Höfundurinn „Hvert orð skiptir máli á sama tíma og engu orði er ofaukið. Elísabet hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina og verða þau að teljast verðskulduð,“ skrifar rýnir um sögu Elísabetar K. Jökulsdóttur.
Höfundurinn „Hvert orð skiptir máli á sama tíma og engu orði er ofaukið. Elísabet hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina og verða þau að teljast verðskulduð,“ skrifar rýnir um sögu Elísabetar K. Jökulsdóttur. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur. JPV, 2020. Innbundin, 143 bls.

Aprílsólarkuldi. Apríl sólar kuldi. Þetta samsetta orð, titill bókarinnar sem hér um ræðir, nær að fanga efni hennar á einstakan hátt. Persónulega og hispurslausa frásögn af einum sterkustu tilfinningum sem mannskepnan býr yfir, ást og sorg.

Þannig er einmitt kuldinn í sólinni sem sést hérlendis í aprílmánuði. Kuldinn bítur í kinnarnar og nær inn að beini á sama tíma og sólin kastar geislum sínum á húðina og sálina. Þannig er sólin tákn um ástina en kuldinn um sorgina. Aprílsólarkuldi stendur því fyrir hæðir og lægðir mannlegra tilfinninga en þannig sveiflur eru einmitt eitt aðalviðfangsefni bókarinnar.

Aprílsólarkuldi greinir frá því sem gerist í lífi aðalpersónunnar Védísar þegar bæði sorgin og ástin verða of sterkar og brengla sýn hennar á veruleikann, án þess að hún geri sér grein fyrir því sjálf.

Sagan er í raun sjálfsævisöguleg en hún er byggð á reynslu Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur, höfundar bókarinnar, sjálfrar. Elísabetu tekst að segja söguna á einlægan hátt og nánast leyfa lesandanum að fljúga yfir liðna atburði með henni án þess að orðum sé eytt í of mikil smáatriði, það sem kannski skiptir ekki máli.

Elísabet verður þannig Védís, ung stúlka, en þó einstæð móðir, sem missir föður sinn án þess að hafa fengið frá honum þá viðurkenningu og leiðsögn sem hún þráði. Í miðju sorgarferli verður hún ástfangin, ástfangin er jafnvel of vægt til orða tekið. Ástin yfirtekur líf hennar gjörsamlega, gleypir Védísi nánast með húði og hári.

Stundum elskaði hann hana svo heitt að hún var alveg að kafna og skildi ekki hvað hún hafði gert tilað verðskulda alla þessa ást. Og þótt hún tryði því og tryði því ekki í sömu andrá að hann elskaði hana var hún stöðugt hrædd um að ást hans myndi hverfa.

Inn í ástina blandast vímuefnanotkun og þegar ástin hverfur fer að bera á geðrænum vandræðum og ranghugmyndum hjá Védísi sem hefur engan áhuga á þeirri hjálp sem henni býðst.

Sagan skiptist nokkuð skýrt í þrjá hluta og má afmarka þá með þrenns konar þrá Védísar eftir viðurkenningu. Fyrst kallaði hún eftir viðurkenningu frá föður sínum, þá frá elskhuganum og loks viðurkenningu samfélagsins eða jafnvel heilags anda.

Sagan er ljóðræn og stundum eins og handan raunveruleikans þrátt fyrir að hún segi frá atburðum sem eiga að hafa átt sér stað. Stíllinn er einstakur en á sama tíma einfaldur og flæðir fallega áfram. Hvert orð skiptir máli á sama tíma og engu orði er ofaukið. Elísabet hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina og verða þau að teljast verðskulduð.

Ragnhildur Þrastardóttir