Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir
Andrés Magnússon andres@mbl.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra harmar fregnir af því að Pfizer og AstraZeneca geti ekki afhent jafnmikið bóluefni og til hafði staðið á næstu vikum, en ítrekar samt þá trú sína „að við munum ná að bólusetja þorra þjóðarinnar á fyrstu tveimur fjórðungum þessa árs.“

Heilbrigðisráðherra flutti Alþingi munnlega skýrslu um öflun og dreifingu bóluefnis í gær. Þar sagði hún m.a. að gera mætti ráð fyrir að 35.000 Íslendingar yrðu bólusettir við kórónuveirunni fyrir lok marsmánaðar. Heilbrigðiskerfið væri vel búið undir þetta viðamikla verkefni, en væri háð því hversu ört bóluefni bærist að utan. Hún varaði þó við því að bólusetning myndi „eiga sér stað hægt og bítandi á fyrstu tveimur fjórðungum þessa árs“.

Þingmenn misánægðir

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, óskaði eftir rökstuðningi á því áliti, en ráðherra vísaði aðeins til gerðra samninga og afhendingaráætlunar, sem að vísu væri ekki nákvæm. Að fenginni reynslu vonaði hún að þó nú hefði slegið í bakseglin, þá gæti blásið byrlegar síðar. Sömuleiðis kvaðst hún aðspurð ánægð með þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi um bóluefnisöflun.

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gagnrýndi líkt og Ólafur þá leynd, sem verið hefði um bóluefnismálin, en spurði jafnframt hvort það hefði ekki verið óvarlegt að hafa ekki þegar í upphafi tryggt skammta fyrir 90.000 manns, svo unnt væri að bólusetja a.m.k. skilgreinda forgangshópa. Heilbrigðisráðherra sagði það misskilning að Ísland hefði nokkru ráðið um fjölda þeirra skammta sem til landsins bærust, þar fengi landið aðeins úthlutað úr heildarpotti Evrópusamstarfsins.

Sara Elísa Þórðardóttir, þingmaður Pírata, vildi vita hvað átt væri við með „þorra þjóðarinnar“, hvort þar væri miðað við hjarðónæmi, svo efnahagslífið gæti tekið við sér á ný. Eins vildi hún vita hvort ekki væri tímabært að Íslendingar reyndu að afla sér bóluefnis óháð Evrópusambandinu, sem hefði ekki gengið jafnvel að afla bóluefnis og að hefði verið stefnt. Ráðherra skýrði ekki nánar hvað átt væri við með þorranum, en taldi útilokað að Íslendingar næðu árangri utan Evrópusamstarfsins.

Bóluefni hefði borist hingað í litlum mæli, en nú stæðu vonir til þess að sendingar yrðu reglulegri.