— Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hið opinbera ætti að mínu mati að nýta sér í stórauknum mæli ýmsar af þeim lausnum sem nýsköpunarfyrirtæki eru að þróa.

Staða ríkissjóðs gerir að verkum að það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að hugsa verkefni ríkisins upp á nýtt. Rekstur ríkisins er ósjálfbær. Við vorum heppin að staðan var sterk fyrir Covid, þökk sé öflugri og ábyrgri forystu Sjálfstæðisflokksins. Ábyrgð sem ekki var alltaf mikill stuðningur við á þingi. Þess vegna getum við núna mætt samdrættinum með hraustlegri innspýtingu til fólks og fyrirtækja. En til þess að við náum aftur fyrri styrk þarf tvennt að gerast: Atvinnulífið þarf að fá tækifæri til að skapa meiri verðmæti og við þurfum að hugsa verkefni ríkisins upp á nýtt.

Að hugsa verkefnin upp á nýtt

Oftast er meiri pólitískur ávinningur í því fyrir stjórnmálamenn að finna upp á nýjum verkefnum, sem kalla á ný ríkisútgjöld, en að hugsa gömlu verkefnin upp á nýtt. Það er auðvelt að finna hugmyndir að nýjum verkefnum. Oft er líka frekar átakalítið að hrinda þeim í framkvæmd. Þau uppfylla oftast einhverja þörf eða þjóna áhugamálum hjá einhverjum hópum. Þau færa líka oftar en ekki stjórnkerfinu aukin völd og fjármuni og hvorugt af því er líklegt til að mæta mótstöðu.

Allt öðru máli gildir ef hugsa á gömlu verkefnin upp á nýtt. Það kallar á uppstokkun á óbreyttu ástandi sem margir hafa vanist. Ávinningurinn fyrir þá sem njóta viðkomandi þjónustu er ekki endilega augljós öllum. Erfitt getur verið að sanna svart á hvítu að breytingarnar verði til bóta þó að sannfærandi rök séu til staðar. Ávinningurinn fyrir stjórnkerfið er á sama hátt ekki endilega borðleggjandi. Það er ómak fyrir þá sem sinna verkefnunum að stokka upp rótgróið verklag og aðferðafræði, að ekki sé minnst á grundvallarhugmyndafræði. Það raskar rónni og jafnvæginu og ógnar jafnvel stöðugildum.

Rétt er að taka fram að tregðulögmálið gildir ekki bara hjá ríkinu heldur líka hjá fyrirækjum og einstaklingum. Munurinn er hins vegar sá að fyrirtæki og einstaklingar eru keyrð áfram af eiginhagsmunum sem virka sem drifkraftur á erfiðar breytingar ef þær eru skynsamlegar. Fyrirtæki græðir á því að taka upp nýtt og flókið gæðakerfi. Einstaklingur græðir á því að fara í heilsuátak. En stjórnkerfið græðir ekki endilega á því að stokka upp verkefni sín og aðferðafræði, a.m.k. ekki til skemmri tíma.

Auðvitað eru ýmis dæmi um stjórnmálamenn og embættismenn sem hafa hugsað gömul verkefni ríkisins upp á nýtt og þannig náð fram mikilvægum framförum. En það var ekki auðvelt, í því fólst pólitísk áhætta, og það krafðist þess að heildarhagsmunir og langtímasýn væru höfð að leiðarljósi fremur en skammtímaávinningur í næstu kosningum. Við þurfum miklu fleiri slík dæmi.

Tímabær uppstokkun

Ég er stolt af því að hafa fylgt eftir endurskoðun á umhverfi nýsköpunarmála sem felur í sér að Nýsköpunarmiðstöð verður lögð niður. Þannig sparast töluverðir fjármunir um leið og mikilvægustu verkefnin lifa og eflast. Ég er líka stolt af því að hafa lagt niður tugmilljóna króna sjóð sem átti ekki lengur rétt á sér. Þó að hvorugt vegi þungt í samhengi ríkisfjármálanna er mikilvægt að hafa ekki bara augun á nýjum ríkisútgjöldum heldur líka á verkefnum sem þarf annaðhvort að stokka upp, hugsa upp á nýtt eða leggja niður.

Þar eru stærstu útgjaldaliðir ríkisins auðvitað ekki undanskildir. Nýlega kom út skýrsla sem sýnir að framleiðni í heilbrigðisþjónustu á Íslandi hefur minnkað töluvert á undanförnum árum. Þó að myndin sé flókin er þessi aðalniðurstaða áhyggjuefni. Einnig kemur fram að útgjöld til heilbrigðismála á mann jukust hraðar á Íslandi á árunum 2010-2018 en í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, sem er sömuleiðis áhyggjuefni. Nú á loks að ráðast í tímabæra uppstokkun á fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar og taka upp (í skrefum) svokallaða þjónustutengda fjármögnun. Þetta er löngu tímabært og við eigum mjög mikið undir því að vel takist til.

Næg tækifæri

Sköpunarkrafturinn, hugvitið og þrautseigjan eru beinlínis áþreifanleg í frjóum jarðvegi íslenskra frumkvöðla. Hið opinbera ætti að mínu mati að nýta sér í stórauknum mæli ýmsar af þeim lausnum sem nýsköpunarfyrirtæki eru að þróa. Slíkt samstarf er okkur sem samfélagi nauðsynlegt, til að þróast hraðar, bæta þjónustu, minnka kostnað og hugsa hlutina upp á nýtt. Sem betur fer eru auðvitað til dæmi um það, meðal annars í heilbrigðisþjónustu. Slík nálgun ætti að vera úti um allt kerfið. Í því felast tækifæri fyrir hið opinbera, fyrir frumkvöðla, en fyrst og fremst þá sem njóta þjónustunnar. Við þurfum einfaldlega að hugsa hlutina upp á nýtt.