München Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er komin til efsta liðsins í einni sterkustu deild heims í kvennafótboltanum.
München Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er komin til efsta liðsins í einni sterkustu deild heims í kvennafótboltanum. — Ljósmynd/Þórir Tryggvason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þýskaland Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Landsliðskonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir vonast til þess að leika sinn fyrsta leik fyrir þýska stórveldið Bayern München í marsmánuði.

Þýskaland

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Landsliðskonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir vonast til þess að leika sinn fyrsta leik fyrir þýska stórveldið Bayern München í marsmánuði.

Miðjukonan, sem er einungis 19 ára gömul, skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning í Þýskalandi en hún er að jafna sig á hnémeiðslum og vonast til þess að hefja æfingar með þýska liðinu í næstu viku.

Karólína varð Íslandsmeistari með Breiðabliki síðasta haust en hún gekk til liðs við Blika frá uppeldisfélagi sínu FH eftir tímabilið 2017 og á að baki 78 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað ellefu mörk.

Þrátt fyrir ungan aldur og að vera að stíga upp úr meiðslum ætlar Karólína sér stóra hluti með þýska stórliðinu á komandi leiktíð en Bayern hefur þrívegis orðið Þýskalandsmeistari; 1976, 2015 og 2016.

„Öll umgjörðin hérna í kringum félagið er svakalega flott og fagmennskan er gríðarlega mikil,“ sagði Karólína í samtali við Morgunblaðið.

„Ég er í endurhæfingu þessa stundina eftir að hafa gengist undir aðgerð á hné í desember en samt sem áður er ég að æfa tíu sinnum í viku. Það er því æft af fullum krafti, þótt ég sé í endurhæfingu, en áherslan er mestmegnis á þolæfingar þótt boltanum sé aðeins blandað með líka.

Stelpurnar hérna eru mjög indælar og mér hefur verið tekið gríðarlega vel af bæði leikmönnum og öllum sem starfa í kringum félagið. Móttökurnar sem ég hef fengið hafa í raun komið mér aðeins á óvart og ég gæti ekki verið spenntari fyrir komandi tímum með liðinu,“ bætti Karólína við.

Ætlaði að spila á Íslandi

Karólína skrifaði undir þriggja ára samning við Breiðablik í lok nóvember og var planið að spila á Íslandi á komandi keppnistímabili.

„Það var einhver áhugi frá liðum í Skandinavíu en planið var alltaf bara að taka alla vega eitt ár í viðbót heima á Íslandi. Svo kom Bayern München allt í einu inn í þetta og ég heyrði fyrst af áhuga þeirra þegar umboðsmaðurinn minn hringdi í mig í miðjum lokaprófum í Háskóla Íslands. Í framhaldinu af því fór ég á fund með forráðamönnum félagsins og eftir það var þetta í raun aldrei spurning.

Mér fannst þetta einfaldlega of gott tækifæri til þess að hafna því enda félagið eitt af þeim stærri í Evrópuboltanum. Ég er fyrst og fremst þakklát Breiðabliki fyrir það hvernig þeir tóku á málinu og það var mjög fagmannlega staðið að öllu í kringum þessi félagaskipti til Þýskalands.

Meirihluti leikmanna Bayern-liðsins býr í sama hverfinu í München og ég hef þess vegna verið mjög lítið ein síðan ég kom út. Andinn í hópnum er virkilega góður og leikmenn eru í miklum samskiptum. Það er stundum erfitt að vera ekki með alla þjónustuna frá mömmu og pabba en ég plumma mig bara frekar vel þótt ég segi sjálf frá. Heimþráin hefur því minnt mun minna á sig en ég átti von á.“

Bæjarar á miklu skriði

Bayern München er með 36 stig eða fullt hús stiga í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar. Þá hefur liðið skorað 40 mörk á tímabilinu og aðeins fengið á sig eitt mark en keppni hefst að nýju í Þýskalandi hinn 12. febrúar eftir vetrarfrí.

„Það er undir sjálfri mér komið að vinna mér inn sæti í byrjunarliðinu en þeir sjá mikla hæfileika í mér og eru spenntir að fá mig út á æfingasvæðið. Það er mikil ákefð og álag í deildinni þannig að ég mun fá tækifæri til þess að sýna mig og sanna og ég er virkilega spennt fyrir því að hefja æfingar í næstu viku því ég veit fyrir víst að þjálfararnir og aðrir í kringum liðið hafa mikla trú á mér. Eins og staðan er í dag sé ég fram á að missa af kannski fyrstu tveimur til þremur leikjunum eftir vetrarfrí en ég vonast til þess að vera komin af stað í marsmánuði. Ég spilaði fyrir Steina [Þorstein Halldórsson] hjá Breiðabliki og hann var lítið fyrir það að breyta liðinu og maður er því öllu vanur. Það er hins vegar þétt leikjadagskrá í mars og ég hef heyrt að Jens Scheuer, þjálfari Bayern, sé duglegur að hreyfa við liðinu, alla vega einni og einni leiksstöðu, bæði þegar kemur að taktík og eins til þess að hvíla og dreifa álaginu. Ég vonast auðvitað til þess að fá einhverjar mínútur þegar ég verð orðin leikfær en það eina sem ég get gert þangað til er að gefa allt mitt í þetta á æfingum og svo bara vera tilbúin þegar kallið kemur.“

Liðsfélagar Karólínu í Breiðabliki frá síðustu leiktíð, þær Alexandra Jóhannsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir, sömdu báðar við þýsk lið á dögunum. Karólína er spennt að mæta þeim á vellinum en Alexandra gekk til liðs við Frankfurt á meðan Sveindís samdi við Wolfsburg. Sveindís mun leika á láni hjá Kristianstad í Svíþjóð á næstu leiktíð.

Framtíðin björt hjá landsliðinu

„Það verður örugglega mjög skrítið að mæta þeim á vellinum. Ég og Alex [Alexandra Jóhannsdóttir] höfum verið eins og systur síðan ég gekk til liðs við Breiðablik. Það verður mjög skrítið að mæta henni en á sama tíma erum við líka nokkuð vanar því vera hvor í sínu liðinu enda ólst hún upp í Haukum á meðan ég ólst upp í FH. Það verður gaman að kljást við hana og ég er að sjálfsögðu spennt að vinna hana hérna úti líka.“

Karólína, sem á að baki fjóra A-landsleiki, lék sína fyrstu mótsleiki með liðinu síðasta haust í undankeppni EM en liðið er án þjálfara eftir að Jón Þór Hauksson lét af störfum í byrjun desember.

„Að taka þetta stóra skref til Þýskalands var líka gert með landsliðið í huga. Að spila fyrir stórt félag í Þýskalandi mun bara gera landsliðinu gott held ég og vonandi eykur þetta möguleika manns á því að spila reglulega fyrir landsliðið. Framtíðin hjá kvennalandsliðinu er mjög björt og það eru spennandi tímar fram undan.

Hvað varðar þjálfaramál landsliðsins þá hefur maður heyrt nokkrum nöfnum kastað fram í umræðuna og mér líst mjög vel á þá sem hafa verið orðaðir við starfið. Ég hugsa að landsliðið hafa aldrei verið jafn tæknilega gott, fótboltalega séð. Vonandi fá yngri leikmenn áfram tækifæri með liðinu hjá nýjum þjálfara og auðvitað er markmiðið svo að sýna sig og sanna á lokakeppni EM 2022 á Englandi,“ bætti Karólína við í samtali við Morgunblaðið.