf tóku kipp
Nýting orlofshúsanna hefur verið sérlega góð í vetur og nánast allt fullbókað á vinsælum stöðum yfir veturinn. Einnig hefur verið opnað fyrir bókanir orlofshúsa næsta sumar og er stór hluti þegar fullbókaður.
Þegar jákvæðar fréttir berast af bóluefni gegn kórónuveirunni hefur einnig spurn eftir gjafabréfum í utanlandsflug tekið kipp. „Við höfum verið einn af stærstu viðskiptavinum flugfélaganna um árabil með gjafabréfakaupum því við niðurgreiðum líka þá þjónustu. Eftir að Wow air féll erum við með gjafabréfasölu til Icelandair og það hefur verið umtalsverð sala á þeim, sérstaklega þegar góðar fréttir bárust en svo dregst það fljótt saman þegar fréttir koma um að bólefnaafhendingar frestast. Þetta sveiflast því nokkuð,“ segir hann.
Byggja 12 ný orlofshús
„Við höfum aldrei séð annað eins,“ segir Sveinn Ingvason, forstöðumaður orlofshúsa og eignaumsýslu hjá Eflingu, öðru stærsta stéttarfélagi landsins. Síðasta sumar var einnig mjög mikil ásókn í orlofshús Eflingar og húsin hafa nánast verið fullnýtt í vetur. „Ég er búinn að vera í þessu í 25 ár og þetta var fyrsta sumarið þar sem hver einasti dagur fór út í öllum húsunum,“ segir Sveinn.
Frá því vetrarleigan byrjaði 1. september hafa aðeins innan við tíu helgar dottið út í 56 orlofshúsum Orlofssjóðs Eflingar sem staðsett eru víðs vegar um landið og fullbókað var t.d. yfir bæði jól og áramót. Ekki er búið að opna fyrir sumarúthlutanirnar en Sveinn segir að næstu fimm vikur séu alveg fullbókaðar og raunar allt rifið út fram yfir páska enda eftirspurnin gríðarleg og engin leið að anna því öllu.
Félagið er nú að byggja tólf ný orlofshús í Reykholti og er helmingur þeirra þegar kominn í notkun en hin sex húsin sem eru rúmlega fokheld eiga að vera fullbúin til útleigu fyrir mitt næsta sumar. „Mér sýnist að í þessum nýju húsum okkar uppi í Reykholti sé bara allt farið fram að 1. júní,“ segir hann.
Efling hefur einnig samið um gistiafslætti innanlands hjá viðurkenndum þjónustuaðilum og þannig niðurgreitt gistingu fyrir félagsmenn á ferðalögum um landið. Sveinn segir að bætt hafi verið verulega í þetta í fyrra sem hafi fallið í mjög góðan jarðveg og margfaldaðist eftirspurnin á milli ára. „Við ætlum að halda áfram með þessa gistiafslætti innanlands. Gefa bara vel í og koma til móts við fólkið sem er að ferðast innanlands.“
Allar helgar uppfullar
„Aðsókn hefur verið mjög mikil hjá Sameyki miðað við sama tíma í fyrra. Allar helgar eru uppfullar á öllum eignum frá síðastliðnu hausti til dagsins í dag,“ segir Axel Jón Ellenarson, upplýsingafulltrúi Sameykis, stærsta stéttarfélags opinberra starfsmanna. Hann segir að 80% nýting hafi verið á sömu orlofseignum árið áður, 2019. „Einnig hefur útleiga aukist í miðri viku miðað við sama tíma í fyrra. Sameyki á um 70 orlofshús bæði innanlands og utan, þar af eru nokkur í endurbyggingu, og síðastliðið sumar voru allar orlofseignir Sameykis í útleigu,“ segir hann. Því megi segja að ásóknin hafi aukist töluvert mikið þar sem nýtingin er nú 96%.