Enn berast fregnir af frekari ógöngum Evrópusamstarfs um öflun bóluefnis, sem ríkisstjórn Íslands batt sig illu heilli við, en um helgina var sagt frá því að lyfjafyrirtækin Pfizer og AstraZeneca muni minnka afhendingu bóluefnis til Evrópuríkjanna um allt að 60% á fyrsta ársfjórðungi. Þetta eru ömurlegar og grafalvarlegar fréttir ofan á það gegndarlausa klúður sem þetta Evrópusamstarf hefur reynst.
Um alla Evrópu – nema á Íslandi – hefur verið rekið upp ramakvein vegna þessa og í Brussel er lyfjafyrirtækjunum hótað málaferlum. En það þarf ekki að rýna mikið í þessi bólefnisvandræði til þess að átta sig á því að hann má að mestu rekja til Evrópusambandsins sjálfs.
Ísraelsmenn hafa bólusett um 45% þjóðarinnar nú þegar, en Bretar um 11% og Bandaríkjamenn um 7%. Á meðan er Evrópa aðeins í um 2%. Og á Íslandi er hlutfallið litlu skárra þó að hér hefðu að ýmsu leyti átt að vera kjöraðstæður til að vera meðal fremstu þjóða í þessum efnum. Við blasir að það þarf nánast kraftaverk til þess að helmingur íbúanna verði bólusettur fyrir mitt ár líkt og stjórnvöld fullyrða enn. Þau skulda fólki svör um það, á hverju sú trú er byggð.
Í Evrópu kenna stjórnmálamenn vondu lyfjarisunum um allt saman, en hafa þó ekki getað rökstutt það. Á hinn bóginn verður ekki sagt að Lyfjastofnun Evrópu liggi lífið á við að veita leyfi fyrir bóluefnum. Það hefur þannig enn ekki leyft Oxford-bóluefnið frá AstraZeneca, þrátt fyrir að Evrópusambandið hafi pantað ógrynni af því. Það verður fróðlegt að fylgjast með málshöfðunum ESB á hendur fyrirtækinu vegna bóluefnis sem það hefur sjálft ekki leyft.
Það er ekki hægt að líta fram hjá því að Evrópusamstarfið um öflun bóluefnis hefur klúðrast nær fullkomlega, að miklu leyti vegna þess að þar var dýrmætum tíma eytt í að prútta um verð, sem öllum öðrum var ljóst að væru smáaurar hjá þeim kostnaði sem hlýst af hálflokuðum samfélögum um alla álfu og efnahagslífi í lamasessi, nýjum afbrigðum og hækkandi dánartíðni. Sú níska er að reynast dýrkeyptari en þola má.
Ríkisvaldið íslenska situr við sinn keip um að þetta hafi verið eina leiðin án þess þó að hafa látið uppi sannfærandi rökstuðning fyrir því, eða upplýst um hvernig ákvörðun um þetta var tekin eða af hverjum. Morgunblaðið hefur leitað svara við því hjá heilbrigðisráðherra en þau svör sem þó hafa fengist hafa ekki aðeins borist hægt heldur einnig verið ófullnægjandi. Það er óviðunandi í svo afdrifaríku máli fyrir alla þjóðina og til þess verður að gera kröfu að allar upplýsingar verði veittar um þessa ákvörðun sem þegar má ljóst vera að hefur reynst lítt farsæl svo ekki sé meira sagt. Hins vegar hafði sóttvarnalæknir þegar upplýst að meðal þeirra skilyrða sem Ísland hafi undirgengist í Evrópusamstarfinu væri að það leitaði ekki sjálft fyrir sér um öflun sömu bóluefna.
Þar hefur einhver samið illa af sér fyrir Íslands hönd. Verði ekki upplýst um annað hlýtur að þurfa að draga þá ályktun að ákvörðun um þá samninga hafi verið tekin í heilbrigðisráðuneytinu, en vitaskuld ber því ráðuneyti að taka af allan vafa í þessum efnum og upplýsa landsmenn. Nóg hefur verið rætt um upplýsingaóreiðu í tengslum við faraldurinn og hafa fulltrúar hins opinbera lýst áhyggjum af að upplýsingar um þetta málefni séu í sérstakri hættu að verða óreiðunni alræmdu að bráð. Ríkisvaldið hlýtur að vilja stuðla að því að minnka þá óreiðu en auka hana ekki.
Eins og komið er fyrir þessu Evrópusamstarfi má hins vegar ljóst vera að vanefndirnar eru svo miklar og svo afdrifaríkar, að Ísland getur ekki verið bundið af þeim samningi. Nú hljóta íslenskir ráðamenn að verða að leita allra leiða til að tryggja landsmönnum sem bestan aðgang að bóluefni úr því sem komið er, óháð samningi sem bersýnilega dugar ekki.
Hermt er að Ísraelsmenn hafi tryggt sér nægt bóluefni frá Pfizer með því að greiða um 4.000 kr. fyrir skammtinn, um helmingi meira en ESB var tilbúið til að semja um. Ef Íslendingar keyptu það sama verði mætti bólusetja gervalla þjóðina fyrir innan við 3 milljarða króna. Er það flókið reikningsdæmi?