Frákast Björgvin Hafþór Ríkharðsson og Benoný S. Sigurðsson eigast við.
Frákast Björgvin Hafþór Ríkharðsson og Benoný S. Sigurðsson eigast við. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfuboltinn Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Keflavík er með tveggja stiga forskot á toppi Dominos-deildar karla í körfubolta eftir 98:74-sigur á KR á útivelli í gærkvöldi.

Körfuboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Keflavík er með tveggja stiga forskot á toppi Dominos-deildar karla í körfubolta eftir 98:74-sigur á KR á útivelli í gærkvöldi. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en KR réð ekkert við sterka vörn Keflvíkinga í seinni hálfleik og var sigurinn að lokum öruggur. Keflavík hefur leikið afar vel á þessari leiktíð, fyrir utan toppslaginn gegn Stjörnunni í síðasta mánuði þar sem liðið fékk stóran skell. Það er mikið styrkleikamerki að svara 40 stiga tapi í stórleik með því að vinna tvö sterk lið en Keflavík vann ÍR í síðustu umferð.

Dominykas Milka er engum líkur en hann virkaði þreytulegur inni á vellinum. Þrátt fyrir það skoraði hann 22 stig og tók 19 fráköst. Þá stýrði Hörður Axel Vilhjálmsson sóknarleik Keflavíkur glæsilega, en hann gaf 10 stoðsendingar og skoraði auk þess 13 stig. Hörður minnti á hvers vegna hann er fastamaður í íslenska landsliðinu. Ljóst er að Keflavík þyrstir í fyrsta Íslandsmeistaratitilinn frá árinu 2008.

ÍR vann slappa Grindvíkinga

Í Breiðholtinu hafði ÍR betur gegn Grindavík, 98:76. Eru liðin nú bæði með tíu stig, eins og Þór frá Þorlákshöfn, í 3.-5. sæti deildarinnar. Eftir flotta byrjun hefur Grindavík tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum á meðan ÍR hefur unnið þrjá af síðustu fimm. Everage Richardson átti sterkan leik fyrir ÍR og skoraði 23 stig, tók ellefu fráköst og gaf átta stoðsendingar og var með 36 framlagspunkta. Richardson er á sínu fyrsta tímabili í efstu deild eftir þrjú tímabil í 1. deild, fyrst með Gnúpverjum og síðan Hamri. Borche Ilievski á hrós skilið fyrir að mæta ávallt til leiks með sterkt lið hjá ÍR þrátt fyrir að liðið missi lykilmenn. Hann er góður í að finna réttu leikmennina og er Richardson gott dæmi um það. Ljóst er að ÍR getur blandað sér í baráttuna við efstu liðin í vetur. Eftir glæsilegan sigur á Stjörnunni í síðasta leik var leikurinn í gær skref aftur á bak fyrir Grindavík, sem er í lægð eftir góða byrjun.