Alda Margrét Hauksdóttir
Alda Margrét Hauksdóttir
Eftir Öldu Margréti Hauksdóttur: "Spurningar vegna skimunar fyrir leghálskrabbameini, útvistunar rannsókna, taps á þekkingu og mögulegra áhrifa þess á heilsu kvenna."

Félag lífeindafræðinga hefur vakið athygli á illa ígrunduðu yfirfærsluferli í skimun fyrir leghálskrabbameini sem tók gildi 1. janúar 2021.

Heilbrigðisráðherra hefur fullyrt að með útvistun sé verið að auka öryggi sem við drögum í efa. Við höfum óskað eftir viðtali við heilbrigðisráðherra og landlækni vegna breytinganna og upplýsingum frá Sjúkratryggingum vegna samninga vegna útvistunar á rannsóknum tengdum leghálsfrumsýnum en ekki fengið.

Í Læknablaðinu, 2. tbl. 107. árg. 2021, skrifar Reynir Tómas Geirsson læknir og bendir á það gloppótta ferli sem er nú í gangi við yfirfærslu í skimun fyrir leghálskrabbameini frá Krabbameinsfélagi Íslands til heilsugæslunnar í landinu. Hann spyr mikilvægra spurninga:

„Er heilsugæslan tilbúin með þjálfað starfslið og réttan búnað? Eru skoðunarstólar og ljósgjafar eins og best verður á kosið á heilsugæslustöðvum landsins? Hvernig verður tryggt að upplýsingagjöf sé samræmd fyrir allar heilsugæslustöðvar, eftirfylgd afbrigðilegra sýna virk og innköllunarkerfi og skráning meinsemda eða forstiga þeirra sé sem best? Hvar á frumumeinafræðin að vera og hver sér um úrvinnslu HPV-greininga? Hvernig á að reka frumumeinarannsóknirnar og hvar? Hvernig tengjast frumurannsóknir upplýsingum úr HPV-sýnum? Á að endurmeta sýnatökutímann í ljósi nýrra alþjóðlegra rannsókna og um leið fyrri og vonandi nýrra íslenskra rannsókna?“

Hann bendir einnig á þá ómetanlegu reynslu lífeindafræðinga og sérhæfðra frumumeinafræðinga og þá hættu sem skapast, ef reynsla og þekking frumurannsóknarstofunnar færist úr landi. Að frumumeinafræðirannsóknir leggist meira eða minna af á Íslandi, sem aftur hefur áhrif á uppbyggingu nauðsynlegrar sérnámsleiðar fyrir lækna og lífeindafræðinga í meinafræðigreinum.

„Reynsla af útvistun er ekki endilega alltaf góð og ábyrgðarferlar alls ekki skýrir ef eitthvað fer ekki eins og það á að fara í skimuninni, – sem er óhjákvæmilegt að verði. Margt í greiningu og lækningum sjaldgæfari tilvika í heilbrigðisþjónustu ætti alls ekki rétt á sér á Íslandi ef einungis ætti að miða við fjölda tilvika.“

Ekkert í heilbrigðisþjónustu er gert með 100% öryggi. Hins vegar er hægt að gera ferla sem byggja á stöðlun, með skráðum innleiðingar-, eftirfylgni- og umbótaáætlunum sem lágmarka mistök og tryggja rekjanleika.

Lífeindafræðingar sem starfa við og eru sérfræðingar í meðhöndlun lífsýna vita að tryggja þarf gæði og öryggi í söfnun lífsýna, geymslu þeirra og flutningi til að þau nýtist í þær rannsóknir sem þarf að gera á þeim. Við spyrjum hvort og þá með hvaða hætti slíkt sé tryggt?

Nú köllum við eftir samvinnu fagstétta við yfirfærsluferlið þar sem sérfræðiþekking okkar er nýtt til góðs svo ekki verði undirritaður margra ára bindandi samningur með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir heilsu og líf íslenskra kvenna og fjölskyldna þeirra.

Höfundur er formaður Félags lífeindafræðinga. fl@bhm.is

Höf.: Öldu Margréti Hauksdóttur