[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Svo virðist sem um það bil 95% landsins verði skilgreind sem svæði þar sem alfarið er bannað að byggja upp vindorkuver eða viðkvæm svæði þar sem uppbygging þarf að fara til umfjöllunar í verkefnisstjórn rammaáætlunar.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Svo virðist sem um það bil 95% landsins verði skilgreind sem svæði þar sem alfarið er bannað að byggja upp vindorkuver eða viðkvæm svæði þar sem uppbygging þarf að fara til umfjöllunar í verkefnisstjórn rammaáætlunar. Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, telur þetta blasa við þegar skoðuð er vefsjá sem verið er að útbúa til að sjá flokkun landsins samkvæmt tillögum sem umhverfisráðherra hefur kynnt.

Vefsjáin er unnin fyrir Náttúrufræðistofnun vegna vinnu verkefnisstjórnar fjórða áfanga rammaáætlunar. Tekið er fram að þetta eru ófrágengin drög og verður að hafa þann fyrirvara við birtinguna.

Páll Erland bendir jafnframt á að á þeim litla hluta landsins sem lendir á grænu svæði, þar sem alltaf verði heimilt að nýta vindorku, séu staðir sem tæknilega ómögulegt sé að nota fyrir vindorkuver vegna fjalllendis og annarra aðstæðna.

Einfaldari málsmeðferð

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, bendir á að í núverandi fyrirkomulagi sé þess krafist að öll áform um vindorku fari til mats hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar og öll slík áform séu bönnuð á friðlýstum svæðum. „Það er nýtt í þessum tillögum að fleiri svæði falla undir þann flokk svæða þar sem ekki má ráðast í vindorku. Einfaldari málsmeðferð verður fyrir áform á viðkvæmum svæðum í flokki tvö sem koma til skoðunar hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar. Enn einfaldari málsmeðferð verður fyrir áform í þriðja flokki sem aðeins fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum og í hefðbundið skipulagsferli,“ segir Guðmundur Ingi.

Hann segir að mikil krafa hafi verið um að setja reglur um nýtingu vindorkunnar. Með tillögum um breytingar á lögum um rammaáætlun og stefnumörkun um flokkun landsins í þingsályktunartillögu sé verið að svara því kalli. Fylgt sé fyrirmynd frá Skotlandi og telur ráðherra að það fyrirkomulag sé gott.

Hann neitar því að verið sé að loka nánast öllu landinu fyrir uppbyggingu vindorku. Þegar áform eru um uppbyggingu á viðkvæmum svæðum sé eðlilegt að skoða hvort það komi til greina í ljósi aðstæðna.

„Ef niðurstaðan verður eitthvað í þá átt sem lagt er til verður komin miklu skýrari rammi um nýtingu vindorku sem ætti að mínu mati að skila sér í skilvirkari og hraðari ákvörðunum á þeim svæðum þar sem nýting vindorku verður leyfð,“ segir Guðmundur Ingi.

Óskað eftir skilvirku kerfi

Páll Erland segir að Samorka hafi verið að kalla eftir því að umgjörð um nýtingu vindorkunnar verði bætt þannig að samfélagið geti nýtt þau tækifæri sem það hafi í þeirri orkuknýtingu, þó þannig að tryggt verði að vandað verði til verka. Vindorkuverkefnin hafi ekkert komist áfram í núverandi fyrirkomulagi og því séu tillögurnar komnar fram.

„Samorka hefur verið að óska eftir einföldu og skilvirku kerfi í kringum vindorkuna. Það frumvarp sem nú er verið að leggja fyrir, er ekki að uppfylla það að okkar mati. Við höfum bent á að um vindorkuna geti gilt hefðbundið skipulagsferli sveitarfélaga með eðlilegum almennum skilmálum. Gæta þarf að náttúruvernd, fuglalífi og fleiri þáttum. Samorka hefur ekki talað fyrir því að vindurinn sé í rammaáætlun vegna þess flækjustigs sem það kallar á,“ segir Páll.

Telur hann öruggt að Samorka muni tala fyrir ákveðnum úrbótum á þeim tillögum sem lagðar hafa verið fram til kynningar og vonar að breytingar náist fram sem komi samfélaginu til góða.