„Ferðaþjónustan er ekki bara stórfengleg íslensk náttúra, hún er líka fólkið,“ segir Ingibjörg.
„Ferðaþjónustan er ekki bara stórfengleg íslensk náttúra, hún er líka fólkið,“ segir Ingibjörg. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir langan og fjölbreyttan feril í útlöndum er Ingibjörg Lára snúin aftur til Íslands til að láta að sér kveða í ferðaþjónustugeiranum. Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Eftir langan og fjölbreyttan feril í útlöndum er Ingibjörg Lára snúin aftur til Íslands til að láta að sér kveða í ferðaþjónustugeiranum.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Viðspyrna eftir kórónuveirufaraldurinn er okkur mikilvæg; fara sterk í gang og komast á flug þegar samkomutakmörkunum verður aflétt. Við finnum nú þegar fyrir miklum áhuga frá Íslendingum en eins eru útlendingar farnir að bóka í haust. Það verður mikilvægt að peppa og sameina teymið eftir þetta erfiða tímabil þar sem margir hafa misst vinnuna tímabundið, jafnvel í fyrsta sinn á sínum ferli. Ferðaþjónustan er ekki bara stórfengleg íslensk náttúra, hún er líka fólkið. Upplifun ferðamannsins getur staðið og fallið með því hvernig er hugað að þeim þegar veður og færð eða aðrar óvæntar uppákomur hafa áhrif á draumaferðina.

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

Málstofa í Þjóðarspegli Háskóla Íslands í október 2020 með yfirskriftina Leið kvenna til æðstu metorða.

Mjög áhugavert að heyra hvernig ferlið gengur fyrir sig (eða ekki) hérna á Íslandi. Sérstaklega þar sem myndin út á við er svolítið önnur en sú sem kom fram í umræðunni á þessari málstofu. Erlendis er Íslandi svo oft hampað sem framúrskarandi í kynjajafnrétti, sérstaklega á vinnumarkaði, en svo er þetta í raun ekkert mikið öðruvísi hérna en annars staðar.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Bækur sem hjálpa manni að auka tilfinningagreind hafa alltaf vakið áhuga minn. Held mikið upp á Adam Grant, sem er prófessor við Wharton School of Management. Ég bíð spennt eftir nýju bókinni hans, Think Again , sem kemur út í febrúar. Tilfinningagreind er í mínum huga eitt af þeim forskotum sem við mennirnir höfum í samkeppni við tæknivæðinguna. Hún var lengi vanmetin en sem betur fer hefur mikilvægi hennar aukist.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Til að viðhalda bresku löggildingunni minni þá þarf ég að hugsa um endurmenntun á hverju ári. Svo ég les ýmis fagtímarit, fer á málstofur og ráðstefnur, og eins tek ég staka kúrsa, oft í gegnum netið til að fá sem víðast aðgengi að efni. Að auki jókst tengslanetið umtalsvert í gegnum námið í Sviss þar sem við vorum 30 í bekk frá 18 löndum, svona ef ég þarf að „hringja í vin“ til að heyra hvað er að gerast utan landsteinanna.

Hugsarðu vel um líkamann?

Þetta hefðbundna: hreyfi mig, borða (oftast) hollt og svo finnst mér svefn vera undirstaða góðrar heilsu. Finn fljótt fyrir því ef ég trassa líkamann, vinn of mikið, sef of lítið og borða rusl, svo að ég hef lært að hlusta vel á hann.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Lögfræði. Vann mjög mikið við yfirferð þjónustusamninga í starfi mínu hjá Sandals Resorts og lærði helling en hefði viljað hafa betri grunn á lögfræðilegu hliðinni þótt ég hefði rekstrarlegu hliðina upp á 10.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Á Íslandi er nándin við allt stór kostur, sérstaklega þar sem ég hef oft upplifað að hérna er margt gert á síðustu stundu. Auðvelt aðgengi að fólki í atvinnulífinu sem og stjórnmálamönnum. Hvort maður fær svo þau svör sem maður leitast eftir er annað mál. Eftir svona langa dvöl erlendis er ég að læra á ýmislegt í regluverkinu sem „útlendingnum“ í mér finnst flækja hlutina. Kjaramál sýnast mér vera stíf og vanta sveigjanleika fyrir hótel-, veitinga- og ferðaþjónustuna.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Að vinna með duglegu og kraftmiklu fólki, ég fann þetta sérstaklega þegar að ég vann sjálfstætt. Ég saknaði innblástursins sem ég fæ við að vinna í teymi, að rökræða og fá að heyra önnur sjónarmið. Það getur oft hjálpað manni til að fínstilla ákvarðanir því ekkert okkar er alviturt. Ég fæ líka oft innblástur þegar að ég er úti að hlaupa.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráð í einn dag?

Reglum um hundahald í fjölbýlishúsum.

Hin hliðin

Nám: Hótel- og veitingaskólinn, sveinspróf í framreiðslu 1993; Chartered Institute of Management Accounting, London, CMA 2009; Ecole Hôtelìre de Lausanne, MBA í hótelstjórnun 2011.

Störf: Hótel Óðinsvé, nemi í framreiðslu og önnur störf 1991-1993. Tungumálanám og ýmis afleysingastörf 1994; BBC, ýmis störf s.s. sérfræðingur innan þjónustuvers og fjármáladeildar ásamt því að vera aðstoðarfjármálastjóri fyrir klassískar hljómsveitir BBC 1995-2000; Wimberly Allison Tong & Goo (WATG) London, sérfræðingur í verkefnaskilum, síðar fjármálastjóri London og fjármálastjóri samstæðu. 2000-2008; Hamraborg ltd. verkefnastjóri 2008-2010 og 2012-2014; Ace Hotel Shoreditch, fjármálastjóri 2014-2015; Sandals Resorts International Montego Bay, innri endurskoðandi 2014-2018. Maybourne Hotel Group London, fjármálastjóri samsteypu 2018; Hart Bridge Consulting London, ráðgjafi 2018-2020; Húsafell Resort, framkvæmdastjóri frá 2021.

Áhugamál: Útivist er áhugamál sem hefur verið að taka stærri sess í lífi mínu síðan ég bjó í Sviss. Ég hef líka notað hlaup til að ferðast og upplifa nýtt umhverfi. Hafði það af að æfa fyrir NYC-maraþon í hitanum á Jamaíku sumarið og haustið 2016. Hef líka hlaupið hálfmaraþon í sjö mismunandi löndum.

Fjölskylduhagir: Maka- og barnlaus. Eignast vonandi hund á árinu.