[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures, segir endurskipulagningu fyrirtækisins langt komna. Félagið hafi selt þrjár rekstrareiningar og undirbúi sölu þeirrar fjórðu.

Þegar mest var störfuðu um 300 manns hjá fyrirtækinu. Vegna kórónuveirufaraldursins hefur það þurft að rifa seglin og starfa nú um 20 manns hjá félaginu.

Veltan var tæplega 7 milljarðar króna árið 2019.

Styrmir Þór segir félagið hafa selt tvö dótturfélög um flúðasiglingar. Annars vegar félagið Arctic Rafting í Hvítá en kaupandinn hafi sérþekkingu á rekstrinum og taki yfir búnað og fasteignir. Hins vegar hafi félagið selt 50% hlut í fyrirtækinu Viking Rafting í Skagafirði til meðeiganda.

Seldu félag á Vestfjörðum

Hann bætir því svo við að Arctic Adventures hafi líka selt 60% hlut í dótturfélaginu Borea Adventures á Vestfjörðum til meðeiganda.

Því til viðbótar séu viðræður um sölu á fjórða félaginu langt komnar. Þess má geta að rætur félagsins liggja í siglingunum í Hvítá í upphafi 9. áratugarins. „Það er fleira í farvatninu. Við erum að selja frá okkur rekstrareiningar og skoða kaup á öðrum fyrirtækjum . Þetta er í báðar áttir. Við erum að ganga frá kaupum á fyrirtækjum sem eru tengd því sem við viljum styrkja enn frekar.“

Horfa til ævintýraferða

Samhliða þessu hafi fyrirtækið skilgreint sína lykilmarkaði og lykilvörur. Niðurstaðan sé að fyrirtækið muni einbeita sér að sölu eins til átta daga ævintýraferða. „Við erum að endurskilgreina fyrirtækið; velja þær vörur sem við seljum mikið sjálfir og þær vörur sem styðja hver aðra, þar sem framlegð og rekstur fer vel saman. Okkar aðaláherslur eru ævintýraferðir til og frá Reykjavík. Við veljum okkur nokkra segla sem eru Húsafell, Sólheimajökull, Skaftafell, Silfra, Gullni hringurinn og Snæfellsnes. Við erum fyrst og fremst að einbeita okkur að þeim svæðum,“ segir Styrmir Þór.

Samhliða þessu bjóði fyrirtækið hringferðir um landið og ferðir um hálendið, ásamt því að vera umsvifamesta ferðaþjónustufyrirtækið í skipulögðum gönguferðum á Íslandi. En félagið rekur einnig tvö hótel; Hótel Hof í Öræfum og Hótel Geirland á Kirkjubæjarklaustri.

„Við höfum endurskipulagt okkar rekstur svo við séum vel í stakk búin þegar þetta fer af stað á nýjan leik. Sem betur fer eru eigendur félagsins fjárhagslega öflugir og hafa mikla trú á íslenskri ferðaþjónustu til lengri tíma litið. Eigendur félagsins hafa gefið það í skyn að þeir muni styðja félagið í gegnum þessa erfiðleika,“ segir Styrmir Þór. Markmiðið sé að vera áfram leiðandi í sölu og framkvæmd afþreyingartengdrar ferðaþjónstu á Íslandi.

Ferðaviljinn vakni á ný

Spurður um horfur í ferðaþjónustunni segir Styrmir Þór gert ráð fyrir að næsta ferðasumar verði með svipuðu horfi og sumarið í fyrra: Blanda af innlendri ferðaþjónustu og því að búið verði að opna að einhverju leyti fyrir ferðalög innan Evrópu.

„Svo með haustinu, þegar búið er að bólusetja yngra fólkið, sem er viljugra til að ferðast, gætum við séð eðlilegt ástand fara að skapast. Það mun þó taka tíma. Við teljum alls ekki að þetta muni fara aftur í sama fjölda einn, tveir og þrír.“

2 milljónir ferðamanna 2023

Samkvæmt sviðsmyndum Arctic Adventures muni 1,8-2,2 milljónir erlendra ferðamanna koma til landsins árið 2023 en til samanburðar voru þeir 2 milljónir árið 2019, síðasta heila starfsárið áður en faraldurinn lamaði ferðaþjónustuna.

Styrmir Þór segir aðspurður að slíkar sviðsmyndir taki mið af áætlunum Icelandair, bankanna og erlendra aðila. Óvissan sé auðvitað mikil. „Það má segja að við séum að púsla saman tilfinningu og spám innlendra og erlendra aðila.“

Taka upp fyrra ferðamynstur

Spurður hvort langur tími muni líða þar til bandarískir ferðamenn snúa aftur, í ljósi lítils sparnaðar margra Bandaríkjamanna og gríðarlegra áhrifa faraldursins á bandarískt efnahagslíf, bendir Styrmir Þór á að hingað hafi komið Bandaríkjamenn í góðum efnum. Um það vitni greiningar. Meðal annars vegna þessa sé ekki ástæða til að óttast lítinn ferðavilja hjá Bandaríkjamönnum næstu ár. Rannsóknir bendi til að ferðamenn muni áfram sækjast í sams konar ferðalög og þeir gerðu áður.