Gerður Jónína Hallgrímsdóttir fæddist í Friðfinnshúsi á Blönduósi 4. apríl 1935. Hún lést á HSN Blönduósi 26. janúar 2021.

Foreldrar hennar voru Hermína Sigvaldadóttir, f. 19.6. 1909, d. 28.6. 1994, og Hallgrímur Sveinn Kristjánsson, f. 25.9. 1901, d. 18.5. 1990. Systkini Gerðar eru Reynir, f. 29.11. 1938, og Ásdís Erna, f. 28.12. 1949. Fósturbróðir hennar er Sigvaldi Hermann Hrafnberg, f. 18.6. 1937, er flutti um tveggja mánaða gamall á heimili hennar að Kringlu.

Fyrri eiginmaður Gerðar var Hilmar Snorrason, f. 9.10. 1923, d. 18.7. 2020. Þeirra sonur er Sigurður Pétur, f. 4.9. 1960. Börn Péturs eru Lýdía, f. 9.1. 1978, Steinunn Lukka, f. 20.9. 1980, og Vilhjálmur Hilmar, f. 28.10. 1986. Seinni eiginmaður Gerðar var Frímann Hilmarsson, f. 26.2. 1939, d. 3.12. 2009, þau skildu.

Gerður bjó fyrstu daga ævi sinnar á Hofi í Vatnsdal en flutti mánaðargömul með fjölskyldu sinni að Kringlu í Torfalækjarhreppi. Hún var í barnaskóla í Torfalækjahreppi er var farskóli að hætti þess tíma, en kennt var í þrjá mánuði hvern vetur. Þá var hún í Kvennaskólanum á Blönduósi veturinn 1954-1955.

Gerður var í hópi þeirra sem endurreistu ungmennafélagið í Torfalækjarhreppi á sínum tíma og söng hún í nokkur ár með kirkjukór Þingeyrakirkju og kirkjukór Blönduósskirkju. Hún tók töluverðan þátt í pólitískum störfum og var í stjórn Jörundar, félags ungra sjálfstæðismanna í Austur-Húnavatnssýslu. Þá var hún varamaður í hreppsnefnd Blönduóshrepps og sat í nefndum á vegum sveitarfélagsins, s.s. barnaverndarnefnd, félagsmálaráði og nefnd fyrir félagsstarf aldraðra. Hún hóf starfsferil sinn á Hótel Blönduósi en vann lengst hjá Kaupfélagi Húnvetninga og starfaði þar í ýmsum deildum, m.a. í Essó, byggingavörudeild, vefnaðarvörudeild en síðustu árin á skrifstofu félagsins.

Hún verður jarðsungin frá Blönduósskirkju í dag, 6. febrúar 2021, klukkan 14. Streymt verður frá útför (stytt slóð):

tinyurl.com/woy6ra3h

Virkan hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Gerður Hallgrímsdóttir var kona sem ég mat mikils og átti góð samskipti við alla tíð. Við áttum sameiginlega gimstein sem er Villi, sonur minn og Péturs sonar hennar. Atvikin höguðu því svo að við Pétur bjuggum ekki saman nema nokkur misseri eftir fæðingu Villa en þrátt fyrir það hafði það aldrei áhrif á samband okkar Gerðar. Hún var tengdamóðir mín, Villi minn átti athvarf hjá henni þegar hann vildi og hún var honum góð amma. Sem ungur drengur dvaldi hann alltaf einhvern tíma hjá ömmu Gerði á sumrin og liðsinnti þá við garðslátt, arfaheinsun eða útburð á Mogganum. Hún var ákaflega stolt af Villa og fylgdist alla tíð vel með því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur.

Í ótal skipti kom ég við hjá henni á ferðum mínum í gegnum Blönduós. Þá var sest við eldhúsborðið þar sem tilraun varð gerð til að leysa lífsgátuna, rætt um menn og málefni og málin krufin. Alltaf heimalagað á borðum og eitthvað til í kistunni. Hún var gestrisin og góð húsmóðir, verklagin og hafði reglu á hlutunum. Hún lét sig velferð fólks varða og sýndi umhyggju sína margoft í verki jafnt vinum sem vandalausum. Oftar en ekki var ungviðið úr nágrenninu í heimsókn hjá henni því börnin hændust að henni og hún lét sér annt um þau. Gerður var vinsæl hjá börnunum vegna þess að hún gaf sér tíma til að tala við þau eins og fullorðið fólk og sýndi áhuga fyrir því sem þau voru að sýsla við. Hún átti líka svo skemmtilegt dót og gjarnan rifjað upp á mínu heimili hvað bílabrautin var skemmtileg. Það var meira en sjálfsagt að fá gistingu ef þörf var á, jafnvel fyrir vini og vandamenn sem voru á ferð í viðsjárverðu veðri, þótt ég væri ekki með í för. Hún vildi alltaf allt fyrir mig og mína gera. Þegar ég tók saman við Tryggva minn og stofnaði aðra fjölskyldu tók hún honum sem einum af sínum nánustu og Finnbogi sonur hans varð í sérstöku uppáhaldi hennar. Skemmtileg er sagan af því þegar Finnbogi var á ferð með mömmu sinni í gegnum Blönduós, líklega 6 eða 7 ára gamall, og harðneitaði að halda áfram för nema koma við hjá ömmu Gerði. Hann rataði heim til hennar og auðvitað gladdi heimsóknin Gerði innilega. Einn af hápunktum minninga með henni er ferð sem ég fór fyrir nokkrum árum með Tryggva, móðursystur hans, syni hennar og fjölskyldu í ferð um Austur-Húnavatnssýslu til að vitja slóða forfeðra þeirra. Það var auðsótt mál hjá Gerði að vera leiðsögumaður okkar og hjá henni á Melabrautinni áttum við bækistöð meðan á ferðinni stóð. Hún þekkti hverja þúfu og hvern hól og sagði okkur sögur frá liðnum tímum. Þetta var með eftirminnilegri ferðalögum enda Gerður afar fróð um nágrenni sitt og sagði skemmtilega frá.

Að leiðarlokum þakka ég fyrir alla hennar gæsku í minn garð og minna og veit að það verður vel tekið á móti henni í Sumarlandinu. Ég sendi Pétri syni hennar, barnabörnum, systkinum og öllum þeim er hennar sakna innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.

Þuríður Vilhjálmsdóttir.

Þakklæti er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég minnist Gerðar.

Þakklæti fyrir alla umhyggjuna fyrir mér og mínum alla tíð. Hún leit alltaf á mig sem fósturdóttur sína og dætur mínar hafa alltaf kallað hana ömmu.

Í gegnum tíðina höfum við brallað ýmislegt saman. Allir bíltúrarnir þegar ég bjó hjá henni á Melabrautinni, ferðalögin, heimsóknirnar á ólíklegustu staði, hláturinn og sögustundirnar.

Gerður var mjög barngóð. Hún hafði einstakt lag á að hæna börn að sér og þau sem leituðu mikið til hennar voru henni alltaf kær.

Eftir að hún missti heilsuna og vistaðist á dvalarheimili þurfti hún meiri aðstoð. Var þá gott að geta hjálpað til með ýmislegt.

Ég vona að ég hafi staðið undir væntingum sem fósturdóttir, allavega stóðst hún væntingar sem amma stelpnanna minna.

Síðustu mánuðir voru erfiðir, bæði vegna covid og hrakandi heilsu. Við vissum báðar í hvað stefndi og reyndum að hringjast á þegar heimsóknir voru mjög takmarkaðar. Báðar vonuðum við að geta upplifað eðlilegt ástand en því miður náðist það ekki. Ég er þakklát fyrir að hafa getað verið hjá henni síðasta daginn og náð að kveðja, það er ómetanlegt.

Að lokum vil ég votta Pétri og fjölskyldu mína dýpstu samúð.

Hrefna Guðmundsdóttir.

Elsku Gerður, það er ótrúlegt að hugsa til þess að þú skulir ekki vera lengur hérna hjá okkur. Þegar þú sagðir fyrir jólin að þú lofaðir að þrauka fram yfir áramótin en þú vissir ekki hversu lengi eftir það, þá vildi ég ekki trúa þér en hefði átt að vita að þegar þú varst búin að ákveða eitthvað þá stóð það, sama hvað aðrir segðu. Eftir sit ég með mikinn tómleika í hjarta mínu og söknuð, því allt var hægt að ræða við þig um. Sama hvort það var um vinnuna, fjölskylduna eða bara ýmislegt sem bar á góma í það og það skiptið. Þú fylgdist vel með öllum í kringum þig og vildir allt vita um unga fólkið, hvað það hafði fyrir stafni, hvort það væri í skóla og þá hvað það var að læra. Þú varst mín stoð og stytta í veikindum foreldra minna og seinna eftir fráfall þeirra en ekki síður í mínum eigin veikindum. Við þig gat ég talað um allt, erfið veikindi og ekki síður alla óvissuna um hvað tæki við að þeim loknum. Þú varst stór hluti af minni fjölskyldu, það var ekki afmæli eða kaffiboð öðruvísi en þú værir með. Ef einhverra hluta vegna þú varst ekki viðstödd þá var ævinlega spurt: Hvar er Gerður? Aldrei mun ég geta fullþakkað þér fyrir það hvað þú varst góð við hann Björn minn og Kristin vin hans. Ævinlega gat hann leitað til þín þegar honum fannst ekki gaman heima, eitthvað vont í matinn eða mátti ekki gera það sem hann vildi. Þá læddist hann iðulega í næsta hús til hennar „Gerru ömmu“ eins og þú varst iðulega kölluð. Svo var ávallt viðkvæðið ef þetta þótti ekki nógu gott: „Gerra amma sagði að það væri í lagi“ og þá var það þannig og ekkert meira um það rætt. Enda kallaðir þú þá „húskarlana þína“. Gaman var að fylgjast með því hvernig þessi einstæða vinátta óx og dafnaði milli þín og þeirra með árunum. Mikill er missir þessara drengja og sár söknuður eins og margra annarra sem þekktu þig og þína einstöku manngæsku. Hvíl í friði elsku Gerður mín og hafðu þökk fyrir að auðga líf mitt og minnar fjölskyldu í gegnum árin.

Svala Runólfsdóttir.