Streymisveita Viaplay sendir þegar út leiki í efstu deildum fjölda þjóða.
Streymisveita Viaplay sendir þegar út leiki í efstu deildum fjölda þjóða. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Snorri Másson snorrim@mbl.is Streymisveitan Viaplay er ekki ólíkleg til þess að ásælast sjónvarpsréttinn í úrvalsdeildum knattspyrnu hér á landi, þegar samningar við Stöð 2 Sport renna út í lok þessa árs.

Baksvið

Snorri Másson

snorrim@mbl.is

Streymisveitan Viaplay er ekki ólíkleg til þess að ásælast sjónvarpsréttinn í úrvalsdeildum knattspyrnu hér á landi, þegar samningar við Stöð 2 Sport renna út í lok þessa árs. Þegar hefur veitan tryggt sér sýningarrétt á leikjum íslenska landsliðsins frá 2022-2028 í gegnum Knattspyrnusamband Evrópu og þar með Íslands. Guðni Bergsson, formaður KSÍ, býst við því að hún muni einnig sýna útboði fyrir íslenska boltann áhuga.

Viaplay sýnir þegar leiki úr efstu deildum fjölda þjóða, Danmörku, Þýskalandi, Skotlandi, Hollandi, Svíþjóð og svo mætti áfram telja. „Enn er í raun og veru ekki komið í ljós hvort þeir hafi áhuga á því hér en það gerir það síðar á þessu ári. Miðað við þróunina held ég að það sé líklegra en hitt, að svo fari. Verandi á þessum markaði hljóta þeir að skoða það,“ segir Guðni í samtali við Morgunblaðið.

Stöð 2 Sport hefur sent út íslenska boltann frá 1998, nú síðast með samningi frá 2015, sem gildir út 2021. Eiríkur Stefán Ásgeirsson, fréttastjóri íþrótta hjá Stöð 2, Vísi og Bylgjunni, segir í samtali við Morgunblaðið að Stöð 2 muni leitast við að halda íslenska boltanum hjá sér. „Það er alveg ljóst að við höfum áhuga á að halda þessu áfram. Við gerum út á það og okkur þykir vænt um íslenska sportið,“ segir Eiríkur. Hann hefur ekki upplýsingar um hvað Viaplay hefur í hyggju í þessum efnum.

Fréttir af samningi Viaplay um leiki karlalandsliðsins féllu sums staðar í grýttan jarðveg í vikunni enda áhyggjur uppi um að aðgengi verði ekki það sama fyrir landsmenn og það væri ef RÚV hefði landað sama samningi. Guðni kveðst skilja þær áhyggjur en segir þó að fjöldi mikilvægra leikja verði í opinni dagskrá, ásamt því sem aðrar ráðstafanir muni greiða fyrir aðgengi. Spurður hve miklu hagstæðari samningurinn er fyrir KSÍ sagði Guðni: „Tekjubótin er ekki gríðarleg en hún er umtalsverð og nauðsynleg.“

Það verður ekki á forræði KSÍ að semja um sýningarréttinn í íslensku deildunum heldur hagsmunasamtakanna Íslensks toppfótbolta, sem eru samtök félaga í efstu deild. Aftur á móti eru samningar KSÍ vegna sýninga á leikjum kvennalandsliðsins í knattspyrnu lausir og þau mál í skoðun. Ekki liggur fyrir hvort Viaplay muni bjóða í réttinn þar en að sögn Guðna verður farið í að skoða þau mál á þessu ári.