Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Við sjáum mikil tækifæri í fjallaskíðamennsku og vonum að yfirvöld verði tilbúin að liðka til svo hægt verði að taka á móti slíkum ferðamönnum hingað í vetur,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.
Arnheiður segir að hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu hafi síðan í vor átt í viðræðum við bæði hátt setta aðila í stjórnsýslunni sem og sóttvarnayfirvöld um tilslakanir á sóttvarnareglum. Beðið er svara.
Vilji ferðaþjónustunnar stendur til þess að hægt verði að taka á móti litlum hópum af vel stæðum ferðamönnum sem kæmu hingað á einkaþotum til Akureyrar. Við komuna myndu þessir gestir framvísa nýju Covid-prófi en yrðu jafnframt prófaðir hér. Frá Akureyri yrði hópurinn fluttur á dvalarstað og myndi stunda afþreyingu sína fjarri mannabyggð. Hópurinn væri því í einangrun á meðan beðið væri niðurstöðu prófsins en gæti stundað fjallaskíði.
„Við teljum þetta raunhæft og höfum kynnt ferlið fyrir yfirvöldum. Einn leiðsögumaður yrði með hverjum hópi, sótthreinsanir alls staðar og starfsmenn sem kæmu nálægt hópnum færu í sóttkví eftir að hann fer. Þyrluskíðafyrirtækin eru með ofboðslega flottar aðstæður og þessir ferðamenn þurfa ekki að fara neitt lengra.“
Arnheiður segir að ef sóttvarnayfirvöld gæfu grænt ljós á slíkt fyrirkomulag væri þess ekki langt að bíða að hingað kæmu lúxusferðamenn. „Það eru ferðaskrifstofur tilbúnar með viðskiptavini. Þetta myndi skila miklum tekjum. Við reiknum með að þetta myndi skila okkur 1,5 milljörðum bara hér fyrir norðan og þá eru Vestfirðir eftir.“