Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Flest bendir til þess að Þorsteinn Halldórsson taki við starfi landsliðsþjálfara kvenna í fótbolta á allra næstu dögum. Um leið þarf Breiðablik að hefja leit að nýjum þjálfara fyrir kvennalið sitt en Þorsteinn hefur stýrt því í sex ár með frábærum árangri og uppskorið m.a. þrjá Íslandsmeistaratitla.
KSÍ tilkynnti í gær að íslenska landsliðið væri á leið á sterkt alþjóðlegt mót, Tournoi de France, í Sedan í Frakklandi dagana 17. til 23. febrúar þar sem leikið verður gegn Frakklandi, Noregi og Sviss, sem eru í þriðja, ellefta og nítjánda sæti á heimslista FIFA.
Þar fylgdi jafnframt sögunni að leikið yrði undir stjórn nýs þjálfara á mótinu en Jón Þór Hauksson hætti störfum í byrjun desember eftir að íslenska liðið hafði tryggt sér keppnisréttinn í lokakeppni Evrópumótsins, sem fer ekki fram fyrr en sumarið 2022.
Eins og fram hefur komið var KSÍ einnig í viðræðum við Elísabetu Gunnarsdóttur um landsliðsþjálfarastarfið en upp úr þeim slitnaði þegar Elísabet kvaðst ekki vera tilbúin til að hætta strax með lið Kristianstad til að taka við íslenska landsliðinu.
Undankeppni HM í haust
Leikirnir þrír í Frakklandi verða fyrsta verkefnið í undirbúningi liðsins fyrir Evrópumótið en nýr þjálfari mun jafnframt fara með liðið af stað í undankeppni heimsmeistaramótsins. Lokakeppni þess fer fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi árið 2023.Undankeppnin á að hefjast í haust en ekki hefur verið dregið í riðla enn sem komið er. Þar á Ísland enn meiri möguleika en áður á að komast á HM því nú verða ellefu eða tólf Evrópuþjóðir í lokakeppninni í stað átta áður, þar sem liðum hefur verið fjölgað úr 24 í 32.