Sigurbjörg Hervör Guðjónsdóttir fæddist 27. janúar 1931 á Hesti í Önundarfirði. Sjö ára, árið 1938, fór Hervör til Reykjavíkur í fylgd móður sinnar til að dvelja í heimavist og hefja nám í Málleysingjaskólanum, síðar nefndur Heyrnleysingjaskólinn.
Hervör var afburðanemandi og tilfinninganæm svo af bar. Hún var fljót að tileinka sér aðferðir sem voru kenndar í skólanum; munn-hand-kerfið, táknmál, fingrastafróf, varalestur og talkennslu. Hervöru var fljótt treyst fyrir mikilvægum verkefnum. Hún túlkaði fyrir aðra nemendur, opnaði faðminn og þerraði tár nýrra nemenda. Frá 15 ára aldri túlkaði hún m.a. yfir í eigið tal og táknmál til Brands Jónssonar skólastjóra og annarra í viðkvæmum dómsmálum þar sem heyrnarlausir komu við sögu. Hún var ein af stofnendum Félags heyrnarlausra árið 1960. Hervör var formaður félagsins um árabil og fulltrúi þess í Norðurlandasamstarfi heyrnarlausra.
Hervör var fyrsta heyrnarlausa konan á Íslandi sem fékk bílpróf samkvæmt nýjum umferðarlögum árið 1964. Hervör og eiginmaður hennar, Guðmundur Egilsson, með Brandi, höfðu unnið málinu brautargengi fyrir heyrnarlausa. Þau hjón túlkuðu og aðstoðuðu heyrnarlausa áður en túlkaþjónusta varð að veruleika á Íslandi. Heimilið var eins og félagsmiðstöð, ætíð opið fyrir heyrnarlausa vini og börnin þeirra fimm ólust upp við táknmál og íslensku hlið við hlið.
Í formannstíð Hervarar eignaðist félagið eigið húsnæði og fyrsta táknmálsorðabókin var gefin út. Unnið var að ýmsum framfaramálum, m.a. textun og táknmálsfréttum í samstarfi við önnur félög. Hervör og Guðmundur túlkuðu þegar Helen Keller kom til landsins árið 1957. Þau hjón voru gerð að heiðursfélögum Félags heyrnarlausra á 25 ára afmæli félagsins. Samhliða uppeldi stórrar fjölskyldu og félagsstörfum vann Hervör á Borgarspítalanum í áraraðir.
Afdrifaríku augnablikin – tveir tungumálaheimar
„Ég er þakklát fyrir að hafa lifað glaðvær og sterk í 90 ár,“ segir Hervör. „Einn erfiðasti en um leið afdrifaríkasti tími í lífi mínu var þegar ég hóf nám við Málleysingjaskólann í Reykjavík sjö ára gömul. Þegar móðir mín kvaddi mig mállausa og heyrnarlausa í nýju umhverfi brast eitthvað í mínu hjarta. Ég skildi ekki af hverju mamma fór. Við tók margra daga táraflóð og mikill söknuður eftir fjölskyldunni og heimahögunum. Táknið mitt; Hervör, er táknað með vísifingri sem myndar bauga undir auga en táraflóðið varð tilefni nafngiftar minnar á táknmáli. En í skólanum lærði ég að tjá mig og ný vídd opnaðist. En það var alltaf einhver innri rödd með mér sem sannfærði mig um að nú og síðar á lífsleiðinni yrði ég alltaf að vera „sterk“.Mesta gæfuspor í lífi mínu var þegar ég kynntist Guðmundi á balli í Oddfellow árið 1947. Hann fæddist með fulla heyrn en hafði lært fingrastafróf af heyrnarlausum vinnufélaga. Hann bauð mér í dans. Dansinn okkar varir enn þótt sporin séu hægari. Við giftum okkur 1956 og höfum verið samtaka í okkar lífsbaráttu.
Skrítnar tilfinningar bærðust með mér þegar börnin okkar fimm fæddust. En óttinn við að þau myndu fæðast heyrnarlaus leið strax hjá um leið og ég leit þau augum. Skýrt og kvikt augnaráð var svarið sem ég leitaði eftir. Guðmundur minn var alltaf nálægur og hann skildi strax augnatillitið sem ég gaf honum eftir fæðingarnar. Allt yrði í lagi. Enda er ég þakklát fyrir allt fólkið mitt og barnabörn sem hafa gefið mér gæfuríkar stundir innanlands og erlendis í tíðum ferðalögum fjölskyldunnar.
Ég er þakklát fyrir alla sem ég hef átt samleið með á lífsleiðinni í lífi og leik. Ég þakka áratugina sem ég vann á Borgarspítalanum með starfsfólki sem brosti á móti mínu brosi, leit ekki undan og gerði sér far um að kynnast mér og jafnvel læra táknmál.
Ég á þá von í brjósti að tækni og menntun gefi öllum sem fæðast heyrnarlausir þá möguleika sem þeir óska í námi og starfi, öllum til blessunar.“
Fjölskylda
Eiginmaður Hervarar er Guðmundur K. Egilsson, f. 15.10. 1928, fyrrverandi verkstjóri og forstöðumaður Minjasafns Orkuveitu Reykjavíkur. Þau dvelja nú á Hrafnistu í Hafnarfirði við gott atlæti. Foreldrar Guðmundar voru hjónin Egill Ólafsson, f. 19.3. 1891, d. 26.1. 1976, stýrimaður og síðar verkstjóri hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, og Ragnheiður Rannveig Stefanía Stefánsdóttir, f. 11.2. 1897, d. 6.7. 1949, húsfrú í Reykjavík.Börn Guðmundar og Hervarar eru: 1) Bryndís, f. 25.3. 1959, talmeinafræðingur, gift Árna Sigfússyni, framkvæmdastjóra og fyrrverandi borgar- og bæjarstjóra, og eru börn þeirra Aldís Kristín, Védís Hervör, Guðmundur Egill og Sigfús Jóhann; 2) Magnús, f. 11.7. 1960, ráðgjafi og hestabóndi í Svíþjóð, í sambúð með Kajsu Arena kennara, en börn hans eru Arna Ösp, Jóhann, Hrafnhildur Ylfa og Jafet Máni; 3) Ragnheiður Eygló, f. 19.6. 1962, verkefnastjóri, gift Gunnari Salvarssyni, sérfræðingi í utanríkisráðuneytinu, en börn þeirra eru Arnaldur Jón, Egill Ólafur, Högni Freyr og Hávar Snær; 4) Guðjón Gísli, f. 27.10. 1963, viðskiptafræðingur, en börn hans eru Baldur Abraham, Vigdís Hervör, Valdís Sólvör og Sóldís Salvör; 5) María Guðrún, f. 23.1. 1966, viðskiptafræðingur, gift Steingrími Sigurgeirssyni ráðgjafa og eru dætur þeirra Helga Sigríður, Ragnheiður Rannveig og Brynhildur Birna. Langafabörnin eru nú 19 talsins.
Systkini Hervarar voru Þorvarður, f. 28.1. 1929, d. 24.1. 2011, María Guðrún, f. 19.3. 1932, d. 9.10. 2020, Helga Jóna, f. 27.4. 1933, d. 17.11. 2019; Svava, f. 19.5. 1934, d. 20.10. 2019; Ingólfur Hafsteinn, f. 16.7. 1935, d. 25.7. 1987; Sveinbjörn Guðjón, f. 14.6. 1940, d. 20.7. 2007. Auk þess létust sex systkini í frumbernsku.
Foreldrar Hervarar voru hjónin Guðjón Gísli Guðjónsson, f. 28.10. 1897, d. 29.3. 1980, og Guðbjörg Sveinfríður Sigurðardóttur, f. 22.8. 1901, d. 25.3. 1980, bændur á Hesti í Önundarfirði.