Anna María Haraldsdóttir var fædd á Seyðisfirði 18. september 1933. Hún lést 27. janúar 2021 á hjúkrunarheimilinu Fossahlíð á Seyðisfirði.

Foreldrar hennar voru Haraldur Guðmundsson, f. 1876, d. 1958 og María Þórðardóttir, f. 1891, d. 1975. Systkini Önnu Maríu samfeðra voru Halldóra Brynhildur, f. 1899, d. 1969, Sigríður Ragnhildur, f. 1900, d. 1990. Guðmundur, f. 1905, d. 1924.

Anna María giftist 19. október 1957 Sigurði Stefáni Friðrikssyni, f. 29. mars 1932. Sigurður lést 2014.

Börn þeirra: 1) María S. Sigurðardóttir, f. 1958, maki: Þráinn E. Gíslason, f. 1956, þau eiga 4 börn og 6 barnabörn. 2) Haraldur Sigurðsson, f. 1959, maki: Maria Cecilia, f. 1973, þau eiga 2 syni. Haraldur á 3 syni úr fyrri samböndum og 4 barnabörn. 3) Unnar Sigurðsson, f. 1960, maki: Adela, f. 1982. Þau eiga 3 börn.

4) Ingibjörg Sigurðardóttir, f. 1962, maki: Trausti Marteinsson, f. 1956. Þau eiga 3 börn og 6 barnabörn. 5) Björg, f. 1965, d. 2013, dætur hennar eru 2, eftirlifandi maki Þorsteinn Guðmundsson, f. 1959.

Anna María lauk gagnfræðaprófi frá Seyðisfjarðarskóla, síðar námi frá Húsmæðraskólanum á Varmalandi.

Anna María vann í fiski og við verslunarstörf hjá KHB í mörg ár. Auk þess var hún formaður Slysavarnadeildarinnar Ránar á Seyðisfirði og var þar heiðursfélagi. Síðustu 8 ár dvaldi hún á hjúkrunarheimilinu Fossahlíð á Seyðisfirði.

Útförin fer fram frá Seyðisfjarðarkirkju 6. febrúar 2021 kl. 11.

Streymt verður af slóðinni: https://youtu.be/0b0W_GLongs

Virkan hlekk á slóð má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku mamma mín, síðustu sjö frá því að pabbi kvaddi hafa verið erfið. Ljósið í augum þínum slokknaði hægt og hægt og í raun hefur þú horfið frá okkur. Mamma mín, ég er sorgmædd en þakklát, þú hefur fengið hvíldina.

Elsku móðir mín kær,

ætíð varst þú mér nær,

ég sakna þín, góða mamma mín.

Já, mild var þín hönd

er um vanga þú straukst,

ef eitthvað mér bjátaði á.

Við minningu um þig geymum

og aldrei við gleymum,

hve trygg varst þú okkur og góð.

Við kveðjum þig, mamma,

og geymum í ramma

í hjarta okkar minningu um þig.

(Gylfi V. Óskarsson)

Þín

Ingibjörg (Inga).

Við andlát Önnu Maríu streyma minningar frá æskuárunum á Seyðisfirði fram í hugann. Ég var nýorðin þriggja ára þegar við fluttum í Framnes og fljótlega fór ég að kanna nánasta umhverfi, trítlaði yfir að næsta húsi og fékk mér göngutúr á tröppunum. Þá opnuðust dyrnar og mér var boðið inn, boðinu fylgdi mjólkurglas, kökusneið og hásæti í horni við eldhúsbekkinn. Það var notalegt í eldhúsinu hjá Maríu, kolavélin gaf ylinn og ég skynjaði vinarþelið og umhyggjuna. Þessi heimsókn var upphafið að ævivináttu fjölskyldnanna í Framnesi og Tanga, þeirra Maríu, Haraldar og dóttur þeirra Önnu Maríu. Hún var níu árum eldri en ég, glögg og úrræðagóð og alla tíð vel læs á umhverfi og aðstæður, fyrirmynd sem ég leit upp til. Það var enginn svikinn af vináttu við fókið í Tanga og eftir því sem mér óx vit og þroski urðu mér ljósari verðmæti þeirra gilda sem voru í hávegum höfð á heimilinu, trúmennsku, vandvirkni, vinnusemi, tryggðar og hlýju. Úr þessum jarðvegi var Anna María sprotin og yfir öllum þessum eiginleikum bjó hún og skilaði áfram til afkomenda sinna. Strax frá unga aldri var hún mjög myndvirk og lagin við allt sem hún tók sér fyrir hendur og margt mátti af henni læra. Hún kenndi mér að gera við hjólið mitt og mér lærðist fljótt að þar dugði hvorki fúsk né flýtir. Anna María var góður leiðbeinandi og gaf engan afslátt af vandvirkninni.

Á unglingsárunum og síðar á ævinni vann hún við verslunarstörf. Hún stundaði nám í Húsmæðraskólanum á Varmalandi í Borgarfirði og fljótlega eftir það kom öðlingurinn Sigurður Friðriksson inn í líf hennar. Þau giftust og börnin komu, eitt af öðru, á fáum árum. Siggi stundaði sjóinn, var fyrstu árin á vertíð fyrir sunnan og síðan á togurunum heima. Á þessum árum voru sjómenn dæmdir til langrar fjarveru frá heimilum sínum. Það hvíldu því mörg störf á sjómannskonunni og Anna María skilaði því hlutverki með sóma. Hún saumaði og prjónaði á hópinn sinn, dyttaði að og gerði við flest sem bilaði. Stundum vantaði varahluti í alls konar tæki, jafnvel í bílinn. Þá hringdi hún suður, talaði við karla á verkstæðum og lagerum, þuldi upp númer á varahlutum og talaði svo faglega að undrun sætti. Ég varð oft vitni að símtölunum, því að í Tanga var enginn sími, hún hringdi því heiman frá okkur og henni lá ekki lágt rómur, allra síst þegar hún talaði suður til Reykjavíkur.

Enda þótt ég flytti alfarin suður héldum við áfram að hittast, hýsa fjölskyldur hvor annarrar og eiga saman dýrmætar og gefandi stundir.

Anna María var skýr og skörp alla tíð uns erfiður sjúkdómur herjaði á hana og hún hvarf okkur smátt og smátt. Síðast þegar við heimsóttum hana vorum við búin undir að hún þekkti okkur ekki en þegar hún hafði áttað sig örlitla stund breiddi hún út faðminn, brosti og nefndi nöfnin okkar. Falleg stund sem ég geymi og þakka.

Að leiðarlokum þökkum við ómetanlega vináttu og tryggð. Við Helgi og fólkið okkar sendum börnum hennar og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.

Margrét Erlendsdóttir (Maggý).