Að sumarlagi Vestrahorn á Stakkanesi í kyrrð og ró.
Að sumarlagi Vestrahorn á Stakkanesi í kyrrð og ró.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Grunnskólakennarinn María Smáradóttir Jóhönnudóttir er mikill göngugarpur, tekur góðar náttúrulífsmyndir á ferð úti á víðavangi og hefur birt úrval þeirra á Facebook tvisvar til þrisvar í viku undanfarin ár.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Grunnskólakennarinn María Smáradóttir Jóhönnudóttir er mikill göngugarpur, tekur góðar náttúrulífsmyndir á ferð úti á víðavangi og hefur birt úrval þeirra á Facebook tvisvar til þrisvar í viku undanfarin ár. „Náttúran er í svo mörgum myndum og ég birti myndirnar mínar til þess að leyfa öðrum að njóta þess sem ég upplifi,“ segir hún.

María kennir í Fellaskóla í Breiðholti og fer gjarnan í gönguferðir að loknum vinnudegi. Hún segir að náttúran og litadýrðin heilli sig og hún leggi mikið upp úr því að festa það sem fyrir augu ber á mynd til þess að geta rifjað upp minningarnar. „Ég er bara áhugaljósmyndari og hef gaman af myndum,“ segir hún. Bætir við að hún hafi ekki lært ljósmyndun heldur þreifað sig áfram. „Ég fór að vísu á kvöldnámskeið fyrir um tveimur árum, fyrst og fremst til þess að læra á nýju myndavélina mína.“

Margbreytileg mynd

Myndirnar hafa nýst í kennslunni. Í því sambandi nefnir hún að hún hafi til dæmis verið á ferð við Jökulsárlón í sumar og þá tekið þar mynd af sel, sem hún hafi síðan sýnt krökkunum í náttúrufræðitíma. „Mér finnst gaman að mynda fugla og hrafninn er í uppáhaldi hjá mér, en annars er það náttúran í sinni margbreytilegu mynd sem togar mest í mig. Þess vegna get ég verið lengi að ganga stuttan spotta.“

María tekur myndir bæði á myndavél og síma. Hún vinnur í myndunum og flokkar þær og leggur áherslu á að hún sé ekki atvinnuljósmyndari. Listamenn á ýmsum sviðum séu í stórfjölskyldunni en hvorki þeir né aðrir hafi haft áhrif á sig heldur sé áhuginn sjálfsprottinn. Þegar hún hafi dundað við að skrifa hafi hún til dæmis ekki leitað í smiðju Lofts Guðmundssonar, afabróður síns, sem skrifaði ævintýrasöguna Síðasta bæinn í bænum . Annars vilji hún ekki fara nánar út í þá sálma, því hún hafi ekki sýnt ljóð sín og önnur skrif nokkrum manni. „Ég hef gaman af því að skrifa en tala ekki um það. Ljósmyndirnar eru bara frá mér og ég held að ég sé ekki listhneigðari en aðrir.“

Elliðaárdalurinn er eitt helsta göngusvæði Maríu enda stutt frá vinnustaðnum. „Því miður er búið að eyðileggja hann svolítið eftir að hleypt var úr stíflunni, svæðið er bara ljótt núna og ég óttast um fuglalífið,“ segir hún. Tekur samt fram að hún sé ekki sérfræðingur á þessu sviði.

„Mér finnst líka mjög gaman að ganga í Laugardalnum, í nágrenni Gróttu á Seltjarnarnesi og við Vífilsstaðavatn,“ segir María. Á þessum stöðum sé enda nægt myndefni og náttúran síbreytileg. „Þessi ástríða fyrir myndum gefur mér líka tækifæri til þess að vera úti og anda að mér fersku lofti, kærkomið eftir inniveru allan daginn.“