Pálsmessa var á mánudag, 25. janúar, daginn sem Páll postuli snerist til kristni.

Pálsmessa var á mánudag, 25. janúar, daginn sem Páll postuli snerist til kristni. Þann dag rifjaði Karl Sigurbjörnsson biskup upp gamla húsganga og setti á fésbók:

Heiðskírt veður og himinn klár

á helgri Pálusmessu

mun þá verða mjög gott ár

maður uppfrá þessu.

Ef heiðríkt er úti veður

á Pálsmessu degi,

ársins gróða' og gæða meður

get ég, að vænta megi.

Góður vinur minn sendi mér póst: „Fréttamaðurinn góðkunni, Gísli Einarsson í Borgarnesi, fagnaði bóndadeginum, fyrsta degi þorra, með því að fá sér reyktan magál í morgunmat og skar hann niður með vígalegu saxi. Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri í Skagafirði orti“:

Af feitum magál flísar sker

flíkar vopni þungu.

Bóndadagur byrjar hér

á búrkuta og tungu.

Það er „vetrarkvíði“ í Hallmundi Guðmundssyni:

Þó fannirnar fjöllin hér skrýða

þá finn ég í huga mér kvíða;

sem kallar á frí

til Kanarí,

– en þar er nú bongóblíða.

Atli Harðarson segir svo frá: „Þegar ég les sögur af Samfylkingunni rifjast upp kviðlingur sem Jósefína heitin sáluga laumaði eitt sinn út úr sér“:

Skolli finnst mér skynsamlegt að skjóta í fótinn

á sér, kveð ég eikin spanga,

ef menn vilja haltir ganga.

Á Boðnarmiði segist Sigrún Huld Þorgrímsdóttir hafa rekist á þessa vísu „eignaða Guðrúnu dóttur Bólu-Hjálmars. Hún átti barn og kenndi Þórarni nokkrum, en hann neitaði og sagði barnið ekki fætt á þeim tíma sem vera ætti“:

Yfir því hlakkar andi minn

eg þó flakki víða,

þennan krakka á Þórarinn

þó að skakki um mánuðinn.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir skrifar á mánudag: „Hér er loks að birta. Samt enn stormur og skafrenningur“:

Oft hefur hríðin ólmast fyr

nú ýlir í lausa faginu.

svo fiðlari vindanna fram við dyr

fer bara' útaf laginu.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is