Rúnar Karl Jónsson fæddist 22. apríl árið 1962 á Breiðabólsstað í Miðdalahreppi. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Brákarhlíð Borgarnesi 26. janúar 2021. Faðir hans var Jón Svanberg Karlsson, f. 11. júní 1931 á Fitjum í Staðardal, Staðarsókn á Ströndum, d. 3. október 2002 í Reykjavík. Móðir hans er Kristín Guðmundsdóttir, f. 8. mars 1941 í Dalasýslu, hennar sambýlismaður er Örn Reykdal Ingólfsson, f. 16. ágúst 1937. Bræður Rúnars eru Guðmundur Jónsson, f. 16. september 1963, Agnar Jónsson, f. 30. júní 1966, eiginkona hans er Sigríður Pála Konráðsdóttir, f. 12. janúar 1967. Agnar eignaðist þrjár dætur úr fyrri hjónaböndum og eru þær Anna Kristín, f. 24. júní 1993, Harpa Hrönn, f. 14. júlí 1996, Aníta Arna, f. 4. ágúst 2001, d. 7. ágúst 2001.Barnabörn Agnars eru Agnar Bragi, f. 14. febrúar 2016, og Sóley Arna, f. 28. ágúst 2018. Þriðji bróðir Rúnars er Kjartan Jónsson, f. 20. mars 1974, eiginkona hans er Ragnhildur Ösp Sigurðardóttir, f. 6. febrúar 1972, börn þeirra eru Anton Hugi, f. 30. desember 1999, Aníta Eik, f. 12. maí 2004, og Viktor Nökkvi, f. 10. mars 2008. Einnig átti Rúnar systur sem var f. 6. maí 1972, d. 7. maí 1972.

Eiginkona Rúnars er Kristín Erla Guðmundsdóttir, f. 30. september 1967 í Reykjavík, og eiga þau saman þrjú börn. Svanberg Már, vélvirki, f. 29. júní 1986, sambýliskona hans er Vigdís Ósk Viggósdóttir, sjúkraliði f. 13. mars 1989, eiga þau saman þrjá syni: Rúnar Daða, f. 23. september 2011, og tvíburana Heimi Má og Hafstein Inga, f. 21. ágúst 2013. Dóttir Rúnars Karls og Kristínar Erlu er Erla Rún, leikskólakennari, f. 26. ágúst 1991, sambýlismaður hennar er Adam Orri Vilhjálmsson, húsasmiður, f. 17. apríl 1989, eiga þau saman tvö börn, sem heita Fríða Kristín, f. 13. maí 2016, og Elís Karl, f. 15. október 2018. Yngstur er Kristinn Freyr, f. 8. júní 1996, sambýliskona hans er Steinunn Þorvaldsdóttir, háskólanemi, f. 25. júlí 1994.

Rúnar ólst upp á Breiðabólsstað í Miðdalahreppi og var í grunnskóla á Laugum í Sælingsdal. Eftir grunnskóla lá leið hans í fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, hann færði sig síðan yfir í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Keflavík og kláraði þar rafvirkjun árið 1985. Hann fór aftur í nám og útskrifaðist með meistarapróf í rafvirkjun árið 2009, starfaði alla sína tíð sem rafvirki við fjölbreytt verkefni.

Þegar Rúnar var 22 ára að aldri kynntist hann eiginkonu sinni Kristínu Erlu sem var þá 17 ára gömul. Þau byrjuðu sinn búskap í Keflavík, fluttu síðan heim í Búðardal, þar bjuggu þau í 5 ár, fluttu þá í Borgarnes þar sem að þau bjuggu saman alla þeirra tíð, þau giftu sig 11. júní 2009.

Rúnar stundaði hestamennsku alla sína tíð og hafði mikinn áhuga á hrossarækt. Hann var virkur félagsmaður í hestamannafélaginu Glað á meðan hann bjó vestur í Dölum, eftir að hann fluttist í Borgarfjörðinn var hann virkur félagsmaður í hestamannafélaginu Skugga og starfaði þar öll þau ár sem hann var í félaginu. Hann hafði mikinn áhuga á öllum íþróttum, á meðan hann var búsettur vestur í Dölum starfaði hann í Ungmennafélagi Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga meðal annars sem formaður félagsins. Rúnar var einnig trúnaðarmaður hjá Rafiðnaðarsambandinu.

Útför hans mun fara fram í Kvennabrekkukirkju í Dölum 6. febrúar klukkan 14. Vegna fjöldatakmarkana verða eingöngu nánustu aðstandendur og vinir viðstaddir útförina en athöfninni verður streymt á kvikborg.is.

Stytt slóð á streymi:

tinyurl.com/iiefgxhv

Virkan hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Að ég sitji hér og skrifi minningargrein um vin okkar Rúnar Karl Jónsson er fyrir mér frekar óraunverulegt. Fyrir örfáum árum vorum við í fullu fjöri og enginn hafði neitt annað í huga.

Við Rúnar kynntumst á fyrstu árum Rúnars og Diddu í Borgarnesi. Það var hestamennska sem varð til þess að við fórum að spjalla saman. Hryssan Von frá Breiðbólstað átti hug hans allan á þeim tíma og var hún sýnd í kynbótadómi um vorið og nú skyldi ræktað.

Hestamennska var hans helsta áhugamál og reið Rúnar út af krafti. Landsmótsferðir voru margar. Setið og pælt í framtíðarstóðhestsefnum. Hlýjar minningar eigum við um þær ferðir.

Rúnar hafði gaman af söng og var virkur í karlakórnum Söngbræðrum til margra ára.

Í hestaferðum var hann fremstur í flokki á jörpum gæðingum, samanber Gosa og Eld hinn rauða. Kraftur og áframhald einkenndi Rúnar í að ég held öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Ég held að hann hafi vitað að hann þyrfti að klára margt á styttri tíma en margur annar.

Ferðafélagið Í hófi var hestaferðafélag sem Rúnar var meðlimur í ásamt góðu fólki. Þar var sungið, þar var hlegið, farnar hóflega langar dagleiðir með löngum stoppum og ánægjulegum kvöldum. Þar naut Rúnar sín vel og við hin nutum félagsskapar hans en hann var hrókur alls fagnaðar. En einmitt þegar við héldum að allt yrði eins og áður og þannig yrði það fór heilsu Rúnars að hraka. Já, enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Við hin sitjum eftir og verðum að halda áfram. Eða eins og Rúnar hefði gert; horfa fram á veginn.

Hans verður sárt saknað.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku Didda fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Ásberg og Sigríður Jóna, Hraunholtum.