Einar Benediktsson
Einar Benediktsson
Eftir Einar Benediktsson: "Evrópusambandið er ekki við eigin sögulok. Síður en svo."

Ef dæma má af leiðaraskrifum Morgunblaðsins eru Evrópusambandinu almennt mislagðar hendur og nú einkum á dreifingu bóluefnis gegn Covid-19-faraldrinum, sem enn er skortur á. Þá á það væntanlega ekki síður við allt það mikla regluverk sem tryggir frjálsan innri markað ESB og þar með í EES og er að verulegu leyti grunnur þátttöku Íslands í alþjóðlegu viðskipta- og efnahagslegu samstarfi.

Því hefur hingað til verið tekið sem óhrekjanlegri staðreynd að það hafi ekki hvað síst verið einörð barátta okkar sem gerði að 200 mílna fiskveiðilögsaga var viðurkennd sem alþjóðaréttur. Með aðild Íslands að EFTA og EES lögðum við okkar lóð á vogarskálarnar til að viðskiptafrelsi fyrir útflutningsvörur okkar næðist. Og erum við ekki einir við gjörvallt Atlanshaf að marka sjálfbæra stefnu í fiskveiðum með að viðhafa aflahámark og fisveiðiheimildir?

Annars vegar eru ákvarðanir annarra ríkja til samstarfs vegna eigin hagsmuna og hins vegar afstaða þeirra til þátttöku Íslands í því samstarfi. Það var síður að vilja annarra að föst, samningsbundin fríverslun er um sjávarafurðir í Evrópu, rétt eins og 200 mílurnar eru alþjóðalög, oft kennd við Íslendinga.Vissulega sló þar í hart þótt „bræði“ eða „hnefaréttur“ séu fremur spaugileg lýsing á því sem Bretar hafa fremur tilhneigingu til að líta á sem niðurlægingu.

En Evrópusambandið er ekki við eigin sögulok. Síður en svo. En það ríkir óvissa á alþjóðasviðinu og tilefni til að athuga nánar okkar tengsl við Evrópusambandið og þá sérstaklega myntina.

Höfundur er fv. sendiherra.

Höf.: Einar Benediktsson