Aurskriður Seyðisfjörður varð illa úti í skriðum sem féllu um bæinn í desember. Mörg hús eyðilögðust eða skemmdust.
Aurskriður Seyðisfjörður varð illa úti í skriðum sem féllu um bæinn í desember. Mörg hús eyðilögðust eða skemmdust. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Umhverfis- og samgöngunefnd hefur verið að fjalla um frumvarp umhverfisráðherra um breytingar á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Umhverfis- og samgöngunefnd hefur verið að fjalla um frumvarp umhverfisráðherra um breytingar á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Lauk móttöku gesta í gær og reiknar Jón Gunnarsson, framsögumaður málsins af hálfu nefndarinnar, með því að hægt verði að afgreiða málið til annarrar umræðu í þinginu eftir um það bil tvær vikur.

Gagnrýni kemur fram á efni frumvarpsins í umsögnum til nefndarinnar, að hluta til þær sömu og komu fram þegar frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

Harðast gengur Fjallabyggð fram sem og Leyningsás sem er sjálfseignarstofnun sem sveitarfélagið á aðild að. Leggst Fjallabyggð alfarið gegn því að frumvarpið verði samþykkt og rökstyður sjónarmið sín í ítarlegri greinargerð.

Gildissvið laganna þrengt

Telur Fjallabyggð að frumvarpið leggi skuldbindingar á sveitarfélög og ríki mikil óvissa um fjárhæðir útgjalda í framtíðinni. Í því sambandi er nefnt að sveitarfélögum sé fært fullt eignarhald á varnarvirkjum og þar með full ábyrgð á kostnaði vegna viðhalds og reksturs. Þá sé ætlunin að þrengja gildissvið laganna til muna, meðal annars með því að margvíslegar eignir sem kunna að verða ónothæfar vegna nýrra hættumata Veðurstofu, muni ekki eiga möguleika á að fást bættar úr Ofanflóðasjóði eftir uppkaup sveitarfélaga.

Nefnt er að ætlun ráðherra sé að færa ábyrgð á eftirliti með mögulegum ofanflóðum á skipulögðum skíðasvæðum til rekstraraðila sem færi þeim aukinn kostnað.

Veðurstofan sá ástæðu til að senda umhverfis- og samgöngunefndinni athugasemdir við umsagnir Fjallabyggðar og Leyningsáss ses. Leggur Veðurstofan áherslu á að hún hafi aldrei haft með höndum eftirlit á skíðastöðum heldur hafi það verið í höndum rekstraraðila, í samræmi við reglugerð. Þar hafi viðkomandi sveitarfélag einnig mikilvægu hlutverki að gegna.

Háar sektir

Í frumvarpinu er lagt til það nýmæli að heimilt verði að sekta fólk fyrir brot á lögunum. Gengið er út frá því að eigendum húseigna á hættusvæði sé óheimilt að dvelja í eða heimila dvöl í húseigninni í trássi við heimilaðan nýtingartíma samkvæmt þinglýstri kvöð. Sektir eru allt að 500 þúsund krónum. Í greinargerðinni er rætt um varnaðaráhrif slíks.

Breytingar til skoðunar

Nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd vinna nú að gerð nefndarálits eða -álita. Jón Gunnarsson, framsögumaður málsins fyrir hönd nefndarinnar, telur að vilji sé meðal nefndarmanna til að gera einhverjar breytingar á frumvarpinu og vísar í því efni til umsagna sveitarfélaga um áhrif breytinganna á fjárhag þeirra. Telur hann að skoða þurfi ákvæði um skráningu eignarhalds á varnarvirkjum og skiptingu kostnaðar við stærra viðhald á þeim. Einnig þurfi að skoða tilvik eins og nú er uppi á Siglufirði, að flytja þurfi skíðalyftur og önnur marnnvirki vegna breytinga á mati á snjóflóðahættu. Eins þurfi að fara yfir athugasemdir um eftirlit vegna snjóflóðahættu á skíðasvæðum.