Hanna Styrmisdóttir
Hanna Styrmisdóttir
Ráðstefna Listaháskóla Íslands, Hugarflug, fer fram rafrænt 8.-14. febrúar og er þemað að þessu sinni vendipunktur.

Ráðstefna Listaháskóla Íslands, Hugarflug, fer fram rafrænt 8.-14. febrúar og er þemað að þessu sinni vendipunktur. Ráðstefnan er sögð vettvangur fyrir opna, faglega og gagnrýna umræðu um listir, hönnun, og arkitektúr; um þekkingarsköpun á hinu víða sviði lista og skörun þeirra við önnur fræðasvið, með áherslu á fjölbreytileikann sem einkennir nálganir, aðferðir, efnistök, miðlun og rannsóknir sem þar er beitt.

„Við stöndum á vendipunkti í sögunni sem krefst þess af okkur að við ígrundum hlutverk og vægi listanna í endursköpun samfélaga í kjölfar meiri háttar heimsatburða eins og þeirra sem við lifum nú. Fram undan eru ögrandi áskoranir í loftslags- og umhverfismálum, hringrásarhagkerfinu, lýðræðiseflingu og samfélagsgerðinni. Hvernig getum við svarað þessum áskorunum og ögrunum á vettvangi lista? Hvernig hefjumst við handa við að skilja og svara þeim djúpstæðu breytingum á umhverfi okkar sem við stöndum frammi fyrir? Hvernig nýtum við þá hugmyndafræðilegu endurnýjun sem er snar þáttur í listsköpun, umhverfi okkar og samfélagi til heilla? Hvernig hafa listirnar svarað slíkum áskorunum í sögunni?“ segir á vef skólans og að helsta markmið ráðstefnunnar sé að bjóða upp á öruggt rými jafningja þar sem óhætt sé að spyrja opinna spurninga, framkvæma tilraunir og kynna verkefni í vinnslu.

Þar sem ráðstefnan verður rafræn eru þátttakendur hvattir til að nýta sér fjölbreyttar aðferðir, miðla og nálganir til að finna framlagi sínu viðeigandi umgjörð og form á stafrænan hátt og má finna frekari upplýsingar og dagskrá Hugarflugs á vef LHÍ, lhi.is/hugarflug.

Hanna Styrmisdóttir er formaður ráðstefnunefndar Hugarflugs og Karolína Stefánsdóttir er verkefnastjóri.