Guðný Þorgeirsdóttir fæddist á Húsavík 19. febrúar 1951. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 18. janúar 2021. Foreldrar hennar voru Þorgeir Kristjánsson, f. 27. mars 1909, d. 12. apríl 1986, og Rebekka Pálsdóttir, f. 17. janúar 1912, d. 29. júní 1986. Systir Guðnýjar var Áslaug, f. 29. nóvember 1940, d. 29. október 2006.

Guðný bjó um tíma í Englandi á yngri árum og um nokkurra ára skeið í Hafnarfirði, en lengst af á Húsavík. Hún vann ýmis skrifstofu- og þjónustustörf, m.a. hjá Reiknistofu Húsavíkur, Fiskiðjusamlagi Húsvíkur og síðast var hún fulltrúi hjá Tryggingastofnun ríkisins, þar til hún lét af störfum 67 ára að aldri. Guðný var um árabil ein af helstu leikkonum Leikfélags Húsavíkur og tókst á við fjölmörg krefjandi verkefni á þeim vettvangi.

Árið 1973 giftist Guðný Roy Phillips, f. 12. nóvember 1937, d. 21. mars 1991. Þau skildu. Börn þeirra eru Kristján Phillips bílstjóri, f. 4. apríl 1974, giftur Elínu Guðmundsdóttur, f. 26. janúar 1969, og Edda Lóa Phillips stuðningsfulltrúi, f. 14. desember 1976.

Dóttir Kristjáns og Elínar er Rebekka, f. 13. mars 2010. Sonur Kristjáns af fyrra sambandi er Anton Atli, f. 20. mars 2003 og Elín á synina Elís Má, Arnór og Heimi Mána. Börn Eddu Lóu eru Eyþór, f. 13. september 1998, Snorri, f. 24 september 2007 og Lena, f. 19. desember 2011.

Útför Guðnýjar verður gerð frá Húsavíkurkirkju 30. janúar 2021 og hefst kl. 11. Streymt verður frá athöfninni á facebooksíðu Húsavíkurkirkju.

Stytt slóð á streymi:

tinyurl.com/1d2r6rw3

Virkan hlekk á slóð má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Enn erum við minnt á hve hverfult lífið er. Gugga vinkona okkar hefur kvatt þetta líf, snöggt og óvænt eftir stutt veikindi. Það er sorg í hjarta og söknuður, enda hlutverki hennar hvergi lokið. Sérstöku hlutverki gegndi hún í lífi barnabarnanna sem nú hafa misst mikið.

Gugga kom inn í líf okkar aðeins 10 ára gömul sem barnfóstra okkar systkinanna. Við bjuggum í Öskju á efri hæðinni og niðri var verslunin þar sem pabbi okkar og Toggi, pabbi Guggu, unnu báðir. Æ síðan hafa leiðir okkar verið samtvinnaðar og einkennst af vináttu og tryggð. Við urðum tíðir gestir á æskuheimili Guggu á Uppsalaveginum þar sem Bekka og Toggi tóku okkur opnum örmum. Hlutverk Guggu í okkar lífi voru mörg. Frá því að vera fyrst barnfóstra varð hún nokkurs konar stóra systir og fyrirmynd og á seinni kafla einstök vinkona. Þegar Gugga eignaðist sín börn varð barnfóstruhlutverkið okkar.

Eftir að við fluttum frá Húsavík á unglingsárum hafa heimsóknir til Guggu verið fastur liður í ferðum okkar norður og alltaf tilhlökkunarefni, bæði hjá okkur og börnum okkar. Gugga átti fallegt heimili og hafði einstakt lag á að búa til góða stemningu. Við gátum spjallað, hlegið, lagt á ráðin um ferðalög, rifjað upp gamla tíma út í eitt og gjarnan var dreypt á rauðvíni. Minningarnar eru margar.

England átti sérstakan sess í hjarta Guggu. Hún bjó þar um tíma og hélt mikilli tryggð við tengdafjölskyldu sína þar og ekki síður við Huld frænku sína og hennar fjölskyldu og í seinni tíð ferðaðist hún þangað minnst árlega. Hún þekkti líka London og leikhúsin þar eins og lófann á sér lengi vel og höfum við margir vina hennar notið þess að ferðast þangað með henni og njóta leiðsagnar.

Gugga hafði gaman af lífinu. Hún var afbragðsleikkona og mörg hlutverk gerði hún eftirminnileg með Leikfélagi Húsavíkur. Hún var skemmtileg og hugmyndarík og einstaklega lagin við að gera sér og öðrum glaðan dag af litlu tilefni. Leikhúsvinkonurnar, Steinunn og Hrefna, voru gjarnan með í ráðum en þær þrjár voru skemmtilegt þríeyki. Sú hefð þeirra að eiga notalega morgunstund á laugardagsmorgnum yfir kaffibolla hjá móður okkar hefur haldist órofin í 30 ár og veitt henni og okkur ómetanlega gleði. Sú tryggð verður seint þökkuð.

Síðast þegar við komum til Húsavíkur í haust sem leið var erindið að hjálpa móður okkar við flutninga. Eftir flutningana sló Gugga upp glæsilegri veislu þar sem hún töfraði fram dýrindis máltíð eins og henni einni var lagið. Og að sjálfsögðu var boðið upp á rauðvín.

Nú er komið að kveðjustund. Við þökkum af alhug vináttu og tryggð alla tíð og biðjum Guð að blessa minningu kærrar vinkonu.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf sem gleymist eigi

og gæfa var það öllum sem fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sig.)

Elsku Kristján, Edda Lóa og fjölskyldur; megi góðar minningar hugga ykkur í sorg og söknuði.

Guðbjörg, Geirþrúður,

Ari Páll og amma Dídí.

Gugga móðursystir, Gugga frænka, en sennilega er réttast að segja Gugga vinkona, því þrátt fyrir að vera allt þetta var hún sennilega mest vinkona. Gugga var ellefu árum yngri en mamma og því 19 ára þegar ég fæddist. Ég held að fyrsta minning mín um Guggu sé þegar hún kom með Roy, þá splunkunýjan eiginmann, í fyrsta sinn til Húsavíkur. Það var í eldhúsinu hjá ömmu Bekku og ég þá á fjórða ári. Þetta var allt svo spennandi og framandi, útlenskur maður, allir að tala útlensku og Roy gat alls ekki borið nafn ömmu fram skammlaust.

Gugga og Roy bjuggu svo til að byrja með í kjallaranum hjá ömmu og afa á Uppsalaveginum. Við bjuggum ofar í götunni þannig að það var stutt að fara og oft skroppið til Guggu ef eitthvað var ekki nógu og skemmtilegt heima.

Ég fékk oft að heyra það sem barn og unglingur að ég væri svo lík Guggu. Á tímabili var ég alveg viss um að hún væri í raun mamma mín. Hún hefði eignast mig svo ung að mamma og pabbi hefðu tekið mig að sér. Ég lagði þó aldrei í að bera upp þessa kenningu mína.

Þegar ég varð unglingur sótti ég mikið í Guggu. Hún var eins konar millistykki milli þess að vera aukamamma og vinkona. Það var hægt ræða ýmsar flækjur unglingsáranna á annan hátt en við mömmu eða pabba eða það ákvað ég að minnsta kosti. Hún fékk því að vita ýmislegt sem enginn annar fullorðinn fékk að vita. Hún hlustaði en predikaði aldrei, þó stundum hefði kannski mátt predika aðeins.

Gugga var hugmyndarík og framkvæmdaglöð. Eitt sumarið þegar ég var að vinna á hótelinu á Húsavík mætti hún einu sinni í lok vaktar á góðviðrisdegi og stakk upp á göngutúr á Húsavíkurfjall. Þegar við vorum rétt lagðar af stað upp brattann fannst Guggu komið nóg af púli. Við settumst niður og Gugga dró upp útskorin kristalsglös og rauðvínsflösku, Chateauneuf-du-Pape, ekkert slor á fjallinu. Það var alltaf eitthvert tvist á hlutunum hjá Guggu.

Það er ekki auðvelt að setja niður á blað, í örfáum orðum, fimmtíu ár af minningum, fimmtíu ár af góðum og skemmtilegum minningum, um grín og glens, um sorg og gleði, um krefjandi verkefni, stuðning og hlýju. En það er verðmætt að eiga allar þessar minningar. Við Gugga hittumst lítið á þessu skrítna ári 2020 en hittumst þó aðeins og það var stutt í grínið og glensið.

Elsku Gugga, ég er glöð að hafa komið og haldið aðeins í höndina á þér einn dagpart nú alveg undir lokin.

Hlýhugur minn er hjá frændsystkinum mínum og fjölskyldum þeirra.

Hjördís.

Þó líf og dauði séu í skilningi skynseminnar eins og svart og hvítt, annaðhvort eða, þá er okkur engu að síður tamt að finnast sumt fólk meira lifandi en annað, lýsa bjartar, brenna skærar. Þess erfiðara að meðtaka þegar slíkt fólk fellur frá, snögglega og að því okkur finnst ótímabært.

Þannig kom Gugga frænka mér fyrir sjónir, frá því ég fyrst man eftir henni og þar til ég heimsótti hana í síðasta sinn á Grundargarðinum í sumar sem leið. Okkur var vel fagnað og móttökur höfðinglegar, eins og mér finnst að þær hafi alltaf verið, allt frá því ég man fyrst eftir mér rölta niður Uppsalaveginn til að taka hús á frænku og hennar fólki. Fá að spila rauðu og bláu Bítlaplöturnar, nú eða Simon og Garfunkel. Alltaf var manni fagnað, og ég held bara öllum sem að garði bar.

Þegar ég hugleiði móðursystur mína og velti við minningabrotum kemur eitt öðru skýrar upp í hugann: Ég hef á tilfinningunni að Gugga hafi haft einstakt lag á að njóta lífsins. Að haga bæði hversdegi og tyllidögum þannig að úr yrði eitthvað einstakt. Að alls staðar væri svigrúm til að bæta við lit, ljóma, ævintýri.

Hún var bæði sæl- og fagurkeri og tók heitu ástfóstri við það sem náði til hennar. Góður matur, gott vín, falleg tónlist, smekklegir innanstokksmunir. England og ensk menning. Nema reyndar Shakespeare – þar þurftum við að hafa samkomulag um að hafa ósamkomulag, sem var auðsótt. Að öðru leyti var Gugga fagurkeri á leiklist, og sjálf ríkulega búin hæfileikum á því sviði, sem Leikfélag Húsavíkur naut um árabil. Ein elsta og kærasta minning mín um Guggu er í hlutverki Sólveigar í Pétri Gaut á móti gestaleikaranum Gunnari Eyjólfssyni. Síðar kom titilhlutverkið í Sölku Völku, sýningu sem ég man í smáatriðum og er mér enn mælikvarði á hvað lukkast í leikhúsinu.

Gugga kunni að njóta lífsins og hún þekkti flestum betur þá list að njóta þess með öðrum, af örlæti í víðasta skilningi þess orðs. Þær eru ófáar sögurnar um dýrðarstundir, skipulagðar eða spunnar af fingrum fram, sem hún skapaði með vinum sínum og öðrum sem á vegi hennar urðu. Það fór ekki fram hjá neinum sem var í kallfæri við Guggu og vinkonur hennar hvað var gaman í því partíi.

Því slegnari vorum við öll þegar fréttist af óvæntum og skyndilegum veikindum þessarar fílhraustu konu á besta aldri, og snarpri leið að endalokunum sem bíða okkar allra. Það var enn margs að njóta í lífi frænku minnar, og hún hefði örugglega haldið áfram að finna það, magna það, gera að sínu og deila með öðrum. Hún talaði stundum um þau áform sín að verða erfitt gamalmenni, og það hefði hún án efa efnt með ófyrirsjáanlegum glæsibrag.

Elsku Kristján, Edda Lóa, ykkar fólk og aðrir í stóra hringnum umhverfis mömmu ykkar. Í dag deilum við bæði sorg og lifandi minningum um hana. Í framhaldinu skulum við svo muna að njóta lífsins í hennar nafni.

Þorgeir Tryggvason.

Gugga mín. Elsku Gugga mín. Það er ekki leiðum að líkjast. Í gegnum árin hefur fólk sem stendur okkur nærri og við þekkjum vel og eins aðrir sem við þekkjum minna, ruglað okkur saman. Eða öllu heldur haldið að ég sé hún. Alltaf hefur okkur þótt þetta jafn fyndið. „Ert þú amma Snorra?“ er spurning sem vinir og kunningjar Snorra, barnabarns Guggu minnar, hafa spurt mig æði oft. Og þegar vinkona Lenu hélt því fram að hún og amma Gugga væru oft samferða í skólann: „Nei, amma Gugga fór ekki í skólann heldur Halla frænka.“ Þetta þykir mér vænt um. Alltaf fór ég yfir til Guggu og lét hana vita af þessu, líka þegar brottfluttir Húsvíkingar fóru að spjalla við mig á Mærudögum, og ég hafði ekki hugmynd um hver eða hverjir þetta voru. Þótt ég hafi gert grín að þessu þar sem Gugga mín var nú töluvert eldri en ég var ég og er stolt af því að vera lík henni.

Hver vill ekki vera eins og Gugga?

Hún var ekki bara móðursystir mín, heldur líka nágranni og ekki síst mjög góð vinkona mín.

Við drukkum saman morgunkaffi allar helgar þegar báðar voru heima, oftar en ekki á náttfötunum. Hversu dýrmætt er að eiga slíkan nágranna, frænku og vinkonu? Svo ekki sé minnst á morgnana sem við fengum okkur „með'ðí“, það þýddi ekki að það væri eitthvað að maula með kaffinu, heldur var það líkjör eða jafnvel koníak. Og það skipti engu máli þó að klukkan væri bara níu að morgni.

Síðasta helgin okkar var þannig, aldeilis „með'ðí“ bæði á laugardeginum og sunnudeginum. Fyrst var það cointreau og svo koníak á sunnudeginum, sem ég reyndar hélt að væri sérrí. Af sinni alkunnu kaldhæðni og húmor sagði frænka með hneykslunartón: Sérrí, Halla Rún?! Nei, þetta er koníak!

Ég held áfram að drekka morgunkaffið, núna ein en með kertaljós og kveikt á lampanum frá Guggu. Og skála svo seinnipartinn.

Skál fyrir þér, elsku frænka.

Halla Rún Tryggvadóttir.