Hermann A. Kristjánsson fæddist á Landspítalanum í Reykjavík 11. ágúst 1966. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans 19. janúar 2021.
Foreldrar hans eru Lena Lísa Árnadóttir, f. 1947, d. 1987, og Kristján S. Hermannsson, f. 1947, maki Sigríður Steingrímsdóttir, f. 1953. Systkini Hermanns sammæðra eru Elísabet Björk Kristjánsdóttir, f. 1971, maki Hörður L. Pétursson, dætur þeirra eru Una Björk og Berta Rut. Árni Þór Kristjánsson, f. 1976, sambýliskona Sigríður E. Arngrímsdóttir, börn þeirra eru Lena Lísa og Arngrímur Esra. Haukur Sveinn Hauksson, f. 1985, sambýliskona Hanna Guðrún Pétursdóttir, börn þeirra eru Katla Lilja og Baltasar Pétur.
Systkini Hermanns samfeðra eru Svanur Kristjánsson, f. 1984, maki Eydís E. Hólmbergsdóttir, börn þeirra eru Rúnar Máni, Sara Kristín og Helga Þórdís. Kristrún Emilía Kristjánsdóttir, f. 1990, sambýlismaður Guðmundur Magnússon, sonur þeirra er Elvar Már. Kristín Björg Kristjánsdóttir, f. 1991, sambýlismaður Tómas M. Vágseið, börn: Dagur Freyr, Emilía Mist, Kristófer og Hilmar Daði.
Fyrrverandi sambýliskona Hermanns er Lóa B. Tryggvadóttir, f. 1974. Synir þeirra eru Kristján Helgi Hermannsson, f. 1996, og Tryggvi Elías Hermannsson, f. 2002.
Eftirlifandi eiginkona Hermanns er Hrönn Hafþórsdóttir, f. 1964. Foreldrar hennar eru Hafþór Rósmundsson, f. 1943 og Jónína Brynja Gísladóttir, f. 1947, maki Jón Andrjes Hinriksson, f. 1958. Börn Hrannar eru Friðrik Ómar Erlendsson, f. 1985, Hjalti Kristinn Unnarsson, f. 1989, sambýliskona Karitas Valgeirsdóttir. Unnur María Unnarsdóttir, f. 1999, sambýlismaður Þorsteinn Hansson, sonur þeirra er Tristan Birtir, f. 2020. Eva Hrund Unnarsdóttir, f. 2001.
Hermann ólst upp í Hafnarfirði og bjó þar til 2014. Árið 2006 fengu Hermann og Hrönn lóð í Hafnarfirði þar sem þau byggðu sér einbýlishús fyrir allan fjölskylduhópinn. Árið 2014 ákváðu þau að söðla um og flytja, ásamt hluta barnanna, á Siglufjörð þar sem Hrönn er uppalin. Á Siglufirði keyptu þau hús þar sem Hermann nýtti menntun sína og hæfileika vel við endurnýjun á því húsi. Að loknum grunnskóla hóf Hermann störf hjá Skipasmíðastöðinni Dröfn þar sem hann lærði tréskipasmíði. Síðar bætti hann við sig í menntun og kláraði einnig húsasmíði. Eftir að Hermann lauk störfum í Dröfn réð hann sig á sjóinn í fraktsiglingar hjá Nesskip. Hermann sigldi víða, mestmegnis um Evrópu, á Hvítanesinu. Hermann hætti sjómennsku þegar Kristján Helgi frumburðurinn fæddist 1996. Eftir það vann Hermann ýmis störf við smíðar, blikksmíði og pípulagnir. Árið 2012 réð Hermann sig til Ístaks þar sem hann starfaði sem verkstjóri þar til yfir lauk.
Útför Hermanns fer fram 27. janúar 2021 kl. 13 frá Hafnarfjarðarkirkju. Vegna aðstæðna verða aðeins nánustu ættingjar viðstaddir.
Streymi frá athöfninni:
https://tinyurl.com/y2su4oby Virkan hlekk á slóð má finna á:
Elsku Hemmi, það er óraunverulegt, ólýsanlega erfitt og bara skrítið að vera að skrifa minningargrein um þig, elskan mín. Mig skortir orð og viljann til að skrifa. Langaði samt að þakka þér fyrir allt sem þú gafst mér, gleðina, allan hláturinn og hamingjuna. Takk fyrir að vera börnunum svona góður faðir, takk fyrir góða skapið þitt, þolinmæðina og jákvæðnina. Þessi ár sem við áttum saman gleymast aldrei. Ferðirnar til Tenerife, siglingin um Karíbahafið veturinn 2019. Það fór þó ekki svo að ég fengi ekki að fara með þér eina bunu, þó svo það væri bara á skemmtiferðaskipi, en það kallaðir þú sjóferðirnar þínar þegar þú varst á Hvítanesinu. Ferðin til Mallorka stendur upp úr því þar vorum við öll saman fjölskyldan. Það var mikið horft á þennan stóra hóp sem við eigum. Takk fyrir allar stundirnar sem við eyddum við að horfa á Liverpool, sem var liðið þitt, keppa. Verð ævinlega þakklát fyrir síðustu jólin okkar, fá að hafa þig heima í hálfan mánuð, eyða jólunum í Ístaksbústaðnum með strákunum, hitta öll börnin okkar, tengdabörn og litla Tristan Birti, barnabarnið okkar. Þau sjö ár sem við höfum búið á Siglufirði höfum við nefnilega ekki hitt nema hluta af hópnum um jól. Þessir síðustu dagar eru mér mikils virði. Síðustu átta árin varstu smiður hjá Ístaki, bæði erlendis og hér heima og þú elskaðir vinnuna þína og áttir dásamlega samstarfsfélaga. Þarna kenndir þú mér að sofa ein, eftir að þú komst heim frá Noregi var úthaldið 10 dagar í vinnu og 4 heima. Oft skrapp ég til þín hvort sem var í Reykjavík, Kröflu eða á Selfossi sem reyndist þinn síðasti staður til að vinna fyrir Ístak. Þú gast aldrei verið heima í fjóra daga og gert ekki neitt. Kunnir ekki að vera aðgerðalaus. Húsið okkar og garðurinn nutu góðs af, ég skal reyna að halda áfram að laga og gera fínt. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þér, fengið að eyða árunum með þér. Takk fyrir allt.
Þín
Hrönn.
Það er ekki þannig í köldum raunveruleikanum. Sonur minn, Hermann Andrés Kristjánsson, verður jarðsettur í dag, 27. janúar 2021. Hann fékk mikla heilablæðingu og þrátt fyrir að komast fljótt í hendur færustu lækna var lítið hægt að gera og hann lést á gjörgæslu 19. janúar. Öllu því frábæra fólki sem kom að umönnun Hermanns færi ég þakkir fyrir einstaka fagmennsku og nærgætni.
Hemmi sagði mér ungur að hann ætlaði að fara á námssamning hjá Dröfn í Hafnarfirði og læra tréskipasmíði hjá öðlingnum Sverri Gunnarssyni, sem borinn var til grafar nýlega. Ég vissi að tréskipasmiðir voru frábærir smiðir en sagði við Hemma að smíði trébáta væri að leggjast af. Hann benti á að hann þyrfti bara að bæta við sig teikningum til að öðlast líka réttindi sem húsasmiður. Þarna mat hann aðstæður rétt þótt ungur væri. Nú geta þeir meistarinn og neminn smíðað sér glæsifley saman og siglt um eilífðarhafið.
Hemmi var duglegur til vinnu og vinsæll af atvinnurekendum og samstarfsfólki. Hann var lengi í millilandasiglingum og vann við blikksmíði og pípulagnir. Sagt er að íslenskir iðnaðarmenn séu fjölhæfari en gerist meðal þjóða og Hemmi var sannarlega í þeim hópi. Síðustu árin starfaði hann fyrir Ístak þar sem honum voru gjarnan falin mannaforráð. Hann fór víða til verka, var mörg ár í Noregi, á Grænlandi og vann við mörg stór verkefni hér heima.
Hemmi og konan hans Hrönn Hafþórsdóttir byggðu sér hús í Hafnarfirði, en flytja til Siglufjarðar þaðan sem Hrönn er ættuð. Þar tók hún við viðamiklu starfi sem forstöðumaður Bóka- og héraðsskjalasafns Fjallabyggðar. Hemmi starfaði ekki á Sigló heldur sótti vinnu hvar sem verkefnin voru. Okkar föðurætt á líka ættir að rekja til Sigló og fyrir tilviljun kaupa þau hús á Hvanneyrarbraut 13. Það kom í ljós að þetta hús byggði föðurafi minn, Kristján Hallgrímsson, orðlagður hagleiksmaður. Fjölskylda hans flutti frá Siglufirði eftir að vélbáturinn Pálmi, sem afi Kristján var á, fórst með manni og mús árið 1941. Húsið og umhverfið hafa Hrönn og Hemmi unnið við að betrumbæta þegar hann var heima. Meðal annars var smíðaður stór pallur við húsið, sem eftir er tekið. Þar töluðum við um að hægt væri að hafa „bryggjuböll“ – vantaði bara síldina.
Hemmi gekk í Frímúrararegluna árið 2014 en hafði því miður ekki tök á að sækja fundi eins og hann hefði óskað, vegna vinnunnar. Reglan stuðlar að því að gera hvern og einn að betri manni og hefði verkið unnist létt hvað Hemma varðar.
Hemmi á tvo frábæra syni frá fyrra sambandi, þá Kristján Helga og Tryggva Elías, sem sjá nú á bak pabba sínum. Hann dýrkaði strákana sína og hafði fulla ástæðu til. Þeir áttu margt sameiginlegt, ekki síst áhuga á fótbolta sem þeir ræddu gjarnan af slíkri þekkingu að ég gamall skrúbburinn skildi nánast ekki neitt. Þeir bræður munu spjara sig vel í framtíðinni er ég alveg viss um. Við þá vil ég segja: „Þú gengur aldrei einn“ (YNWA).
Við kveðjum Hermann Andrés Kristjánsson með trega.
Pabbi og Sigríður (Sigga).
Þótt við höfum ekki alist upp saman þá varstu alltaf bróðir okkar, elsti bróðir okkar, og við litum upp til þín með stolti. Það er einmitt það sem einkenndi þig, stolt. Þú varst alltaf stoltur af fólkinu þínu, okkur systkinum þínum og pabba okkar sem við vitum að þú leist upp til mest allra en fyrst og fremst varstu stoltur og montinn af strákunum þínum sem voru þér allt, Kristjáni og Tryggva, sem erfðu töffaraskapinn í beinan karllegg og munu búa að því alla tíð að hafa átt þig sem pabba.
Það var alltaf stutt í hláturinn hjá þér og þú varst ekki hræddur við að segja þína skoðun umbúðalaust en alltaf fylgdi smitandi hláturinn þinn á eftir.
Þú varst alltaf til staðar; þótt þú hafir flækst um heimsins höf, verið erlendis með hamarinn á lofti eða þvælst um landið vegna vinnu þá var hugurinn alltaf heima hjá þeim sem þér þótti vænst um. Við gátum alltaf leitað ráða hjá þér og munum án efa gera það áfram því þú verður alltaf í hjarta okkar, þú verður alltaf hluti af okkur.
Þín systkini,
Svanur, Kristrún Emilía
og Kristín Björg.
Hermann byrjaði ungur að vinna og varð þess vegna góður verkmaður. Afar ungur fór hann að læra skipasmíði hjá Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði og lauk þar námi sem tréskipasmiður. Hann vann við það í nokkur ár. Þá tók við farmennska á stóru fragtskipi í siglingum milli Íslands og meginlands Evrópu. Þessa vinnu stundaði hann í nokkuð mörg ár. Þá tók við byggingarvinna hjá Ístaki á Íslandi, Grænlandi og Noregi. Síðasta verk Hermanns var á Selfossi. Megnið af tímanum starfaði hann sem verkstjóri. Hermann vann mikið með erlendum starfsmönnum en hafði orð á að honum líkaði vel að vinna með þeim og kunni vel við þá. Hermanni gekk vel að stjórna mannskap með sinni hógværu nálgun við starfsmennina.
Hermann var við störf á Selfossi þegar hann fékk heilablóðfall og var fluttur þaðan með sjúkrabíl á Borgarspítalann í Reykjavík þar sem hann lést. Þetta var mikið áfall fyrir alla fjölskyldu hans.
Hermann var giftur Hrönn Hafþórsdóttur frá Siglufirði. Hermann átti fyrir tvo drengi sem honum þótti gríðarlega vænt um og var ávallt mjög stoltur af. Hrönn átti fyrir 2 dætur og 2 drengi sem Hermanni þótt einnig mjög vænt um. Dóttir Hrannar eignaðist sveinbarn sem Hermann var afar hrifinn af enda þá orðinn afi.
Hermann var afar vinmargur, skapgerð hans var ávallt föst og ákveðin. Orðvar var hann og hugljúfur í framkomu við allt fólk.
Við afi hans og amma mættum alltaf ýtrustu alúð og góðmennsku hjá Hermanni, enda þótti okkur afar vænt um Hermann, hann var okkar fyrsta barnabarn. Við verðum Lenu Lísu dóttur okkar og Kristjáni Hermannssyni þáverandi eiginmanni hennar ávallt þakklát fyrir Hermann.
Það var alveg sama hvar Hermann var að vinna hér syðra alltaf var hann að koma og spurði: „Er ekki allt í lagi hjá ykkur?“ svona kom hann fram við alla. Hann vildi öllum vel.
Við amma og afi óskum öllum úr hans fjölskyldu Guðs blessunar og bjartrar framtíðar.
Við biðjum Guð að blessi þig, elsku afabarnið okkar.
Kveðja, amma og afi,
Jakobína Elísabet
Björnsdóttir
Árni Einarsson.
Ég kom inn í líf þeirra systkina á erfiðum tíma þar sem þau höfðu stuttu áður misst móður sína eftir mjög stutt veikindi. Eftir það höfðu hlutirnir atvikast þannig að Hermann og Elísabet bjuggu tvö áfram saman í íbúð móður sinnar. Tveir yngri bræður þeirra fóru á önnur heimili í fjölskyldunni og var það þeim ávallt gríðarlega erfitt að hafa þá ekki hjá sér í þessu ferli og ræddu þau það oft. Það var þó aldrei langt á milli þeirra systkina og reyndu þau að hittast eins oft og auðið var. Hermann sýndi svo um munar í þessu ferli hversu gott var í honum því að þrátt fyrir að vera syrgja móður sína, sinna því að vera rétt rúmlega tvítugur með því sem því fylgir og stunda sína vinnu þá stóð hann sig alltaf eins og klettur í að halda öllum boltum gangandi og vera til staðar fyrir systkini sín eins mikið og hann gat. Þetta var þó ekki áfallalaust og oft á tíðum mikið sem gekk á á Reykjarvíkurveginum en allt leystist það þó. Hermann átti mjög sterkan vinahóp sem stóð með honum i blíðu og stríðu sama hvað gekk á. Ég er nokkuð viss um að þeir brosa allir út í annað þegar þeir rifja upp þetta tímabil í gleði og sorg.
Hermann var ávallt allra hugljúfi og reyndi ávallt að sjá það góða í fólki. Ef á einhvern hallaði í samræðum þá var það yfirleitt hann sem tók upp hanskann fyrir umrædda manneskju.
Takk Hermann fyrir samfylgdina, takk fyrir það að hafa aldrei gefist upp þegar á móti blés, takk fyrir það hversu sterkur og traustur þú reyndist systur þinni þegar mest reyndi á og fyrir að hafa tekið svona vel á móti mér þegar við hittumst fyrst.
Far í friði, kæri mágur, minningin um þig mun ávallt vera með okkur.
Þinn mágur,
Hörður Pétursson.
Þið Jóndi voruð æskuvinir og við systur, og var samheldnin og samveran engu lík. Þið strákarnir unnuð saman og við systur líka á tímabili. Það leið varla sú helgi sem við komum ekki saman í Kjarrhólmanum eða á Hjallabrautinni. Þá var horft á boltann í stofunni, krakkarnir að leika og maturinn undirbúinn í eldhúsinu (við ekkert spenntar fyrir boltanum á þeim árum). Kvöldin enduðu oftar en ekki á því að þú skelltir plötu á fóninn og urðu þá helst fyrir valinu Willie Nelson, The Rolling Stones og að sjálfsögðu Bjöggi Halldórs og svo var dansað og sungið. Allar útilegurnar og utanlandsferðirnar einkenndust af þínum einstaka húmor og stundum aðeins of mikið af því góða þegar saklausir nágrannar á tjaldsvæðum landsins lentu í klóm ykkar félaga. Alltaf stutt í smá fíflaskap sem var þó alltaf góðlátlegur. Þú varst tengdur fjölskyldu okkar á fleiri en einn hátt sem verður ekki útskýrt hér. Það minnir á eitt skiptið sem þið Jóndi tilkynntuð ömmu okkar að þið væruð mæðrasynir. Sú gamla rak upp stór augu og sagði: Eruð þið að meina það? Svo spurði hún alla viðstadda hvort þetta væri virkilega satt og fannst alveg með ólíkindum hvernig allir væri skyldir öllum í þessari fjölskyldu. Þetta var útskýrt seint og síðar meir og þá hló hún og sagði sem oftar: Þið eruð nú meiri fíflin.
Þú varst mikil tilfinningavera, elsku Hemmi, og tók það mjög á þig að horfa upp á litla frumburðinn þinn þurfa að ganga í gegnum margar aðgerðir sem barn þar sem fætur hans voru réttir. Það var oft stutt í tárin þar sem þú máttir ekkert aumt sjá og samkenndin mikil. Þú varst vinmargur, traustur, bóngóður og einstaklega handlaginn. Svo skildi leiðir en vináttan og væntumþykjan var alltaf til staðar gagnvart okkur og allri fjölskyldunni. Þú áttir það til að hringja í mömmu og pabba til að athuga hvernig þau hefðu það og við okkur systur gastu rætt í trúnaði, bæði saman og sitt í hvoru lagi. Það skipti ekki máli hversu langur tími leið, því alltaf þegar við hittumst var eins og það hefði verið í gær.
Elsku Hemmi, við munum gera okkar til að halda minningu þinni á lofti og þú munt ávallt lifa í fallegu strákunum þínum sem við munum halda utan um og vera til staðar fyrir.
Gullvagninn er kominn að sækja þig, hjartans vinur, og við okkur öll sem syrgjum þig og söknum veit ég að þú myndir segja: You better move on (Stones).
Sofðu rótt, elsku vinur.
Anna Kristín og Lóa Birna.
Við Hemmi kynntumst þegar vorum komnir yfir tvítugt og það tókst strax með okkur mikill vinskapur.
Þó við hefðum ekki hist mikið síðastliðin ár þá var alltaf eins og við hefðum hist í gær þegar við komum saman.
Um tíma bjuggum við saman í kaupfélagsblokkinni í Hafnarfirði, Hemmi á fyrstu hæð og ég á sjöundu og það var mikið um heimsóknir á báða bóga og oft mjög glatt á hjalla og mikið spjallað, hlegið, sungið og grátið.
Hemmi hafði einhvern mest smitandi hlátur sem ég hef heyrt og hann var ansi hláturmildur. Mikið á ég eftir að sakna þess að heyra ekki hláturinn þinn, elsku vinur.
Oft vorum við í sambandi þegar við fjölskyldan vorum á ferðinni fyrir norðan þar sem ég á tengingu þangað og þú búinn að búa á Siglufirði í nokkur ár. Nokkrum sinnum ætluðum við að hittast en það varð einhvern veginn aldrei af því og mikið hvað ég sé núna eftir því að hafa ekki komið að heimsækja þig og Hrönn, elsku Hemmi minn, á Siglufjörð. Þetta kennir manni að lifa í núinu og rækta fjölskyldu og vini ef fremsta megni. Lífið getur verið svo hverfult og morgundagurinn er ekki sjálfgefinn. Lífið er núna.
Ég veit að nú ertu kominn í faðm mömmu þinnar sem lést langt um aldur fram og þú saknaðir svo sárt. Og það er alveg ljóst að þú átt heldur betur eftir að lífga upp á tilveruna hinum megin ef ég þekki þig rétt.
Ég sendi fjölskyldu og aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.
Hvíldu í friði, elsku Hemmi minn, takk fyrir allt og allt.
Þín verður sárt saknað.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.
Drottinn minn faðir lífsins ljós
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.
Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
vekja hann með sól að morgni.
Drottinn minn réttu sorgmæddri sál
svala líknarhönd
og slökk þú hjartans harmabál
slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Sveinbjörn Hannesson.