Heitstrengingar íslenskra þingmanna úr öllum flokkum um að treysta sambandið við Bandaríkin hafa sjaldan verið jafn samhljóma.

Við stjórnarskiptin í Bandaríkjunum láta sérfræðingar á öllum sviðum ljós sitt skína og veita nýjum valdhöfum góð ráð. Í þeim hópi er Heather A. Conley sem fer meðal annars með norðurslóðamál í áhrifamiklu hugveitunni Center for Strategic and International Studies.

Hún hvatti til þess á vefsíðunni ArcticToday 1. febrúar að Antony Blinken, nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna, staðfesti við íslensk stjórnvöld, sem nú fara með formennsku í Norðurskautsráðinu, að hann ætlaði að sækja ráðherrafund ráðsins hér á landi í maí og hefði einnig John Kerry, fyrrverandi utanríkisráðherra, núverandi sérlegan loftslagsfulltrúa Bidens, með sér. Þá ætti bandaríska utanríkisráðuneytið að hvetja til þess að Íslendingar byðu utanríkisráðherrum norðurskautslandanna átta til óformlegs fundar utan ramma Norðurskautsráðsins til að ræða geópólitísk viðfangsefni og þróun öryggismála á norðurslóðum.

Minnti Conley á að á óformlegum fundi fyrir utanríkisráðherrafund ráðsins fyrir tveimur árum í Rovaniemi í Finnlandi hefði Mike Pompeo, þáv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, valdið nokkru uppnámi með harðorðum ummælum um hernaðarumsvif Rússa og kröfur Kínverja um að fá að gera sig gildandi á norðurslóðum sem nágrannaþjóð þeirra. Vill Conley að Blinken og Kerry vindi ofan af orðum Pompeos og tali við norðurskautsríkin af meiri vinsemd og samstarfsvilja einkum í loftslagsmálum.

Hvort farið verði að þessari tillögu vegna norðurskautsfundarins í Reykjavík í maí eða hvort almennt verður unnt að halda hann vegna COVID-19 kemur í ljós. Hitt er þó ljóst eftir sérstaka umræðu um „samskipti Íslands og Bandaríkjanna eftir valdaskiptin 20. janúar sl.“ á alþingi fimmtudaginn 4. febrúar að kæmi fram bandarísk ósk í þá veru sem að ofan er lýst yrði henni vel tekið af ríkisstjórn Íslands og jákvæð viðbrögð við henni nytu stuðnings þingmanna allra flokka.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, nýorðin þingmaður Samfylkingarinnar, bað um þessa sérstöku umræðu. Að nokkru virðist ósk hennar sprottin af innri þörf fyrir að fara niðrandi orðum um Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Rósa Björk taldi augljósan áhuga Trumps á norðurslóðum hafa verið „drifinn áfram af karllægum yfirgangi og gamaldags valdabrölti frekar en einlægum áhuga á því að tryggja góð og friðsamleg samskipti“.

Nú væri nýr tími kominn og lag til „að skerpa á sambandi okkar Íslendinga við ný bandarísk stjórnvöld sem eru með allt aðra sýn en þau fyrri; leggja það niður fyrir okkur hvað það er sem við sem fullvalda sjálfstætt ríki viljum leggja áherslu á við ríkisstjórn Bidens forseta og í samskiptum okkar við Bandaríkin með nýjum forseta með allt aðrar áherslur en sá fyrri,“ sagði Rósa Björk.

Í stuttu máli birtist þessi jákvæða afstaða til Bandaríkjanna í ræðum þingmanna sem tóku þátt í umræðunum.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði:

„Hvað mig varðar þá staldra ég ekki síst við þá staðreynd að undanfarnar vikur hafa sýnt hversu sterk lýðræðishefðin er í Bandaríkjunum þegar til kastanna kemur. Það sem við okkur blasir er að lýðræðisstofnanir og stjórnskipulag stóðust þau álagspróf sem segja má að framganga fyrrverandi forseta hafi leyst úr læðingi. Þessu fagna auðvitað allir sannir vinir Bandaríkjanna, ekki síst þessi eiginleiki bandarísks samfélags gerir það að verkum að við Íslendingar höfum litið á Bandaríkin sem vinaþjóð okkar og bandamenn á vettvangi alþjóða- og öryggismála.“

Utanríkisráðherra sagði okkur líta til Bandaríkjanna sem „öflugasta lýðræðisríkis heims“ og það væri mikilvægt að Bandaríkin yrðu áfram í forystu á vettvangi alþjóðamála. Fyrir okkur og önnur lýðræðisríki skipti verulegu máli að Bandaríkin væru virkir þátttakendur í fjölþjóðasamstarfi, ekki síst núna þegar grafið væri undan ýmsum réttindum og gildum sem við teldum svo mikilvæg.

Sama dag og þingmenn staðfestu vináttu Íslands og Bandaríkjanna hélt Joe Biden forseti fyrstu stefnuræðu sína um utanríkismál og sagði: „Boðskapur minn til heimsins í dag er: Bandaríkin eru komin aftur.“ Hann sagðist hafa rætt við leiðtoga Bretlands, Þýskalands, Frakklands og NATO um að styrkja að nýju stoðir lýðræðislegra bandalaga sem hefðu veikst undanfarin ár vegna hirðuleysis og þess sem hann kallaði „misþyrmingu“.

Slagorðið sem Biden notaði America is back boðar annað en slagorð Donalds Trumps America first sem margir töldu endurspegla kulda í garð bandamanna og samstarfsríkja Bandaríkjamanna. Joe Biden er afdráttarlausari í gagnrýni sinni á Vladimir Pútin og stjórn hans en Trump var.

Heitstrengingar íslenskra þingmanna úr öllum flokkum um að treysta sambandið við Bandaríkin hafa sjaldan verið jafn samhljóma og í umræðunum á þingi fimmtudaginn 4. febrúar 2021.

Í stjórnartíð Donalds Trumps skipuðu íslensk stjórnvöld sér í sveit með ríkisstjórnum annars staðar á Norðurlöndunum þegar þær styrktu þá allar tengsl sín við Bandaríkin í öryggis- og varnarmálum. Norrænar ríkisstjórnir fylgja jafnframt allar hernaðarlegri lágspennustefnu á norðurslóðum.

Stórveldakapphlaupið í norðri er staðreynd og einnig hitt að Norðurskautsráðið fjallar ekki um varnarmál. Til þess vísar Heather A. Conley sem vitnað var til í upphafi þegar hún hvetur til fundar utan ráðsins um öryggismálin á fundi í Reykjavík í maí áður en Íslendingar afhenda Rússum formennsku í Norðurskautsráðinu. Tillögunni er beint til nýs utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hún á ekki síður erindi til íslenskra og norrænna stjórnvalda.

Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is

Höf.: Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is