Jón Svavarsson
Jón Svavarsson
Eftir Jón Svavarsson: "Það er því alveg ljóst að þessi úthlutun er ekki með hagsmuni áfangastaðanna Bíldudals og Gjögurs í huga!"

Á haustdögum var útboð um flugleiðina Vatnsmýrarflugvöllur til Bíldudals og Gjögurs. Þar voru inni í myndinni Flugfélagið Ernir, sem hafði þjónað þessum leiðum ásamt Húsavík og Hornafirði í allmörg ár eða áratugi með miklum sóma, og svo Flugfélagið Norlandair, sem hafði sinnt áætlun til Grímseyjar, Vopnafjarðar og fleiri staða á Norðausturlandinu með miklum sóma. Svo fór að sérleiðin frá Vatnsmýri til Bíldudals og Gjögurs fór til Norlandair en sagan er ekki öll. Skilyrði voru sett til að hægt væri að halda áætlunina reglulega og að til þess væri nægilegur flugfloti og fjöldi sæta á hverjum tíma. Ernir hefur haft þrjár (voru fjórar) Jetstream 19-farþegaskrúfuþotur og eina Dornier 328-skrúfuþotu, 32 farþega, í sinni þjónustu, en Norlandair er með eina Beechcraft B200 níu farþega og Twinn Otter 19 farþega og til stóð að hafa aðra Beechcraft (líklega frá Mýflugi) til vara en hún var seld úr landi í nóvember 2020. Auk þessara hefur Norlandair treyst á Dash 8 200 (minni vélarnar) hjá AIC Flugfélagi Íslands en þær geta ekki lent á Gjögri og hafa nú þegar farið allnokkrar ferðir á Bíldudal. Á meðan er engin þjónusta við Gjögur því sá flugvöllur er frekar takmarkaður og ekki hvaða flugvél sem er getur lent þar.

Augljóst er að Norlandair uppfyllir ekki þau skilyrði sem kveðið var á um í útboðinu og hafa ferðir fallið niður vegna þess meira en eðlilegt gæti talist. Það er því mikill skortur á þjónustustigi við Vestfirðina utan Ísafjarðar. Ég hef áður getið þess í skrifum mínum hve undarlegt það er að veita sérleið flugfélagi sem ekki hefur heimastöð á upphafsstað og þarf því að fljúga með tóma vél og kosta gistingu og dagpeninga fyrir áhafnir í Reykjavík. Það getur komið niður á þjónustunni og hlýtur að hafa mikinn aukakostnað í för með sér.

Það er því alveg ljóst að þessi úthlutun er ekki með hagsmuni áfangastaðanna Bíldudals og Gjögurs í huga, heldur að knésetja gróið flugfélag sem þjónað hefur þessum stöðum í áratugi, af fjársterkum aðilum sem virðast vera að baki þessu flugfélagi og hafa auk þess ekki uppfyllt þær kröfur sem til þess voru gerðar! Norlandair notar undirverktaka sem teljast vera AIC Flugfélag Íslands og þar þarf að liggja fyrir samningur að undangenginni könnun á fjárhagsstöðu og áreiðanleika áður en útboð eru opnuð, en slíkt lá ekki fyrir, heldur aðeins viljayfirlýsing.

Ég spyr því: Eru þetta eðlileg vinnubrögð?

Höfundur er flugmaður, áhugamaður um greiðar samgöngur og flugmál. motiv@simnet.is