Guðmundur Magnússon fæddist í Reykjavík 11. ágúst 1936. Hann andaðist 16. janúar 2021. Útför Guðmundar fór fram 26. janúar 2021.

Mig langar aðeins að minnast Gumma teiknó og líka föður Írisar vinkonu. Ég kynntist honum þegar ég var í Hagaskóla. Hann var einn uppáhaldskennari minn. Ekki var alltaf auðvelt að hafa hemil á 25 unglingum en við bárum mikla virðingu fyrir Gumma og þar voru ólætin í lágmarki. Ein sterk minning er þegar ég var að reyna að teikna einhvern sérstakan hlut og varð að orði: „Gummi, ég held að ég geti bara ekki teiknað.“ Hann var ekki lengi til svars og sagði: „Það geta allir teiknað!“ Ekki er ég nú viss um að honum hafi þótt það, en það fékk mig til að teikna í hverjum tíma.

Gummi var mjög vandaður maður, hlýr og skilningsríkur við okkur krakkana.

Elsku Íris mín, þú áttir góðan pabba og minningarnar ylja.

Ég votta Írisi, Magnúsi og Huldu og öllum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Svanhvít.