Það var ekki óhætt að aka yfir brúna yfir Jökulsá á Fjöllum nema í björtu, eftir að krapaflóðið fraus þar. Þetta hefur verið kaldur vetur og snjóþungur nyrðra, en sá snjóléttasti í bænum í 100 ár. Ekki er hann þó úti enn og það getur allt breyst.
Það var ekki óhætt að aka yfir brúna yfir Jökulsá á Fjöllum nema í björtu, eftir að krapaflóðið fraus þar. Þetta hefur verið kaldur vetur og snjóþungur nyrðra, en sá snjóléttasti í bænum í 100 ár. Ekki er hann þó úti enn og það getur allt breyst. — Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þrátt fyrir að undurvel hafi gengið að hemja veiruna greindi Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra frá því að tilslakanir á sóttvarnareglum hefðu ekkert verið ræddar.

Þrátt fyrir að undurvel hafi gengið að hemja veiruna greindi Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra frá því að tilslakanir á sóttvarnareglum hefðu ekkert verið ræddar. Hins vegar væri fyrir höndum skemmtilegur fundur með sóttvarnalækni um litasjatteringar.

Ekki skortir skoðanir á frumvarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar , umhverfis- og auðlindaráðherra, um hálendisþjóðgarð, en borist hafa á sjötta tug umsagna. Athygli vekur hve margar þeirra eru neikvæðar miðað við hve hugmyndin um hálendisþjóðgarð naut víðtæks stuðnings. Í þinginu er farið að ræða um að taka rammaáætlun fyrir fyrst, hún sé auðveldari.

Lögregla handtók tvo menn vegna skotárásar á bíl borgarstjóra, sem uppgötvaðist um síðir í fyrri viku. Annar var látinn laus eftir yfirheyrslu en hinn hnepptur í gæsluvarðhald. Það var síðar framlengt og maðurinn nafngreindur í fjölmiðlum, en hann hefur áður borist í fréttir vegna sakamála og uppreistrar æru, sem m.a. vöktu athygli fyrir það að hann var eitt sinn lögregluþjónn.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu kvarta undan yfirburðum Icelandair í rekstri ferðaskrifstofu til hliðar við flugreksturinn. Samkeppniseftirlitið segist gefa því gætur og hefur lagt áherslu á að ríkisstyrkur til flugrekstrar félagsins fari ekki í neitt annað.

Atvinnuástand á Suðurnesjum er enn erfitt, en þar er nú helmingur félagsmanna í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur atvinnulaus.

·

Vatnshæð í Jökulsá á Fjöllum sveiflaðist til, en hún rennur undir gaddfreðnum krapa og íshröngli frá krapaflóðinu í liðnum mánuði. Stutt er undir brúargólfið í miðjunni og umferð því aðeins leyfð í birtu.

Ójafnvægi á markaði fyrir svínakjöt hefur leitt til þess að verð til bænda lækkaði um 11% í haust, en verðið á því út úr búð hefur hækkað í takt við aðrar verðbreytingar. Skal enn á það minnt að allt er betra með beikoni.

Að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra er stefnt að útboði í Íslandsbanka snemmsumars, en hann vonast til þess að fá a.m.k. 119 milljarða króna fyrir hann, sem þá ætti að hrökkva fyrir fjárfestingunni til að örva efnahagslíf í heimsfaraldrinum.

Stór hluti innflytjenda á Íslandi er menntaður langt umfram það sem störf þeirra krefjast. Um 40% hafa háskólanám að baki, en hafa ekki fundið störf við hæfi.

Þær fréttir bárust frá Svíþjóð að Björn Zoëga , læknir og forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi, hefði snúið rekstri þess úr tapi í hagnað, en auk þess fengið meiri fjárframlög vegna aukinnar framleiðni. Árangurinn hefur vakið athygli og hafa stjórnendur stórspítala í öðrum löndum kynnt sér aðferðirnar. Ekki þó frá Íslandi, enda hefur enginn neitt að kenna þeim.

Heilbrigðisráðuneytið hafnaði því enn að upplýsa um bóluefnasamninga sína við framleiðendur og bar við trúnaði líkt og ætti við um alla samninga samkvæmt Evrópusamvinnu við öflun bóluefnis. Vikunni áður höfðu bæði AstraZeneca og ESB greint frá efni samnings síns.

Um 5-7 þúsund manns eru talin búa í óleyfisíbúðum . Húsnæðisekla á höfuðborgarsvæðinu og hátt leiguverð á almennum markaði er talin helsta skýringin.

·

Framtíðarmöguleikar eru taldir í skráningu erlendra loftfara hér á landi, sem aldrei munu þó til landsins koma. Kostnaðurinn fer eftir vigt, en svo kann að bætast við kostnaður vegna ferða eftirlitsmanna á 5 stjörnu hótel í framandi löndum. Panama norðursins!

Sjúkratryggingar Íslands leita nú einhverra til þess að reka hjúkrunarheimili í Vestmannaeyjum, Fjarðabyggð og á Akureyri. Sveitarfélögin þar eru búin að gefast upp á hallarekstri sínum og ætla að láta núverandi samninga renna út án endurnýjunar.

Innflutningur á gerviosti minnkaði mikið á liðnu ári en hins vegar var talsvert meira flutt inn af mjólkurosti. Innlend framleiðsla hefur nú 89% markaðshlutdeild.

Þórólfur Guðnason , hinn hressi sóttvarnalæknir, sló á orðróm um að tilraunaverkefni með Pfizer um bólusetningu þorra þjóðarinnar væri við það að verða að veruleika.

Íslendingar vilja leggja sitt af mörkum til heimsminjaskrár Unesco og ræða einkum um íslenska torfhleðslu í því samhengi. Sem segir sitt.

Tíðni öndunarfærasýkinga á liðnu ári var meira en þriðjungi minni en raunin hefur verið undanfarin ár. Ástæðan er talin færri smit vegna aukinnar aðgæslu í heimsfaraldrinum. Sýklalyfjanotkun hefur einnig minnkað mjög verulega.

·

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) telja Póstinn brjóta samkeppnislög með niðurgreiðslu sendingarkostnaðar, sem grafi undan samkeppni. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sagðist ætla að skoða málið. Spennan eykst.

Dani játaði að hafa orðið íslenskri konu á Jótlandi, Freyju Egilsdóttur Mogensen , að bana, en hann er fyrrverandi sambýlismaður hennar og hefur áður banað sambýliskonu. Freyja var 43 ára og lætur eftir sig tvö ung börn.

Áratugalöng deila um Sundabraut kann senn að vera á enda, en sérfræðingar og hagsmunaaðilar í starfshópi samgönguráðherra um hana voru sammála um að 30 m há hábrú yfir Kleppsvík væri málið.

Sú niðurstaða hafði varla verið kynnt þegar Birkir Guðnason , forstjóri Samskipa, sagði lítið samráð hafa verið um hvaða leið yrði fyrir valinu. Hann segir brúna myndu hafa mikil áhrif á starfsemi félagsins.

Norður á Akureyri stendur til að endurbæta lengsta stiga landsins, kirkjutröppurnar, enda er snjóbræðslukerfið í þeim ónýtt.

Upplýst var að fréttir af lækkandi spillingarvísitölu Íslands, sem er samantekin af gögnum nokkurra rannsókna, væru mikið á misskilningi byggðar, ekki væri tölfræðilegur munur milli ára. Hins vegar mætti rekja lækkandi vísitölu undanfarinna ára til aðeins einnar rannsóknar, sem aukinheldur hefði aðeins tvo heimildarmenn. Sífellt hefur sigið meira í annan þeirra undanfarin ár vegna þess að hann týndi nýju stjórnarskránni.

Janúarmánuður reyndist vera sá kaldasti það sem af er öldinni. Mikil snjóþyngsli hafa verið norðanlands, en um leið snjóléttasti vetur í Reykjavík í 100 ár. Trausti Jónsson veðurfræðingur minnti þó á að nóg væri eftir af vetri enn.

·

Breytingum á brjóstaskimun var mótmælt með 37 þúsund undirskriftum, sem afhentar voru heilbrigðisráðuneytinu.

Heldur hefur hýrnað yfir loðnusjómönnum eftir að Hafrannsóknastofnunin tvöfaldaði fyrri veiðiráðgjöf eftir loðnuleit og mælingu. Stefnir nú í 17,5 milljarða króna loðnuvertíð . Sömuleiðis hefur verið bitist um landanir norskra loðnuskipa, en loðna er nú unnin á Íslandi í fyrsta sinn í þrjú ár.

Loks kom fram frumvarp um breytingar á áfengislögum, sem gerir ráð fyrir að leyfa handverksbruggurum að selja öl á framleiðslustað, en brugghúsin hafa verið vinsæll áfangastaður ferðamanna. Hins vegar var fallið frá því að leyfa innlendum netverslunum smásölu á áfengi, svo menn verða áfram að fá sprúttið heimsent frá útlöndum.

Minna virðist vera að gera á Alþingi en oft áður, en þar liggja menn yfir lagasafninu og leita laga til þess að grisja burt.

Sóttvarnalæknir sendi tillögur um slakanir á sóttvarnareglum til heilbrigðisráðherra, en þær þóttu til þess að gera slakar og lítt slakandi.

Sagt var frá því í fréttum að biðlistar héldu áfram að lengjast og óvissan alger. Þar var þó ekki um að ræða opinbera þjónustu, heldur leikjatölvuna Playstation 5.

Hins vegar var óvissu um varnarviðbúnað Íslands eytt þegar utanríkisráðherra upplýsti að tveir hermenn væru með fasta viðveru í landinu, annar bandarískur og hinn norskur. Þeir hittast lítið.