Með því er fylgt eftir valkostagreiningu breska ráðgjafarfyrirtækisins AFL architects á nýjum leikvangi fyrir landsliðin í knattspyrnu.
Niðurstöður hennar eru að endurbætur á núverandi mannvirkjum komi ekki til greina. Þess í stað eru færð rök fyrir kostum C og D sem rúma 15.000 og 17.500 manns í sæti.
Kynntar voru nokkrar útfærslur sem kostuðu 8,6 til 15,8 milljarða. Þetta eru heldur lægri upphæðir en í fyrri áætlunum Verkís sem taldi byggingu 20 þúsund manna leikvangs kosta allt að 18 milljarða en tilefnið var greining þýska fyrirtækisins Lagardère Sports 2016.
Óvissuliðir juku kostnaðinn
Munurinn liggur meðal annars í því að Verkís mat óvissuliðina við slíka framkvæmd á allt að 4,1 milljarð sem stórjók kostnaðinn. Þá var sá leikvangur með 2.500 til 5.000 fleiri sætum en nú er rætt um.Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að í viðskiptalíkani vegna nýs leikvangs sé gert ráð fyrir reglubundnum tekjum af sýningum, viðburðum og stórtónleikum.
Tónleikarisinn Live Nation hafi talið raunhæft að halda nokkra stórtónleika á ári.
„Rannsóknir í Bandaríkjunum og Evrópu benda til að þegar nýr leikvangur er vígður aukist aðsóknin um að jafnaði 40% sem myndi gefa okkur mikla stemningu og stuðning,“ segir Guðni. Íslendingar séu áratugum á eftir öðrum þjóðum í þessu efni og landsliðin geti ekki leikið heimaleiki að vetri til.