Landsréttur hefur snúið við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og sýknað karlmann af ákæru um að hafa kýlt dóttur sína í andlitið, ýtt henni í gólfið og upp við vegg með þeim afleiðingum að hún nefbrotnaði.

Landsréttur hefur snúið við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og sýknað karlmann af ákæru um að hafa kýlt dóttur sína í andlitið, ýtt henni í gólfið og upp við vegg með þeim afleiðingum að hún nefbrotnaði. Einkaréttarkröfu dótturinnar um að hann greiddi henni 2,5 milljónir króna í miskabætur var vísað frá dómi.

Í dómi Landsréttar kemur fram að dóttirin hafi verið eina vitnið sem hafi beinlínis borið um að faðir hennar hefði ráðist á hana og valdið áverkunum sem ákært var fyrir. Maðurinn hafi alfarið neitað sök og framburður hans því verið stöðugur og í samræmi við skýringarnar sem dóttirin hafði upphaflega gefið um orsakir áverkanna.

Hún hafi upphaflega lýst því fyrir öðrum vitnum í héraði að hún hefði hlotið áverkana vegna falls í stiga en gefið þá skýringu að hún hefði gert það að áeggjan móður sinnar og að hún væri vön að segja ósatt um ofbeldi sem hún hefði sætt frá unga aldri.

Þrátt fyrir þessa skýringu var að mati Landsréttar ekki fram hjá því litið að framburður hennar hafi ekki verið stöðugur um það hvernig hún hlaut áverkana. Systur hennar skoruðust undan því að gefa skýrslu fyrir dómi og því var ekki hægt að spyrja þær út í framburð þeirra hjá lögreglu og atvik málsins. Ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna að maðurinn hafi gerst sekur um líkamsárásina. Í héraðsdómi hlaut maðurinn fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm og var dæmdur til að greiða dóttur sinni 400 þúsund krónur í miskabætur.