Íran Javad Zarif og Sergei Lavrov takast í hendur eftir fund sinn í gær.
Íran Javad Zarif og Sergei Lavrov takast í hendur eftir fund sinn í gær. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði í gær að Bandaríkjastjórn þyrfti að aflétta þeim refsiaðgerðum sem hún hefði sett á Íran ef hún vildi bjarga kjarnorkusamkomulaginu frá árinu 2015, en framtíð þess hefur verið í óvissu síðan 2018 þegar Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseti, sagði skilið við það. Frakkar telja hins vegar að Íranir verði fyrst að sýna fram á að þeir fylgi skilmálum þess, og láta um leið af frekari ögrunum.

Ummæli Lavrovs féllu á blaðamannafundi eftir að hann fundaði með Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, í Moskvu í gær. Sagði Lavrov jafnframt að Rússar og Íranir væru á „sömu blaðsíðu“ varðandi það hvernig best væri að bjarga samkomulaginu frá árinu 2015, og að það fælist í því að refsiaðgerðum Bandaríkjanna, sem ríkisstjórn Trumps setti á, yrði aflétt þegar í stað.

Það myndi svo aftur leiða til þess að Íranir myndu aftur hlíta þeim ákvæðum samkomulagsins sem þeir hafa gerst brotlegir við á undanförnum misserum. Sagði Zarif að Íran myndi þá hætta við að tálma störf eftirlitsmanna Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Þakkaði Zarif í ummælum sínum fyrir fundinn Rússum jafnframt fyrir „uppbyggilega og málefnalega afstöðu sína“ til samkomulagsins.

Virði skuldbindingar sínar

Embættismaður innan franska forsetaembættisins sagði hins vegar við AFP-fréttastofuna eftir viðræður Lavrovs og Zarifs að Íran yrði að standa við samkomulagið frá 2015 ef þeir vildu að Bandaríkin tækju aftur þátt í því. „Ef þeim er alvara með viðræðum og vilja fá nýjar skuldbindingar frá öllum sem [undirrituðu sáttmálann] verða þeir fyrst að forðast frekari ögranir, og í öðru lagi verða þeir að virða þær skuldbindingar sem þeir virða ekki lengur,“ sagði hann.

Refsiaðgerðir Bandaríkjanna hafa leikið olíuframleiðslu Írana grátt og hindrað tengsl þeirra við hið alþjóðlega bankakerfi, með þeim afleiðingum að samdráttur er í efnahagslífi Írans. Antony Blinken, nýskipaður utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti því yfir fyrr í mánuðinum að stefna Trumps gagnvart Írönum hefði gert þá hættulegri en áður.

Blinken lét þau ummæli falla í yfirheyrslu hjá utanríkismálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, þar sem hann staðfesti jafnframt að Biden vildi að Bandaríkin tækju aftur þátt í samkomulaginu frá 2015, en Biden var þá varaforseti. Hins vegar yrðu Íranir að virða skuldbindingar sínar að fullu áður en hægt yrði að tala um þátttöku Bandaríkjamanna að nýju.

Verði ekki vísað úr landi

Utanríkisráðuneyti Írans lýsti yfir fyrr í vikunni að eftirlitsmönnum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar yrði ekki vísað úr landi í næsta mánuði, þrátt fyrir umdeild lög sem íranska þingið samþykkti í desember.

Þar var skipað fyrir um að eftirlit með vissum þáttum kjarnorkuáætlunar landsins yrði stöðvað ef Bandaríkin afléttu ekki refsiaðgerðum sínum fyrir 21. febrúar, eða ef hin ríkin sem undirrituðu samkomulagið frá 2015 veittu ekki aðstoð við að komast framhjá refsiaðgerðunum.

Hassan Rouhani, forseti Írans, fordæmdi lagasetninguna á sínum tíma, en harðlínumenn eru þar í meirihluta. Sagði Rouhani að lögin myndu gera Írönum erfiðara fyrir að ná samkomulagi við umheiminn.