Hin einkennilega forsetatíð Donalds Trumps einkenndist af sjálfsdýrkun, duttlungum, skilningsleysi á stjórnkerfinu og augljósu kunnáttuleysi í stjórnsýslu, hagsmunagæslu fyrir sjálfan sig og sína, ósannindum og almennum dónaskap við bæði útlendinga og eigin þjóð, skattalækkunum fyrir efnaða og ríka og viðvarandi átaki við að grafa undan heilbrigðiskerfinu og annarri félagslegri þjónustu. Þá tókst honum að klúðra með ótrúlegri vanhæfni öllum viðbrögðum við kórónuveirunni. Að auki bjó hann við fordæmingu flestra fjölmiðla í Bandaríkjunum öll fjögur árin. Er nokkur furða þó menn spyrji hvernig þetta gat gerst.
Hvers vegna munaði hársbreidd að Trump næði endurkjöri, eftir þessa frammistöðu?
Versnandi lífskjör þjóðarinnar
Árin eftir heimsstyrjöldina síðari voru einhver mestu velsældarár sögunnar, en almenningur í Bandaríkjunum naut þeirra ekki nema fyrstu áratugina. Árin 1948 til 1979 jókst framleiðsla vinnuafls um 108,1 prósent og laun hækkuðu um 93,2 prósent, sem þýðir að nokkur fylgni var með framleiðni og launum.En um 1975 urðu þáttaskil og mikil breyting á næsta tímabili frá 1979 til 2018. Þá jókst framleiðni vinnuafls um 69,6 prósent, en laun hækkuðu aðeins um 11,6 prósent. Og þessi hækkun fór ekki til 25 prósenta lægst launuðu eða millistéttarinnar sem er 50 prósent. Hún fór til eigenda fyrirtækja og fjármagns, stjórnenda og annarra forgangshópa.
Til viðbótar þessu jókst verðgildi verðbréfa og hlutabréfa á markaði um 603 prósent á fyrra tímabilinu, en um 2.200 prósent frá 1979 til 2018. Loks hækkuðu laun forstjóra um 940 prósent en öll laun um aðeins 11,6 prósent 1979 til 2018. Gífurlegt misgengi varð milli almennra launþega og forgangsstéttanna (elites).
Ameríski draumurinn varð að martröð
Ameríski draumurinn hefur byggst á því að Bandaríkin séu land tækifæranna, þar sem launamaður geti séð fjölskyldu sinni farborða með nokkru öryggi. Til viðbótar hefur það verið meginatriði í lífi Bandaríkjamanna að koma börnum sínum til mennta.Meðan laun 75 prósenta landsmanna hafa staðið í stað eða lækkað hefur kostnaður við háskólanám fjórfaldast, með þeim afleiðingum að námslán eru orðin þyngsta skuldabyrði heimila millistéttarinnar, hærri en bílalán og kreditkortaskuldir (sem í Bandaríkjunum eru ekki greiddar upp mánaðarlega og eru snar þáttur í fjármögnun almennings).
Nú er svo komið að millistéttarmaður, sem hefur haldið vinnunni alla tíð, deyr skuldugur.
Enn verra er ástandið hjá öllum þeim fjölda fólks, sem hefur orðið út undan í hamslausri gróðaleit stórfyrirtækja, sem hafa rústað heilum borgum með því að kaupa stærsta vinnuveitandann og flytja burt, eða flytja starfsemina til Austurlanda og leggja hana niður heima.
Nýfrjálshyggjan nær tökum
Á síðastliðnum fjórum áratugum hefur það gerst, að allar vestrænar ríkisstjórnir hafa aðhyllst stefnu sem nefnd hefur verið nýfrjálshyggja. Svipaðar kenningar hafa þekkst áður, en upp úr 1975 náði hún fótfestu að nýju. Grundvallarkenningin er að ríkisstjórnir séu vanhæfar og háðar þrýstihópum en hinn óhefti markaður tryggi hagkvæmni og réttlæti í efnahagsmálum. Velsæld verði tryggð með því að þeir ríku verði ríkari, því að þá muni þeir fjárfesta í atvinnuskapandi verkefnum, öllum til hagsbóta.Joseph Stiglitz, Nóbelshafi í hagfræði, skrifaði 12. janúar síðastliðinn: „Ný tækni hefur boðið upp á hraða dreifingu rangra upplýsinga. Stjórnmálakerfi, sem er á valdi fjármagnsins, hefur undanskilið tæknirisana frá allri ábyrgð og hefur meðtekið stefnu nýfrjálshyggjunnar, sem hefur skapað stórvægilega auðsöfnun forgangshópa. Þetta er svo alvarlegt að Bandaríkin, sem eru í forystu í vísindum og tækni, búa við lækkandi lífslíkur og versnandi aðgang að heilsugæslu.“ Nema fyrir efnafólk.
Trump var sjúkdómseinkenni
Eftir miðjan áttunda áratuginn hafði nýfrjálshyggjan náð þeim tökum að ekki var nema blæbrigðamunur á efnahagsstefnu forseta Bandaríkjanna, hvort sem þeir hétu Reagan, Bush eldri og yngri, Bill og Hillary Clinton eða Obama. Allir aðhylltust þeir líka óhefta hnattvæðingu, sem er skilgetið afkvæmi nýfrjálshyggjunnar.Þetta ástand skapaði grundvöll fyrir Trump, sem náði kosningu af því að þjóðin var orðin uppgefin á þessari sameiginlegu stefnu beggja flokka í Bandaríkjunum og vildi prófa hvað sem væri sem gæti verið skárra. Trump hefur með meistaralegum loddaraskap tekist að byggja upp öflugan hóp stuðningsmanna. Við megum undirbúa okkur undir endurkomu Trumps eða að repúblikanar velji sér betri stjórnmálamann með svipuð stefnumál og Trump.
Mótsögnin í fari Trumps er að hann hefur gefið sig út fyrir að vera verndari smælingjanna, en á sama tíma lækkað skatta á auðmenn og unnið gegn bættri heilbrigðisþjónustu og öðrum hagsmunamálum þeirra sem minna mega sín.
Biden er persónugervingur fortíðarinnar
Það er mál manna að Biden sé hinn vænsti maður, velviljaður, réttsýnn og góður samningamaður á þingi. Hans stærsta vandamál verður trúlega að hann er innanbúðarmaður í klúbbi forgangshópa, sem hafa stjórnað Bandaríkjunum á undanförnum áratugum „á valdi fjármagnsins“ eins og Stiglitz orðar það. Það er heldur ekki langt um liðið síðan Bloomberg-fréttastofan sagði frá því að Biden hefði lofað því á fundi með ríkum stuðningsmönnum, að ekki yrði haggað við þeirra hagsmunum ef hann næði kosningu. Þá má ekki gleyma því hversu kosningasigur hans var naumur.Til að færa ástandið í Bandaríkjunum til betri vegar þarf átök í líkingu við New Deal Franklins D. Roosevelts eftir kreppuna miklu. Ríkisstjórnir hans áttu ríkan þátt í að móta það blandaða hagkerfi, sem gafst svo vel fram á áttunda áratug síðustu aldar. Hvort Biden hefur sýn og orku til slíkra átaka á eftir að koma í ljós.
Vandinn er víðar
Því miður er þessi vandi ekki einangraður við Bandaríkin. Nýfrjálshyggjan hefur ráðið ríkjum í lýðræðisríkjum Vesturlanda á sama tíma. Efnahagsstefna Þýskalands hefur verið sú sama í grundvallaratriðum hvort sem kanslarinn hefur heitið Scheel, Schmidt, Kohl, Schröder eða Merkel. Í Bretlandi var ekki grundvallarmunur á stefnunni hjá Thatcher, Major, Blair, Brown, Cameron eða Johnson. Eða í Frakklandi hvort sem forsetinn hét d'Estaing, Mitterrand, Chirac, Sarkozy, Hollande eða Macron.
Misrétti hefur afleiðingar
Afleiðingar nýfrjálshyggjunnar eru komnar í ljós. Nánast allar kenningar þeirrar stefnu hafa brugðist, segir Robert Kuttner í American Prospect 25. júní 2019.„Kaupsýslu hefur verið ríkulega launað, skattar verið lækkaðir, eftirlit með viðskiptalífinu minnkað eða jafnvel verið einkavætt, með þeim árangri að misskipting auðs hefur vaxið stórlega og dregið úr hagvexti. Heilbrigð samkeppni hefur látið undan síga fyrir hringamyndun og fjármagni beitt til að hafa áhrif á stjórnmálin til að auka samþjöppun í viðskiptalífinu.“
Hann bendir einnig á að nýfrjálshyggjan hafi haft í för með sér reglubundin efnahagshrun. Stærst varð bankahrunið 2008. Það kostaði Bandaríkin 15 trilljónir dollara og miklu meira á heimsvísu. Ríkisvaldið bjargaði bönkunum og hver borgaði reikninginn fyrir stjórnlausa bankastarfsemi? Það var fólkið í landinu, því að ríkissjóðir geta hvergi annars staðar fengið fjármagn.
Flestir vitibornir menn eru búnir að átta sig á því að nýfrjálshyggjan gæti gengið af lýðræðinu dauðu, þó að sumum geti reynst erfitt að viðurkenna það fyrir sjálfum sér. Misrétti í þjóðfélögum hefur gjarnan endað með ósköpum. Ekkert þjóðfélag á tilverurétt ef það býr ekki öllum þegnum sínum lífvænlega tilveru.
Höfundur er fyrrverandi fréttamaður á Sjónvarpinu.