Sigurstranglegri Patrick Mahomes, leikstjórnandi Kansas City Chiefs, þykir líklegri til sigurs gegn Tom Brady og hans mönnum í Tampa Bay Buccaneers annað kvöld, enda þótt Brady verði á heimavelli í Flórída.
Sigurstranglegri Patrick Mahomes, leikstjórnandi Kansas City Chiefs, þykir líklegri til sigurs gegn Tom Brady og hans mönnum í Tampa Bay Buccaneers annað kvöld, enda þótt Brady verði á heimavelli í Flórída. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NFL Gunnar Valgeirsson Los Angeles Eftir keppnistímabil sem margir íþróttafréttamenn og leikmenn héldu að myndi aldrei ganga upp í Covid-faraldrinum, leika loks Tampa Bay Buccaneers og núverandi meistarar Kansas City Chiefs í Ofurskálarleik NFL-ruðningsdeildarinnar á morgun, sunnudag, í Tampaborg í Flórída.

NFL

Gunnar Valgeirsson

Los Angeles

Eftir keppnistímabil sem margir íþróttafréttamenn og leikmenn héldu að myndi aldrei ganga upp í Covid-faraldrinum, leika loks Tampa Bay Buccaneers og núverandi meistarar Kansas City Chiefs í Ofurskálarleik NFL-ruðningsdeildarinnar á morgun, sunnudag, í Tampaborg í Flórída.

Rétt eins og í mörgum öðrum atvinnuíþróttadeildum, sýndu forráðamenn og leikmennirnir í NFL að hægt er að halda veirunni í skefjum með góðum reglum og skimun leikmanna.

Ákvörðunin um staðsetningu leiksins ár hvert er tekin mörg ár fram í tímann, rétt eins og Ólympíuleikarnir, en þetta er í fyrsta sinn sem lið leikur úrslitaleikinn á heimavelli sínum.

Sjóræningjunum vex ásmegin í hverjum leik

Í Ameríkudeildinni var Kansas City talið sigurstranglegast fyrir keppnistímabilið og liðið stóð undir þeim væntingum allt leiktímabilið – vann t.d. úrslitaleik Ameríkudeildar gegn Buffalo Bills þrátt fyrir meiðsl lykilleikmanna. Í Landsdeildinni var Green Bay Packers talið sigurstranglegast lengi vel, en Tampa Bay jók ásmegin eftir því sem á leiktímabilið leið og Buccaneers unnu frækinn sigur í úrslitaleik Landsdeildarinnar í Green Bay eftir að þjálfari heimaliðsins gerði hrikaleg mistök á síðustu mínútum leiksins með því að neita að gefa leikstjórnanda Packers, Aaron Rodgers, tækifæri á að jafna leikinn. Rodgers mun eflaust verða kosinn leikmaður ársins í deildinni samt sem áður, sem hefur mikið að gera með þá gagnrýni sem þjálfarinn fékk eftir leikinn. Hann hefst klukkan 23.40 að íslenskum tíma annað kvöld.

Leikstjórnendurnir í sviðsljósinu að venju

Að venju ganga pælingar fréttafólks fyrir leikinn mest út á leikstjórnendur liðanna, en staða leikstjórnanda í NFL-deildinni er óvenjuleg í liðsíþrótt, þar sem þeir leikmenn hafa meiri áhrif á úrslit leikjanna en nokkur önnur staða í öðrum liðsíþróttum. Leikstjórnendurnir eru nokkurs konar framlenging á þjálfurum liðanna á vellinum og „lesa“ uppsetningu varnarliðsins í hvert skipti sem boltinn er settur í leik. Þar að auki er það þeirra hlutverk að koma tuðrunni á rétta leikmenn, sem þýðir að þeir verða oft að kasta henni í gegnum lítinn „glugga“ á milli varnarleikmanna sem eru ákafir að koma hendi inn í sendinguna.

Án toppleikmanna í þessari stöðu eiga lið venjulega lítið tækifæri til árangurs í íþróttinni.

Mahomes og Brady

Í ár er umfjöllunin í fjölmiðlum um leikstjórnendurna tvo enn meiri en venjulega, því þeir Patrick Mahomes hjá Chiefs og Tom Brady hjá Buccaneers gætu ekki verið ólíkari. Brady er að reyna að vinna sinn sjöunda meistaratitil á sínu fertugasta og fjórða aldursári, og Mahomes – Íslandsvinurinn sjálfur – er að reyna að byggja upp orðstír sinn með öðrum meistaratitli sínum snemma á ferlinum.

Leikstíll þeirra er ólíkur, en Mahomes er gríðalega lunkinn í að koma sér út úr erfiðum stöðum og samt koma boltanum á rétta leikmenn upp völlinn. Brady reiðir sig hins vegar alfarið á frábærar sendingar sínar, en ef sóknarlínan bregst, getur hann lent í erfiðleikum í leikjum.

Brady er talinn vera besti leikstjórnandinn í sögu deildarinnar – sem enginn einu sinni reynir að andmæla – og hann er að endurskrifa sögubækur deildarinnar með því að vera toppleikmaður í deildinni 43 ára gamall.

Hann hefur fjórtán sinnum komið liði sínu í undanúrslitaleikinn og er nú í tíunda skipti leikstjórnandi liðs í Ofurskálarleiknum. Hlutur sem aldrei áður var talinn mögulegur fyrir leikstjórnanda liðs í deild þar sem launaþak liðanna og hreyfingar leikmanna með lausa samninga gera liðum erfitt fyrir að verja í baráttunni um sæti í úrslitaleiknum ár hvert.

Afrek hans þetta keppnistímabil gæti verið hans stærsta á ferlinum þar sem hann kaus að yfirgefa New England Patriots – og sigurmenninguna þar – og fara til Tampa Bay sem ekki hefur svo mikið sem þefað af úrslitakeppninni í fjórtán ár.

Á þessu keppnistímabili braut hann bæði liðsmet leikstjórnenda hjá Bucs í köstum í endamark og fjölda metra í sendingum sínum, og með því umturnaði hann sóknarliðinu sem hafði klúðrað ótöldum leikjum undanfarin ár með mistökum. Brady lét samherja sína vita á fyrstu æfingu sinni með liðinu að slíkir hlutir yrðu ekki látnir viðgangast á meðan hann væri með stjórnartaumana í sókninni.

Andstæðingur hans hjá Chiefs, Patrick Mahomes (25 ára), er hinsvegar enginn aukvisi. Hann átti skilið að vera kosinn leikmaður ársins í deildinni á síðasta keppnistímabili, en lét sér nægja meistaratitilinn. Mahomes er alger galdramaður í leikstjórnandastöðunni og lék lykilhlutverk í úrslitaleik Ameríkudeildarinnar fyrir tveimur vikum gegn Buffalo, þrátt fyrir að vera á annarri löppinni (fótameiðsl) og að jafna sig eftir rothögg vikuna þar áður.

Flestir sjá fyrir jafnan leik

Það er gífurlega erfitt fyrir meistaraliðin í NFL-deildinni að verja titilinn og engu liði hefur tekist það síðan New England Patriots vann 2003-04.

Flestir sérfræðingar spá jöfnum leik með hárri stigaskorun (um sextíu stig samtals), en frá minni hendi séð hafa meistarar Chiefs yfirhöndina í sókninni. Aðalþjálfari Chiefs, Andy Reid, og sóknarþjálfarinn Eric Bieniemy, eru kænskir í að setja upp sóknarleikinn fyrir Mahomes og það mun sennilega gera gæfumuninn.

Þetta er leikur þar sem við gætum annaðhvort séð Mahomes taka yfir sem toppleikmaður deildarinnar af Brady eða sá síðarnefndi bætir enn einum titlinum við og setti þar með met sem erfitt gæti verið að slá fyrir komandi kynslóðir NFL-leikstjórnenda.

Chiefs 34, Buccaneers 31 er spáin.

gval@mbl.is