Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Fimm baðstaðir eru í hönnunarferli um þessar mundir hér á landi sem einkaaðilar hyggjast koma á laggirnar.

Frá því Bláa lónið opnaði dyrnar í fyrsta sinn árið 1992 er mikið vatn runnið til sjávar. Bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Lengst af voru fá ef nokkur fyrirtæki önnur á þessum markaði, en með fjölgun ferðamanna virðist greininni hafa vaxið mjög ásmegin. Sigurganga Bláa lónsins, auk aðkomu fyrirtækisins sjálfs, hefur hrundið af stað mikilli uppbyggingu sem ekki sér fyrir endann á. Þannig hefur Bláa lónið komið að uppbyggingu Jarðbaðanna á Mývatni árið 2004, Laugarvatns Fontana sem opnað var 2011 og Vakar í Urriðavatni á Héraði sem opnaði 2019. Framkvæmdakostnaður við síðastnefndu uppbygginguna var áætlaður um milljarður króna. Þar með er aðkoma Bláa lónsins að uppbyggingu af þessu tagi ekki upp talin því fyrirtækið á umtalsverðan hlut í Fjallaböðum en það er fyrirtæki sem stefnir á stórfellda uppbyggingu í Reykholti í Þjórsárdal. Magnús Orri Schram er framkvæmdastjóri verkefnisins og staðfestir hann í samtali við ViðskiptaMoggann að áætluð verklok séu vorið 2024 og að heildarkostnaður við verkefnið sé áætlaður 4-5 milljarðar. Um er að ræða uppbyggingu á baðstað og vandaðri gistiaðstöðu.

Bláa lónið kemur víða að

Þá hefur Bláa lónið einnig haft óbeina aðkomu að uppbyggingu Geosea-sjóbaðanna á Húsavík þar sem Jarðböðin á Mývatni eru hluthafar í fyrirtækinu. Sjóböðin hófu formlega starfsemi árið 2018 og var framkvæmdakostnaður metinn á 500-600 milljónir króna á sínum tíma.

Talsverð uppbygging hefur átt sér stað á síðustu árum í Borgarfirði í þessum efnum. Þannig hefur vatn frá vatnsmesta hver Evrópu í Deildartungu verið nýtt í heitar laugar Kraumu sem reistar voru á samnefndri jörð og opnaðar voru gestum 2017. Þá hafa Húsafellsbændur reist hin svokölluðu Giljaböð í Hringsgili sem opnuðu undir lok árs 2019.

Dagný Pétursdóttir er framkvæmdastjóri Sky Lagoon sem á vordögum mun hefja starfsemi á Kársnesi. Hún segir að hækkandi kostnaður við aðföng valdi því að framkvæmdirnar á nesinu muni kosta rúmlega 4 milljarða króna. Á Efri-Reykjum í Biskupstungum eru svo einnig uppi áform um uppbyggingu hótelstarfsemi í kringum náttúrulaugar. Á Þorláksmessu var tilkynnt í Stjórnartíðindum að tillögur Þróunarfélagsins Reykja að breytingum á deiliskipulagi á svæðinu hefðu verið samþykktar. Heimildir Morgunblaðsins herma að áætlaður framkvæmdakostnaður við það verkefni nemi 60 milljónum dollara eða nærri 8 milljörðum króna.

Minni verkefni í pípunum

Á þessu ári er einnig áætlað að framkvæmdir hefjist við sjóböð í Hvammsvík í Hvalfirði en athafnamaðurinn Skúli Mogensen og foreldrar hans hyggjast hefja rekstur á því sviði næsta sumar. Eins vinnur einkafyrirtæki að uppbyggingu svokallaðra Skógarbaða austan megin í Eyjafirði þar sem ætlunin er að nota heitt vatn frá Vaðlaheiðargöngum. Ekki fást upplýsingar um hver áætlaður framkvæmdakostnaður við það verkefni er. Nýverið var svo greint frá því að hinn hugmyndaríki Runólfur Ágústsson ynni nú að því að koma upp sjóbaðsaðstöðu í fjörunni við Holt í Önundarfirði. Verkefnið er sagt á byggingarstigi.